Einlæg hjálparbeiðni – hópnauðgað og eyrun skorin af, fjölskyldan hefur ekki efni á útför (uppfært)

Ásdís Sigtryggsdóttir skrifaði á síðu sína í dag hræðilega sögu sem hún varð vitni af en ungri konu var nauðgað á hrottalegan hátt og myrt.
Fjölskylda hennar átti ekki fyrir útför konunnar svo Ásdís tók til sinna ráða og náði að safna svo hægt væri að halda útför.
Ásdís er greinilega heiðarleg kona því rétt í þessu sendi hún mér póst og bað mig að uppfæra fréttina því hún væri komin með pening fyrir útförinni.
Hinsvegar er UPM alltaf fjárþurfi en það eru samtök sem eru rekin af bláfátæku fólki í sjálfboðavinnu en vinna þau ótrúlega mikilvægt starf þar sem samtökin reyna að ná fram réttlæti fyrir fólk eins og Thandaswu (konuna sem lést).
Fólki er velkomið að senda peninga sem mun koma UPM að góðum notu. Þau þurfa að standa undir leigukostnaði fyrir skrifstofuna, þar sem fólk í neyð getur leitað aðstoðar, þau ráða lögfræðinga fyrir fólk sem brotið hefur verið á og framvegis.
Þau treysta algerlega á frjáls framlög frá einstaklingum sem geta lagt hönd á plóg.

Kæru vinir,

Þið sem mig þekkið vitið að ég myndi aldrei bera fram svona bón nema að vel íhuguðu máli og í þeirri fullvissu að allt væri í réttum farveg. Ég bið ykkur þó að hafa í huga það sem kemur hér fyrir neðan getur vel flokkast sem “trigger” fyrir þá ykkar sem lent hafa í kynferðislegu ofbeldi af einhverju tagi.

Einsog mörg ykkar vitið eflaust er ég stadd í Grahamstown í Suður Afríku að vinna rannsóknarvinnu fyrir meistaritgerðina mína. Svæðið sem ég er á er eitt það fátækasta í landinu og hér er gífurlega margt sem þarf að vinna að og laga. Ég vinn hér með samtökum sem heita Unemployed Peoples Movement – UPM. Þessi samtök eru baráttusamtök atvinnulausra og fátækra fyrir félagslegu réttlæti fyrir þá sem minnst mega sín. Allir sem vinna í þessum samtökum gera það í sjálfboðavinnu og eru atvinnulausir og fátækir sjálfir. Samtökin hafa náð fram réttlæti í mörgum mikilvægum málum, þau hafa til dæmis fengið það fram að rafmagn yrði lagt í hús og moldarkofa í fátækrahverfunum hér í bæ, barist fyrir aðgang að vatni fyrir fólkið sem þar dvelur og barist gegn nauðgunum og kynferðislegu ofbeldi.

Þann 19. Janúar síðastliðin átti sér hrikalegur glæpur stað í einu af fátækrahverfunum hér. Þar var 30 ára gamalli konu hópnauðgað af 6-7 karlmönnum, eyrun skorin af henni og hún barin til óbóta. Þegar að komið var að henni var hún meðvitundarlaus og þegar að henni var loks komið á sjúkrahús kom í ljós að hún hafði hlotið alvarlegar heilaskemmdir. Það tók lögreglunna næstum 3 klukkustundir að koma á vettvang, þrátt fyrir að næsta lögreglustöð væri aðeins 2-3 kílómetra í burtu. Lögreglan lét það einnig liggja á milli hluta að tilkynna málið sem að nauðgunarmál til sjúkrahússins, og því voru engin sýni tekin og stúlkan og föt hennar þveginn. Því var ekki hægt að kæra málið sem nauðgun. Þrátt fyrir að vitni hefðu nafngreint einhverja af árásarmönnunum tók langan tíma fyrir lögregluna að yfirheyra þá og höfðu þeir því tíma til þess að tala sig saman um atburði kvöldsins. Eftir yfirheyrslur var þeim einnig sleppt. Árásarmennirnir, í hóp með öðrum hafa einnig haft í líflátshótunum við vitni, sem þurftu að flýja svæðið og fara til ættingja í annari borg til að vernda líf sitt. Fyrir rúmri viku síðan lést stúlkan svo af sárum sínum, hún komst aldrei til meðvitundar aftur. Því er málið nú orðið að morðmáli. Ég heimsótti hana sjálf á sjúkrahúsið ásamt ættingjum hennar og get með sanni sagt að það var ein hræðilegasta og sorglegasta stundin í mínu lífi hingað til.

Stúlkan sem um ræðir átti ekki eftirlifandi foreldra og bjóð með öldruðum frænda sínum í agnarsmáu kofaskrifli í einu af fátækrahverfunum hér. Bæði hún og allir eftirlifandi ættingjar hennar eru bláfátæk, einsog svo margir aðrir hér, og eiga vart fyrir mat, hvað þá fyrir kostnaði sem hlýst af útför. UPM tóku það að sér, fyrir hönd eftirlifenda hennar að reyna að ná fram einhverskonar réttlæti í þessu máli. Samtökin hafa unnið þrotlaust að því síðan að knýja fram umfjöllun í málinu og setja þar með þrýsting á yfirvöld um að opna rannsóknina aftur og ná fram einhverskonar réttlæti fyrir hana og fyrir fjölskyldu hennar. Það tókst að lokum, með því að fá umfjöllun um málið á forsíðu frétt víðlesnasta blaðs svæðisins og nú hafa yfirvöld og lögrlega loks hafið rannsókn í málinu aftur. UPM hafa einnig reynt að aðstoða fjölskylduna við að standa undir kostnaði við útförina, enda var það þeirra eina ósk að fá að kveðja þessa ungu og fallegu stúlku í blóms lífs sins með viðeigandi hætti. Nú er svo komið að allir sjóðir eru uppurnir. UPM hafa nýtt öll sín tengsl til þess að afla fjár fyrir útförinni og þarf meira til ef ekki á að steypa fjölskyldunni í skuldir við okurlánara sem þau ná aldrei að greiða.

Því langar mig að biðja ykkur, kæru vinir, að athuga hvort þið megið missa einhvern aur. Allt hjálpar og allt er betra en ekkert. Sá kostnaður sem stendur eftir er um 65.000 krónur, og ég lofaði að athuga hvort að ég gæti hjálpað eitthvað. Ég heiti því og gef mitt drengskaparloforð fyrir því að allur peningurinn fer í réttar og traustar hendur og mun jafnvel leggja fram bankayfirlit og kvittanir fyrir því, ef einhver hefur áhuga á því. Aðstæður hér eru hrikalegar og þetta ofbeldi sem hún varð fyrir er verra en hægt er að lýsa með góðu móti. Það væri fjölskyldu hennar mikill léttir á þessum ótrúlega erfiðu tímum, ef hægt væri að sjá til þess að útför hennar, sem var nógu sorgleg fyrir, yrði ekki til þess að þau steyptust í vítahring skulda. Þess má líka geta að fólk hér hefur oft á milli 10.000 – 15.000 krónur til að lifa af á mánuði. Þrátt fyrir að 65.000 virðist kannski ekki óyfirstíganlega há upphæð fyrir íslendinga, þá getur það verið hálfsárslaun fyrir fólk sem að býr í þessum hörmulegu aðstæðum.

Efað ykkur langar að vita meira um þetta mál, þessi samtök eða eitthvað sem tengist því sem ég er að gera hér, er ykkur auðvitað guðvelkomið að hafa samband við mig.

Takk kærlega fyrir að taka ykkur tíma í að lesa þetta og ég yrði líka mjög þakklát ef þið sæjuð ykkur fært um að deila þessu með ykkar vinum.

Ástarkveðjur

Ásdís

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here