Það er búin að vera mikil umræða um verkfall kennara seinustu vikur og þá sérstaklega meðal nemenda, þar sem þetta hefur auðvitað mjög miklar afleiðingar fyrir okkur líka.
En það eina sem ég hef heyrt í umræðunni hjá samnemendum mínum er: „Hvað um mig? Ég er að fara útskrifast!, ég vil ekki seinka náminu mínu, af hverju þurfa þessir kennarar endilega að hafa verkfall núna…“

Mér þykir þetta mjög leiðinlegt andrúmsloft og viðhorf gagnvart yfirvofandi verkfalli, nemendur ættu frekar að standa við bakið á kennurum sínum sem margir hverjir leggja sig virkilega fram um að þú getir lært sem mest.

Mamma mín er lærður kennari og sem krakki var ég í litlum skóla þar sem maður þekkti kennarana sína mjög vel. Ég, ásamt mörgum öðrum, þekki í hverju það fellst að vera kennari og hversu mikinn toll það getur tekið bæði af þeim og aðstandendum kennaranna. Þetta er nefnilega engin 8-4 vinna. Ég get ekki talið hversu oft ég hef séð móður mína og aðra kennara vera taka vinnuna heim til sín, fara yfir ritgerðir um helgar, búa til borðspil svo að þeir sem eigi erfitt með bókina geti líka haft gaman að því að læra og fleira. Ég tala nú ekki um námið sem fólk þarf að fara í gegnum til að verða kennari og til hvers, til að fá svo lítið borgað að margir hverjir ná ekki endum saman?

Ég veit um þónokkra kennara sem eru í aukavinnu um helgar til þess eins að geta rekið heimili.

Ég vil þakka spænskukennaranum mínum fyrir að hafa vakið upp þessa umræðu af fyrra bragði í morgun, þar sem margir kennarar vilja helst ekki ræða þetta við okkur nemendurna. Skiljanlega miðað við viðhorfið sem ég nefndi áðan. En það opnaði mjög mikið augun mín fyrir því hversu erfitt þetta er fyrir kennarana líka, margir hverjir vilja alls ekkert verkfall en eins og hún orðaði það þá er þetta eina löglega verkfærið sem þau hafa til þess að geta gert eitthvað í sinni aðstöðu.

Ég held að margir hverjir geri sér ekki grein fyrir að þetta verkfall er ekkert endilega fyrir akkúrat þessa kennara, heldur kennara framtíðarinnar. Myndir þú leggja í það að fara í kennaranám í dag miðað við aðstæður? Vilt þú að kennararnir sem eru að fara að kenna barninu þínu í framtíðinni, séu svo illa launaðir að þeir geti engan metnað lagt í kennslu vegna þess að þeir þurfa að sjá um aukavinnuna líka? Því þangað stefnir þetta.
Hvort sem það er að koma verkfall eða ekki, sem er ekki orðið ljóst, og hvort sem það beri árangur eða ekki, þá langar mig bara að biðja samnemendur mína í framhaldsskólum til þess að hugsa aðeins um af hverju þetta verkfall yrði. Stíga aðeins út fyrir „ég, um mig, frá mér, til mín“ kassann sem við festumst öll svo oft í, og hugsa til uppáhalds kennarans síns.

Á hann/hún ekki skilið að vera metinn að verðleikum?

Ættum við ekki að standa saman í þessu? Einhver af okkur mun mjög líklega verða kennari í framtíðinni og við ættum að þakka núverandi kennurum fyrir að vera standa í þessari erfiðu baráttu fyrir okkur.

Sigurbjörg Katla Valdimarsdóttir

SHARE