EKKI borða þetta ef þú ert með vanvirkan skjaldkirtil

Það getur verið erfitt að eiga við vanvirkan skjaldkirtil og það sem þú lætur ofan í þig getur haft mikið að segja fyrir batann. Sumar fæðutegundir geta meira að segja skemmt fyrir lyfjunum sem þú tekur vegna skjaldkirtilsins.

Það er ekki tekið út með sældinni að kljást við skjaldkirtilinn en þú ert ekki ein/n en talið er að um 12% manna muni eiga í vanda vegna skjaldkirtils á lífsleiðinni. Skjaldkirtilsvandi getur verið mjög falinn og er sagt að um 60% Ameríkana sem eru með skjaldkirtilssjúkdóm, viti ekki af því.

Sumt er ekki hægt að ráða við eins og erfðir og umhverfið í kringum þig. Mataræði spilar samt stóran þátt í þessu líka og þess vegna er gott að vita hvað þú ættir að forðast ef þú ert með vanvirkan skjaldkirtil.

1. Forðastu mat með soja, eins og edamame baunir, tófú og miso

Lengi hafa verið hugmyndir um hugsanleg neikvæð áhrif sem ákveðin efnasambönd í soja – svokallað isoflavón – geta haft á skjaldkirtilinn. Sumir vísindamenn telja að of mikið soja auki líkurnar á að einstaklingur fái vanvirkan skjaldkirtil. Aðrir telja að aðeins þeir sem eru með bæði vanvirkan skjaldkirtil og joðskort ættu að forðast neyslu á soja.

Það eru engar sérstakar reglur um neyslu á soja, en sumar rannsóknir benda til þess að neysla á soja geti haft áhrif á getu þína til að vinna úr skjaldkirtilslyfjum. Það er semsagt gott að bíða í það minnsta 4 klukkustundir, eftir að þú tekur lyfin, með að borða sojavörur. Leitaðu til læknisins til að sjá hvað hentar þér best.

2. Grænmeti eins og brokkolí og blómkál

Grænmeti eins og brokkolí og hvítkál eru full af trefjum og næringarefnum, en þau geta truflað framleiðslu skjaldkirtilshormónsins ef þú ert með joðskort. Ef þig vantar joð er gott að takmarka neyslu þína á rósakáli, hvítkáli, blómkáli, grænkáli, næpum og blaðkáli, því rannsóknir sýna að melting á þessu grænmeti getur hindrað getu skjaldkirtilsins til að nota joð, sem er nauðsynlegt fyrir venjulega virkni skjaldkirtilsins.

Ef þú hefur verið greind/ur með bæði vanvirkan skjaldkirtil og joðskort, eru nokkur atriði sem þú getur gert til að gera þetta grænmeti minna skaðlegt. Það getur dregið úr þessum neikvæðu áhrifum að elda grænmetið en þú ættir að sama skapi að takmarka neyslu þína á þeim.

Sjá einnig: Skoðaðu hvernig skjaldkirtillinn þinn er – Þarf að kanna hann frekar?

3. Glúten, eins og í brauði, pasta og hrísgrjónum

„Þeir sem eru með vanvirkan skjaldkirtil ættu að íhuga að lágmarka neyslu sína á glúteni, próteini sem finnst í matvælum unnum úr hveiti, bygg, rúg, og öðrum kornum,“ segir Ruth Frechman í Los Angeles sem er talsmaður Academy of Nutrition and Dietetics. Ef þú hefur verið greind/ur með glútenóþol getur glúten valdið ertingu í smáþörmum og hamlað upptöku skjaldkirtilshormónalyfja.

Í grein sem birt var í maí 2017 í tímaritinu Endocrine Connections kom fram að vanvirkur skjaldkirtill og glútenóþol haldast oft í hendur. Þó hafa ekki verið gerðar neinar rannsóknir sem hafa sýnt fram á að glútenlaust mataræði geti meðhöndlað skjaldkirtilssjúkdóma. Það gæti samt verið sniðugt að ræða við lækni um hvort það væri rétt að próf að taka út glúten.

Ef þú ákveður að borða glúten, vertu viss um að velja heilhveitis brauð, pasta og hrísgrjón. Þau eru trefjarík og full af næringarefnum sem geta hjálpað til við að bæta ójafnvægi í þörmum, sem er algengt einkenni vanvirks skjaldkirtils. Vertu einnig viss um að taka skjaldkirtilslyfin þín nokkrum klukkustundum fyrir eða eftir að þú borðar trefjaríkan mat til að koma í veg fyrir að þeir trufli upptöku skjaldkirtilshormónanna.

4. Feitur matur eins og smjör, kjöt og allt steikt

„Komið hefur í ljós að fita getur truflað líkamann í upptöku á skjaldkirtilshormónum,“ segir Stephanie Lee dósent í innkirtlafræði, næringu og sykursýki við Boston Medical Center.

Fita getur einnig haft áhrif á getu skjaldkirtilsins til að framleiða hormón. Sumir heilbrigðisstarfsmenn mæla með því að skera út allan steiktan mat og draga úr neyslu á fitu eins og smjöri, majónesi, smjörlíki og fitu af kjöti.

Sjá einnig: 9 atriði sem þú þarft að vita um skjaldkirtilinn

5. Sykraður matur

„Vanvirkur skjaldkirtill getur valdið hægari efnaskiptum,“ segir Ruth Frechman. Það þýðir að þú getur farið að bæta á þig ef þú passar þig ekki. „Þú vilt forðast mat sem er með miklum sykri því hann inniheldur fullt af hitaeiningum án allra næringarefna,“ segir Ruth.

Það er best að takmarka inntöku á sykri eða bara að sleppa honum alveg.

6. Unnin og frosin matvara

„Unnin matvara getur innihaldið mikið af natríum en fólk með vanvirkan skjaldkirtil ætti að forðast natríum,“ segir Ruth. Ef maður er með vanvirkan skjaldkirtil eykur það líkurnar á því að maður fái of háan blóðþrýsting og neysla á natríum eykur líkurnar enn meira.

Lestu aftan á pakkana og finndu hversu mikið af natríum (sodium á ensku) er í vörunni. Reyndu að kaupa þá vöru sem er með lægsta magnið af natríum. Fólk með of háan blóðþrýsting ætti að neyta í mesta lagi 1.500 mg af natríum á dag.

Baunir eins og linsubaunir og sojabaunir.

7. Óþarfa magn trefja úr baunum, belgjurtum og grænmeti

Það er mjög gott fyrir þig að fá nóg af trefjum en ef þú færð of mikið af þeim getur það eyðilagt meðferðina við vanvirka skjaldkirtlinum. Daily Guidelines for Americans mælir með því að fullorðnir taki um 20- 35 grömm af trefjum á dag. Allt magn umfram það hefur áhrif á meltingarfærin og getur einnig haft áhrif á upptöku skjaldkirtilshormónalyfja.

Ef þú ert á trefjaríku mataræði, biddu lækninn þinn um hærri skammt af lyfjum. Það getur verið að þú þurfir hærri skammt ef þú ert ekki að ná að vinna vel úr lyfjunum.

Sjá einnig: Vanvirkur skjaldkirtill vegna sjálfsofnæmis?

8. Kaffi: Tímasettu fyrsta bollann vandlega

Komið hefur í ljós að koffín hindrar upptöku skjaldkirtilslyfjanna. „Fólk sem hefur verið að taka lyfin með morgunkaffinu var með mikið ójafnvægi í gildunum fyrir skjaldkirtil og erfitt var að finna út ástæðu þess,“ sagði Stephanie. „Ég mæli með því við fólk að taka lyfin með vatni og bíða í að minnsta kosti 30 mín með að fá sér fyrsta kaffbollann.“

9. Alkóhól er ekki gott fyrir skjaldkirtilinn

Neysla á áfengi getur bæði haft áhrif á hormónagildin og á getu skjaldkirtilsins til að framleiða hormón. Alkóhól virðist hafa eituráhrif á skjaldkirtilinn og dregur úr getu líkamans til að nota skjaldkirtilshormón. Helst ætti fólk með vanvirkan skjaldkirtil ekki að drekka áfengi eða drekka mjög sjaldan.

Heimildir: Everydayhealth.com

SHARE