Mánaðarlegt egglos konunnar sem fram fer í kringum fjórtánda dag eftir fyrsta dag blæðinga hefur mun öflugri áhrif á líðan og ákvarðantöku en áður var talið; með öðrum orðum – getur hæglega umsnúið hefðbundinni húsmóður upp í iðandi kynbombu og það á einni nóttu.

 

Þó fyrirtíðaspenna sem slík sé vel þekkt fyrirbæri, margumrætt og viðurkennt af flestum hefur egglos konunnar ekki síðri áhrif og getur umbreytt allt frá talsmáta konunnar til klæðaburðar og göngulags; tortryggni í garð annarra kvenna eykst og samhliða því ástleitni – eða löngun í líkamleg atlot.

 

Jafnvel göngulagið verður kynþokkafyllra

 

Það er rétt; sá tími mánaðarins þegar egglos á sér stað í líkama konunnar getur valdið það öflugum hormónasveiflum að jafnvel kaupvenjur kvenna breytast, áherslur í klæðaburði verða kvenlegri og göngulagið getur orðið kynþokkafyllra – dýpri sveifla kemur í mjaðmirnar og konan verður að öllu jöfnu félagslyndari, daðurmildari og orkumeiri; að ógleymdu sjálfsörygginu sem vex að sama skapi.

 

Ekkert leyndarmál að unaðurinn er mestur kringum egglos

 

Sálfræðingar segja umbreytinguna sem fylgir yfirvofandi egglosi vera nátengda þeirri frumstæðu hvöt að laða að sér karl þegar frjósemi konunnar er í hámarki en sjálf Gabrielle Lichterman, sem ritaði bókina 28 Days: What Your Cycle Reveals About Your Love Life – Moods And Potential (já, stelpur, bækur hafa verið ritaðar um tíðahringinn) segir síðustu dagana fyrir egglos vera besta tíma mánaðarins fyrir logandi heita kynlífsleiki og sér í lagi ef konan er að leitast við að verða þunguð.

 

Flegnari blússur, styttri pilsfaldar og breiðari bros?

 

Þróunarsálfræðingar eru margir á sama máli og segja daðurmilda framkomu kvenna í miðjum tíðahring hafa með egglos að gera; en eigi sér ekki endilega sálfræðilegar orsakir. Sjálf segir Gabrielle að konur velji gjarna að klæðast flegnari blússum og bolum, pilsfaldurinn verði gjarna styttri á þessum tíma mánaðarins og að kvenlegar og bogadregnar línur konunnar njóti sín öllu fremur í aðsniðnum klæðum þegar egglos er í nánd; allt vegna þeirrar löngunar kvenna til að vera sýnilegri á hátindi frjóseminnar.

 

Dýrar flíkur og fallegar handtöskur sýna fram á ótvíræð yfirráð

 

Skemmtileg tilgáta borin fram af Karen Pine, þróunarsálfræðing sem starfar við Háskólann í Hertforskíri er sú að konur gangi í gegnum mánaðarlegan “Skreytitíma” sem þjóni því eina markmiði að sýna karlmönnum – leynt eða ljóst – fram á að konan skari fram úr kynsystrum sínum. Þetta vill Karen meina að liggi að baki þeirri þrá ófárra kvenna að festa kaup á dýrum handtöskum, kvenlegum og freistandi skófatnaði eða sjaldgæfum skartgrip.

 

Tortryggni, samkeppni og yfirráðatilburðir færast í aukana

 

Karen heldur því einnig fram að tortryggni kvenna í garð kynsystra sinna; samkeppni og yfirráðatilburðir færist í aukana kringum mánaðarlegt egglos – og þó breytingarnar kunni að vera lítilvægar hafi þær oft teljandi áhrif á líf konunnar.

 

Konan á óumdeildum hátindi kvenleikans kringum fjórtánda daginn

 

“Þegar kona er á mánaðarlegum hátindi sínum er hún í essinu sínu, – jafnvel ómeðvitað – en konur ganga gegnum umrætt blómaskeið í hvert sinn sem nýr tíðahringur hefst. Konan verður sjálfsöruggari og daðurmildari, en þetta kann að vera ástæða þess að konur bítast oft á opinberum vettvangi, líkt og á vinnustöðum. Til að sanna fyrir umhverfinu að þær séu ráðandi í umhverfi sínu og dómineri aðra hugsanlega keppinauta á stefnumótamarkaðinum.”

 

Hvað sem til er í fyrrgreindu er svo einungis á valdi hverrar konu að meta; en konur eru misnæmar fyrir hormónabreytingum þeim sem fylgja eðlilegum tíðahring. Annað er þó að vangavelturnar eru skemmtilegar og geta – ef lesið er varlega í niðurstöður – varpað nýju ljósi á vel þekkt hegðunarmynstur kvenna.

Daily Mail sagði frá

SHARE