Ég táraðist í sundi…. BÓKSTAFLEGA

Sigríður Lárusdóttir heldur úti bloggsíðu sem má finna hér.
Þar rákumst á frábæra grein frá henni sem við fengum að birta hjá okkur.

Greinin var ekki gerð til að benda á sökudólga eða ráðast á neinn heldur til þess að vekja fólk til umhugsunar hvernig við komum fram við samferðafólk okkar.

Líkt og veðrið var hér á höfðuborgarsvæðinu í dag, var beinlínis rökrétt að skella sér í sund. Fyrir var fríður og stór hópur krakkaorma af leikjanámskeiði, kannski varla nema 6-7 ára krútt. Það fór ekki framhjá neinum að þau skemmtu sér konunglega, enda vatn, sól og góður félagsskapur nokkuð skothelt skemmtiefni barna.

Eftir góðan sundsprett, var ég samtímis og kvenhluti þessa hóps í útiklefanum. Þar sem ég horfði á þessu litlu skinn, svo ótrúlega falleg og dugleg að vera hver og ein að reyna að skola hárið í sturtunni, þurrka sér (misvel), koma sunddótinu í töskurnar, klæða sig og greiða, þá fann ég til svo mikillar umhyggju og gleði við að sjá dugnaðinn! En leiðbeinendurnir voru greinilega ekki sammála mér; “drífðu þig, þú ert sko langsíðust hérna!”, “voðalega þurrkar þú þér illa”, “hver er eininlega með þetta handklæði!”……ég bara náði ekki alveg hverju var verið að koma til skila til þessara litlu stúlkna. Að þær væru ekki nógu hraðar? Að þær gerðu þetta ekki nógu vel? Að þær væru ómögulegri en hinar? Þarna varð ég meyr og táraðist….

Þessi fallegu börn eru að læra; læra að verða fullorðin. Þau gera það með því að vera með galopin huga og pikka allt upp sem við þau er sagt, en miklu fremur læra þau af hegðun okkar sem önnumst þau. Þetta er okkar dýrmætasti auður með ólíka hæfileika, sem þau þurfa að fá að finna og rækta til að verða að einstaklingi með heilbrigða sjálfsmynd, byggða á eigin getu og frumkvæði.

Væri ekki best að tala rólega og uppbyggilega til þeirra, koma fram af þolinmæði leiðbeinandans, umburðarlyndi þroskans og kærleika náungans……

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here