Ekki góð blanda – Fæðingasaga

Drengur fæddur 2.febrúar, 2009

Þetta byrjaði þannig að ég fór að fá einhverja verki á fimmtudagsnóttinni og það mikla að ég fór fram úr því að ég gat ekki legið í rúminu fyrir þessum verkjum. En þeir duttu svo loksins niður og ég gat farið upp í aftur og sofið eitthvað aðeins. Um morguninn þá var ég með seyðing í vinstri síðunni en enga verki. Upp úr hádegi þá fór ég að fá verki aftur en bara í vinstri síðuna þannig að ég ákvað að vera ekkert að hringja upp á deild. Mér fannst þetta vera frekar furðulegir verkir og líka út af því að ég nennti ekki að vera að fara upp á deild ef ekkert væri síðan að gerast. En verkirnir ágerðust þegar líða tók á daginn og fóru svo seinnipartinn að verða svo vondir að ég fór að kasta upp út af þeim. Þegar verkirnir urðu verri og verri þá bað ég manninn um að hringja upp á deild og tala við ljósu en hún hélt að þetta væru líklega ekki hríðar heldur grunaði hana að þetta væri eitthvað tengt nýrunum í mér. Þannig að maðurinn hringdi í vakthafandi lækni og hann vildi fá að sjá mig til að geta skorið út um þetta.
Við mættum til læknisins um ellefu leytið á föstudagskvöldi og hann vildi fá þvagprufu og út úr henni kom að ekki væri allt með felldu. Ég var komin með sýkingu í nýrun sem að orsökuðu þessa vondu verki. Læknirinn vildi leggja mig inn þannig að við fórum upp á fæðingardeild þar sem að tók á móti mér yndisleg ljósa og læknir og var ég sett beint upp í rúm og fékk strax lyf við sýkingunni og vökva beint í æð. En þrátt fyrir dúndur verkjalyf þá héldu þessir verkir áfram og ég kastaði upp í hverju nýrnakastinu á fætur öðru. Ég svaf varla dúr þessa nótt og var því þreytt og búin á því daginn eftir.
Á laugardeginum þá voru verkirnir ekki alveg eins slæmir en vondir voru þeir samt. Ég gat farið að rölta aðeins um en ekki lengi í einu þar sem ég var orðin svo þreytt eftir alla þessi verki. Og auðvitað var það ekki að hjálpa til að vera með auka manneskju inn í sér Laugardagurinn leið bara þannig að ég internet casino lá mest allann í rúminu þar sem að verkirnir héldu áfram og ég gat lítið gert nema liggja eða reyna að rölta aðeins um. Eina breytingin á verkjunum var sú að ég var hætt að kasta upp þegar ég fékk þá.
Á sunnudeginum var ég orðin yfir mig þreytt og fannst ég vera hálf sjabbí þar sem ég hafði ekki komist í sturtu frá því á föstudeginum. Mér var boðið að fara í baðkarið inn á fæðingarherbergi sem ég þáði og vá hvað það hjálpaði mér að slaka á. Ég mátti liggja þar eins lengi og vildi þar sem ekki var von á neinni konu í fæðingu og ég lá í þó nokkurn tíma og maðurinn bætti bara við heitu vatni þegar á þurfti að halda. Eftir baðið þá náði ég að leggja mig í smá stund. Verkirnir héldu líka áfram á sunnudeginum og voru svipaðir og daginn áður. Síðan upp úr klukkan sjö um kvöldið þá fer ég að fá aukna samdráttarverki og ljósan skoðaði mig þá og þá var leghálsinn orðinn hagstæður en það leit samt út fyrir að setja þyrfti mig af stað. Hún gaf mér verkjatöflu svo að ég gæti sofnað eitthvað. Það gerði rosa lítið og ég kannski náði að lúra í mesta lagi í hálftíma. Um ellefuleytið um kvöldið þá fara verkirnir að ágerast og ljósan kíkir á mig og þá er ég komin með 3 – 4 í útvíkkun. Sem betur fer fór ég sjálf að stað og þurfti ekki í gangsetningu. Klukkan eitt um nóttina þá er ég komin með mikla og vonda verki og förum við þá inn í fæðingarherbergið og þar er ég látin prófa gasið á meðan þangað til læknirinn kemur sem setti upp legginn fyrir mænudeyfinguna. Þessi mænudeyfing hélt í mér lífinu því að í hvert skipti sem ég fékk hríðar þá fékk verki í nýrun og þeir verkir voru þúsund sinnum verri en hríðarverkirnir sjálfir.
Útvíkkunin gekk mjög hægt yfir nóttina og var það ekki fyrr en um átta leytið á mánudagsmorgni sem ég var komin með 10 í útvíkkun og gat farið að rembast. Það gekk svona frekar illa þar sem ég fékk ekki rembingsþörf og rembdist þar af leiðandi ekki alveg nóg til að koma krílinu út. Það var ekki fyrr en mænudeyfingin fór að minnka að ég fór að fá þörfina til að rembast. Þegar hún hætti að virka þá byrjuðu allir verkir aftur og ég orðin mjög þreytt bæði eftir nokkrar svefnlausar nætur og veikindin að það gekk frekar illa að koma barninu út.
En klukkan 10:17 á mánudagsmorgninum 2. febrúar þá kom þessi stæðilegi strákur í heiminn. Hann var 4155 gr eða tæpar 17 merkur og 52 cm.
Ástæðan fyrir því að það gekk svona illa að koma honum út var að hann kom skakkur að með hausinn og var hann með stórann og dökkfjólubláan marblett á hausnum þegar hann kom út.
Og ekki nóg með það þá tábraut ég mig tveimur vikum fyrir settan dag þannig að ég var á hækjum og með þessa svakalegu verki. Ekki góð blanda get ég sagt ykkur!!

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here