Hannah Anderson rýfur þögnina og segir að sá sem rændi henni hafi átt skilið að deyja 

Hann var fjölskylduvinur og pyntaði og drap 8 ára gamlan dreng og móður hans, kveikti svo í húsinu og flúði því næst og tók Hönnu, 16 ára dóttur konunnar með sér.

Konan og sonur hennar fundust í rústunum ásamt heimilishundinum.

DiMaggio, ódæðismaðurinn og  Hanna höfðu marghringt hvort í annað  meðan hún var á klappstýruæfingu þann 4 ágúst og nokkrum klukkustundum síðar var kveikt í húsi móður hennar.

DiMaggio var eins og frændi barnanna og náinn fjölskylduvinur í hartnær tuttugu ár. Hann bauð Hönnu oft með sér í ferðalög, nú síðast til Malibu og  Hollywood.

Alríkislögreglan skaut DiMaggio til bana uppi í fjöllum í Idaho eftir víðtæka leit sem stóð í sex daga og björguðu Hönnu.

Hanna ásakar sjálfa sig fyrir það sem gerðist og hefur tjáð sig frjálslega um það á netinu. Hún sagði meðal annars:
“Ég vildi að ég gæti farið aftur í tímann og hætt lífi mínu til að bjarga þeim. Ég mun aldrei fyrirgefa sjálfri mér fyrir að reyna ekki að bjarga þeim.” Sálfræðingar ráðleggja fólki að láta vera að dæma hana, fólk bregðist við áföllum á mismuandi hátt.  Þeir segja líka að það sé gott að hún loki sig ekki af með þessa hræðilegu reynslu sína.

 

Ýmsir hneyksluðust á því að hún setti mynd af sér á netið, brosandi út að eyrum.

Hanna segir að hún hafi að miklu leyti verið vakandi í þá sex sólarhringa sem hún var í haldi hjá DiMaggio. Hún gat hvergi flúið því að hann beindi stöðugt byssu að henni og sagðist myndu skjóta hana og alla þá sem reyndu að hjálpa henni.

Þegar þau voru uppi í fjöllunum í Idaho riðu ferðamenn fram á þau en Hanna þorði ekki að hrópa á hjálp af ótta við að DiMaggio myndi þá skjóta þau. Það var ekki fyrr en þau komu til byggða næsta dag að þau heyrðu um mannsránið og áttuðu sig á stöðunni.

Þegar Hanna var spurð hvort hún hefði heldur viljað að  DiMaggio hefði fengið lífstíðar fangelsisdóm svaraði hún að hann hafi fengið það sem hann átti skilið. Hún sagði líka að sér hafi ekki lengur liðið vel nálægt DiMaggio og hann hafi einhvern tíma sagt við sig að hann laðaðist að henni. Hún sagði foreldrum sínum ekki frá þessu vegna þess að pabbi hennar og hann voru bestu vinir og hún vildi ekki spilla vináttu þeirra.

Sálfræðingurinn sem vinnur með Hönnu segir að mestu máli skipti nú, að vinir hennar og fjölskylda styðji hana heilshugar.  Hættan við að segja frá líðan sinni á netinu er að fólk segi eitthvað óvarlegt við hana. Því væri gott að hún færi varlega.

SHARE