„Ég lít ekki lengur á konuna mína sem kynveru“

Þetta er kannski ekki rétti staðurinn til þess að skrifa þetta en mér langar svo mikið að tala um þetta vandamál en kem mér aldrei til þess.

Þannig er mál með vexti að ég er 34 ára gamall karlmaður og giftist konu minni fyrir þremur árum og við höfum verið saman í 8 ár. Fyrstu árin vorum við bara 2 alltaf, ferðuðumst til nokkurra landa og nutum lífsins, ástfangin upp fyrir haus. Við vorum bæði í námi sem við höfum lokið núna og allt virðist eiga að vera eins og það á að vera.

Eina sem er að núna hjá okkur er kynlífið og það er ekki þannig að hún vilji það ekki eins og ég heyri vini mína kvarta um að sé á þeirra heimilum heldur er það ég sem hef ekki áhuga. Ég elska og virði konuna mína rosalega mikið og finnst hún falleg og allt það en eftir að við eignuðumst barnið okkar þá breyttist eitthvað.

Sonur okkar er 2 ára gamall og fæðingin hans og meðgangan gekk vel en um leið og hann kom í heiminn fannst mér eitthvað breytt. Mér fannst eins og konan mín væri ekki lengur mín og alls ekki að ég liti á hana sem kynveru. Ég hélt kannski að þetta væri bara því barnið væri nýfætt og ég þyrfti að jafna mig á því, en það gerðist ekki. Svo hélt ég að þetta væri af því að sonur okkar væri alltaf á brjósti og þetta myndi lagast eftir það en það gerðist ekki. Í dag er um ár síðan að strákurinn hætti á brjósti og mér líður ennþá eins og þetta er farið að hafa áhrif á konuna mína og hún er farin að taka eftir þessu.

Ég elska hana og þetta er ekki það að ég sé farinn að horfa eitthvert annað en ég bara ræð ekki við þetta og langar mjög mikið að geta komist framhjá þessu vandamáli.

 

SHARE