Eru kallaðar pokahórur – „Þetta er fjölskylduharmleikur“

Jóhannes Kr. Kristjánsson fréttamaður skrifar pistil á síðunni sinni þar sem hann vill vekja fólk til umhugsunar um það að ungu stúlkurnar tvær sem voru handteknar í Tékklandi eru bara börn sem enn eru að mótast:

„Hvar voruð þið átján ára gömul? Hvað voruð þið að gera það ár? Um hvað hugsuðuð þið? Ég veit hvar ég var. Ég stundaði nám við Héraðsskólann að Núpi í Dýrafirði fyrir áramót og eftir áramót vann ég í sláturhúsinu á Þingeyri. Varð 19 ára í febrúar. Ég leiddi hugann að þessu þegar mér varð hugsað til stúlknanna tveggja sem voru handteknar í Tékklandi. Þær eru nýorðnar 18 ára. Með réttu ættu þær 2 ár eftir í stúdentsprófið. Veruleikinn sem blasir við þeim nú getum við ekki ímyndað okkur. Fangelsin í Tékklandi eru víst ekki upp á marga fiska og allur aðbúnaður er slæmur. Þessi vist – sama hversu stutt hún verður, mun breyta lífssýn þessara stúlkna til frambúðar. Tíminn mun leiða í ljós hvernig þær koma út úr þessu,“ segir Jóhannes á síðu sinni.

Jóhannes bendir einnig á það að við þurfum að fara varlega í það að dæma, sérstaklega í svona málum, en það sé auðvelt að detta í einhverja sleggjudóma í málum eins og þessum.
„Við megum heldur ekki gleyma að þetta er fjölskylduharmleikur og hefur áhrif á stóran hóp fólks sem tengist stúlkunum. Lífsreynsla sumra stúlknanna sem ég hef rætt við er hrikaleg. Sumum hefur verið nauðgað og stundum af fleiri en einum manni. Þær hafa selt sig fyrir dópi. Þær hafa verið seldar til fullorðinna karlmanna sem eru ofarlega í fíkniefnaheiminum – allt gert til að „gleðja“ þá! Þær hafa gengið á milli fullorðinna karlmanna í dópheiminum og eru af þeim kallaðar „pokahórur.“ Og þegar þessir menn hafa fundið sér ný fórnarlömb er þeim hent út úr hópnum og standa einar eftir.“

Pistill Jóhanness fær mann til að hugsa öðruvísi um þetta mál og finna til með þessum vesalings stúlkum sem eru bara peð í miklu stærra spili: „Mjög líklega hafa aðrar töskur sem önnur burðardýr hafa borið komist á leiðarenda. Nú sitja þessir fullorðnu einstaklingar sem fórnuðu tveimur 18 ára stúlkum til verksins, brosandi með milljónirnar í kringum sig. Þessir einstaklingar munu örugglega ekki leggja krónu í að hjálpa þessum tveimur 18 ára stúlkum í fangelsinu þannig að þær geti keypt nauðsynjar eða í lögfræðikostnaðinn sem hlýst af málaferlunum. Þeir eru án efa farnir að skipuleggja næstu ferð – farnir að finna næsta burðardýr sem á að fórna.“

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here