Frábær karakter hjá stelpunum okkar!

Ísland og Noregur skildu jöfn, 1:1, í fyrsta leik liðsins í Evrópumótinu í Svíþjóð. Það var Noregur sem náði forystunni í leiknum á 26 min. þegar Kristine Hegland komst í gegnum vörn Íslendinga og lagði boltann skemmtilega framhjá frábærum markmanni Íslands Guðbjörgu Gunnardóttir.

En eftir heldur dapran fyrri hálfleik tóku stelpurnar sig saman í andlitinu og spiluðu hreint glymrandi fótbolta í seinni hálfleik. Markið lá í loftinu síðustu 25 min. en það var ekki fyrr en á 86 min. sem okkar stelpur loks jöfnuðu metin með marki úr vítaspyrnu. Margrét Lára var þar að verki, ísköld að vanda. Þetta stig er gríðarlega mikilvægt fyrir framhaldið og heldur riðlinum galopnum. Nú er bara að birgja sig með poppi og gosi fyrir sunnudaginn þar sem íslensku stelpurnar munu mæta firna sterku liði Þjóðverja kl 18:30.

Stelpurnar okkar eru svo sannarlega að gera góða hluti, fögnum því!

SHARE