Lilja Katrín gekk að eiga unnusta sinn í sumar og fóru þau heldur óvenjulega leið í þeim efnum. Bónorðið var líka ansi óvenjulegt, en það var sýnt í Ísland í dag á Stöð 2. Lilja er reyndar dugleg að gera óvenjulega hluti, en nú er hún að skipuleggja sólarhrings bökunarmaraþon.
Lilja Katrín Gunnarsdóttir, leikkona, fjölmiðlakona og áhugabakari með meiru, stofnaði kökubloggið blaka.is fyrir um ári. Hún hafði lengi gengið með þann draum í maganum að opna fallega síðu þar sem hún gæti sett inn uppskriftir og myndir af kökunum sem hún væri að baka. Maðurinn hennar, Guðmundur R. Einarsson vefari, hjálpaði henni að láta drauminn verða að veruleika. Hún er alltaf að fá nýjar hugmyndir sem tengjast bakstri og sú nýjasta er sólarhrings bökunarmaraþon til styrktar Krafti, stuðningsfélagi fyrir ungt fólk með krabbamein, og aðstandendur þess.
Ætlar að baka í heilan sólarhring
„Frænka mannsins míns var fyrir stuttu síðan í auglýsingu fyrir Kraft. Hún missti fótinn vegna krabbameins. Ég veit að það var erfitt fyrir hana að stíga þetta skref en mér finnst hún svo brjálæðislega hugrökk. Mér fannst hún svo góð fyrirmynd að gera þetta. Hún sagði mér frá Krafti, en það er kannski ekki mikið talað um félagið og hvað er verið að gera þar. Hugmyndin að bökunarmaraþoninu fæddist út frá því. Mig langaði að gera eitthvað. Ég nennti ekki að hlaupa í Reykjavíkurmaraþoninu, ég hef gert það áður og það er mjög gaman, en að vera með tvö börn og alltaf þreytt, það hefði liðið yfir mig,“ sagði Lilja sem einmitt var frekar illa sofin þegar við hittumst, því 14 mánaða dóttur hennar þykir ekki gaman að sofa. Og þar fyrir utan er hún að taka tennur. Dóttirin semsagt, ekki Lilja. En hin dóttirin, þessi 6 ára, sefur sem betur fer á nóttunni.
„Ég ákvað því að fara í annars konar maraþon, aðeins lengra reyndar. Það hefði samt örugglega tekið mig sólarhring að hlaupa heilt maraþon, svo þetta kemur á sama stað niður. Mér þykir bara miklu skemmtilegra að baka og borða kökur heldur en að hlaupa.“
Lilja ætlar því að bjóða öllum þeim sem hafa áhuga á góðum kökum og vilja styrkja gott málefni, heim til sín í sólarhringslangt kaffiboð, sem hefst klukkan 12 á hádegi þann 17. september næstkomandi.
„Ég hef smá áhyggjur af því að vera ekki með hrærivél, en ég hef aldrei átt hrærivél. Ég nota bara handþeytara. Það á eftir að koma í ljós hvort ég fæ krampa í upphandleggina,“ segir hún hlæjandi.
Aldrei dreymt um brúðkaup
Þrátt fyrir að blaðamaður sé mikill áhugamaður um góðar kökur getur hann ekki haft augun af einstaklega fallegum hælaskóm sem Lilja klæðist. Hún tekur fram að þetta séu brúðarskórnir hennar sem sáust reyndar ekkert fyrir kjólnum þegar hún gifti sig í sumar. Þeir fá því að njóta sín við önnur tilefni. „Við giftum okkur 23. júlí síðastliðinn svo það er bara rétt rúmur mánuður síðan. Þetta var ógeðslega gaman og ég mæli með þessu.“ Lilja viðurkennir þó að það hafi tekið á taugarnar að skipuleggja eigin brúðkaupsveislu, en hún og maðurinn hennar höfðu mestar áhyggjur af því að veislan yrði ekki nógu skemmtileg. „Mig hafði aldrei dreymt um að gifta mig þannig ég hafði enga hugmynd um hvað ég vildi. Ég byrjaði að skoða brúðarkjóla og vissi ekki neitt. Og skreytingar. En svo byrjar maður og þá koma upp allskonar hugmyndir. Það var bara eitt atriði sem við vorum alveg viss um að við vildum. Það var staðsetningin – í hlöðunni í Laxnesi í Mosfellsdal.“
Um var að ræða hundrað manna veislu, sem samt var mjög heimilisleg, að sögn Lilju. Og þar sem veislan var uppi í Mosfellsdal ákváðu þau að panta rútu til að ferja gestina í bæinn, en til stóð að brúðhjónin færu einnig með rútunni. Það fór hins vegar ekki svo. „Á þeim tímapunkti fann ég bara að ég varð að setjast niður og fá mér heilt vínglas án þess að nokkur væri að biðja mig um að koma hingað eða þangað eða taka mynd af mér. Það var búið að vera mjög gaman, en ég fann það þarna hvað ég var búin að fá nóg af áreiti. Þetta var besta vínglas sem ég hef drukkið.“ Kvöldið endaði svo á því að Lilja og maðurinn hennar fóru heim með vinahjónum sínum í einn drykk og sofnuðu næstum því á sófanum hjá þeim. Þau náðu þó að komast til síns heima áður en það gerðist. Uppgefin en ánægð.
Sögðu já við skjá
Lilja segir stóra daginn hafa verið frábæran í alla staði, en hún væri samt alveg til í að prófa að upplifa hann aftur án spennufallsins sem myndaðist þegar allt var að gerast. „Mesta stressið var reyndar bara fyrsta hálftímann eftir að við komum inn. En við vorum búin að reikna með því þannig við undurbjuggum smá grín í athöfninni til að létta pressuna. Við létum Pál Óskar gefa okkur saman á skjá,“ segir Lilja, en maðurinn hennar þekkir til hans eftir að hafa útbúið fyrir hann vefsíðu. „Hann var staddur í Bandaríkjunum og komst ekki til að syngja í brúðkaupinu, en vildi samt gera eitthvað. Hann kom sjálfur með þessa hugmynd, að gefa okkur saman. Við bárum þetta undir prestinn og honum fannst það mjög fyndið. Þannig að einn eftirmiðdag fyrir brúðkaupið fórum við heim til Páls Óskars og tókum upp myndband þar sem hann talaði í einhvers konar sýndarheimi og við sögðum já við skjá á brúðkaupsdaginn. Við þurftum reyndar að segja aftur já við prestinn, en það var aukaatriði.“
Brjálæðislegt bónorð
Bónorð Guðmundar til Lilju var líka mjög frumlegt og skemmtilegt, en það fór fram í þættinum Ísland í dag. Hann fékk þáttastjórnendur til liðs við sig við að gabba Lilju aðeins, svo hann gæti beðið hennar fyrir framan myndavélarnar, að fjölskyldu og vinum viðstöddum. Með áhorfendur heima í stofu. Hún var látin halda að hún væri að hjálpa annarri konu við að undirbúa bónorð til kærasta hennar. „Mér hefði aldrei dottið í hug að þetta myndi gerast. Þetta var svo langt fyrir utan hans þægindaramma. Hann hatar alla athygli, ólíkt mér. Mér líður eiginlega eins og þetta hafi aldrei gerst. Þetta var svo brjálæðislega framandi. Ég upplifði algjöra geðshræringu þegar ég áttaði mig á að þetta væri að gerast. Það fyrsta sem ég sá þegar ég kom niður í kjallarann á Snaps var hann með kampavínsglas og mig langaði að fara að hágráta. En svo fór ég að hlæja. Ég trúði því ekki að einhver hefði gert allt þetta fyrir mig. Mér fannst það svo skrýtið. En mjög góð tilfinning. Svo hugsaði ég samt með mér að ég gæti aldrei toppað þetta. Ég hef reynt að koma honum á óvart á afmælinu hans, en hvað gæti ég gert? Flogið með hann til Afríku? Fara með hann í loftbelg?“ spyr Lilja og hlær.
Þrátt fyrir að bónorðið bæri að með óvenjulegum hætti var Lilja aldrei í vafa um hvert svarið yrði. Hún hafði oft hugsað út í hvernig hún myndi bregðast við ef þessi spurning kæmi upp.
Eftir bónorðið átti þau svo frábært kvöld með fjölskyldu og vinum þar sem hún reyndi að ná sér niður á jörðina. „Þetta var eiginlega meira spennufall en eftir brúðkaupið. Við höfðum talað um að gifta okkur en ég var búin að segja við hann að hann yrði að biðja mín. Það mátti alveg vera bara uppi í sófa yfir sjónvarpinu. En ég vildi ekki að við myndum sammælast um að trúlofa okkur. Ég vildi fá bónorð en þetta var svolítið sjokk.“
Meiri ró og festa
Guðmundur sagði Lilju eftir á að hann hefði reynt að hugsa upp leið til að biðja hennar þannig hún gæti ekki sagt nei. Þetta varð niðurstaðan. Svo bætti hann því að þetta yrði allt sýnt í sjónvarpinu. „Þá fékk ég annað sjokk. Þó mér finnist athygli ekki leiðinleg þá fannst mér þetta pínu skrýtið. Þetta var svolítið persónulegt.“
En hvernig líður henni svo sem giftri konu? „Það er rosa þægilegt að vera gift. Ég hélt þetta væri eins og þegar maður á afmæli og vaknar daginn eftir einu ári eldri án þess að nokkuð hafi breyst. En þetta er ekki þannig. Það er meiri ró, meiri festa og meira öryggi. Það er auðvitað vinna að vera í hjónabandi. Það getur nefnilega alveg verið hættulegt að finna fyrir öryggi og ró. Þá getur maður dottið í einhvern fasa þar sem manni finnst maður ekki þurfa að gera neitt flippað lengur. Eins og dautt línurit. Við erum samt dugleg að gera skemmtilega og sæta hluti og tölum mjög mikið saman, þannig ég held það verði ekki þannig.“
Mynd/Rut
Viðtalið birtist fyrst í amk, fylgiblaði Fréttatímans.