Ég er mín eigin móðir

Ég er ægilega viðkvæm fyrir aumingjageringu einstæðra foreldra. Og get orðið alveg snakill þegar fordómar tengdir hjúskaparstöðu ber á góma; þegar illa ígrunduð orð eru látin falla í minni viðurvist.

Ég hef búið við báðar aðstæður; átt maka og verið einhleyp. Ég minnist þess að hafa skrapað saman fyrir mjólkurpotti með fyrrum manninum mínum og einnig þess að hafa rakað inn seðlum sem einhleyp kona í verkefnavinnu. Ég ber ómælda virðingu fyrir hjónabandinu en það er fjarri því að ég sé sannfærð um nauðsyn maka. Ég er algerlega blind á þá kenningu að annað kynið sé hinu æðra og ég aðhyllist ekki kynjakvóta. Þvert á móti trúi ég því að allar manneskjur, óháð kyni, búi yfir hæfileikanum til að ná sambærilegum árangri á því sviði sem hugurinn leitar til og hef aldrei óskað fyrirgreiðslu á grundvelli þess eins að vera kona.

Ég hef upplifað flestar þær hindranir sem einstætt foreldri getur staðið frammi fyrir. Ég er gjörkunnug þeim mýtum sem bölspár gera ráð fyrir að hendi þá foreldra sem standa einir. Samt stend ég enn í báða fætur og er langt frá því að vera af baki dottin. Þess vegna er ég sannfærð um mátt einstaklingsins. Máttinn sem fólginn er í viljastyrk. Galdurinn er nefnilega ekki fólginn í áfallalausu lífi. Heldur þeirri list að kunna að takast á við mótlæti og haga seglum þannig eftir vindi að skútuna sigli ekki í strand.

Ég er þeirrar skoðunar að hver og einn búi yfir snilligáfu, það eina sem til þurfi sé að opna fyrir gáttina. Ég trúi ekki á “forréttindi þeirra útvöldu”. Í raun trúi ég því ekki einu sinni að nokkur sé útvalinn. Ég trúi því í fullri einlægni að hver og einn búi yfir einstökum hæfileika á afmörkuðu sviði. Það eina sem til þurfi sé úthald og staðfesta. Viljinn til að ná lengra; getan til að velta steininum.

Ég trúi því einnig að ein sú besta fyrirmynd sem foreldri geti verið barni sínu sé að fylgja eigin draumum. Að kunna þá list að tækla mótlæti án uppgjafar; að lifa með börnum sínum en ekki fyrir þau. Að beita lausnarmiðaðri hugsun í vandsnúnum aðstæðum. Að geta handleikið eigin tilfinningar án þess að missa tök á sjálfu ferlinu er ákveðin list.

Ég trúi því einnig að ég sé mín eigin móðir. Að mér beri að beita mér fyrir umhyggju sem vísar inn á við. Fyrirgefningu í eigin garð og hvatningu sem gerir mér kleift að halda áfram. Þegar verst hefur látið hef ég stundum látið þá spurningu falla: “Hvað myndi ég gera nú, væri ég mín eigin móðir, meðvituð um hvar mér hefur mistekist og hvert mig langar að stefna? Myndi ég ávíta sjálfa mig eða hvetja til frekari verka?”

Hvað ef þú værir þín eigin móðir?

SHARE