Til að brjóstagjöfin heppnist vel þarftu að vera ákveðin í að þú ætlir að hafa barnið þitt á brjósti. Því meiri fróðleiks sem þú aflar þér um brjóstagjöfina á meðgöngunni því betur stendur þú að vígi þegar brjóstagjöfin hefst. Lestu bækur og tímarit, leitaðu á netinu og ræddu við fólk með reynslu af brjóstagjöf.

Hvernig myndast mjólkin?

Strax um miðja meðgöngu fer að myndast mjólk í brjóstunum. Fyrsta mjólkin sem kemur er gulleit og þykk og kallast broddur. Broddurinn er mjög mikilvægur fyrir barnið því hann er fullur af mótefnum, meltingarhvetjandi og vaxtarörvandi þáttum og er því gott veganesti fyrir barnið fyrstu dagana meðan það er að jafna sig eftir fæðinguna.

Mjólkurmyndunin fer síðan eftir því hversu oft barnið sýgur brjóstið. Því oftar sem það drekkur – því meira myndast af mjólk. Þegar barnið sýgur geirvörtuna örvar það losun hormóna sem stjórna mjólkurmyndun og losun. Það eru hormónin prólaktín og oxytocin. Prólaktínið stjórnar hversu mikla mjólk þú myndar og því örar sem barnið sýgur því meira losnar af Prólaktíni og þannig myndast meiri mjólk. Þú og barnið getið því stjórnað því hve mikla mjólk það fær. Oxytocinið fær mjólkurkirtlana í brjóstinu til að dragast saman svo að losnar um mjólkina og hún streymir til barnsins. Margar konur finna fyrir þessu sem þrýstingi eða seyðingi í brjóstinu þegar barnið byrjar að sjúga.

Hvernig hefst brjóstagjöfin?

Flest börn sýna áhuga á að sjúga fljótlega eftir að þau fæðast. Ungbörnum er eðlilegt að sjúga allt sem snertir varir þeirra og best er að notfæra sér það sem fyrst eftir fæðinguna. Ef fæðingin gengur vel býðst þér að fá barnið í fangið um leið og það er fætt. Það er fyrsta nána snertingin. Barnið er oft vel vakandi fyrstu tvær klukkustundirnar eftir fæðinguna og leitar fljótlega eftir brjóstinu. Þá er gott að bjóða barninu brjóstið með því að strjúka geirvörtunni eftir vörum þess – þá opnar það munninn, tekur geirvörtuna og byrjar að sjúga. Það er mikilvægt að hefja brjóstagjöfina sem fyrst eftir fæðinguna því eftir því sem barnið sýgur brjóstið oftar, þeim mun hraðar eykst mjólkin í brjóstunum.

Hvernig leggurðu barnið við brjóstið?

Vertu í þeirri stellingu sem þér finnst best. Mörgum konum finnst gott að liggja við gjafirnar fyrstu dagana á meðan þær eru þreyttar og aumar í botninum. Öðrum finnst best að gefa sitjandi. Aðalatriðið er að vel fari um þig og hvergi sé spenna í herðum eða baki. Haltu barninu þétt að þér þannig að það liggi alveg á hliðinni með magann upp við magann á þér, haka þess sé upp við brjóstið og geirvartan sé til móts við efri vörina.

Hvernig færðu barnið til að sjúga?

Barnið leitar sjálft eftir brjóstinu og ef geirvartan snertir kinn eða varir þess opnar það munninn, tekur geirvörtuna og byrjar að sjúga. Ef það virðist syfjað eða áhugalaust geturðu örvað það með því að strjúka kinnar þess eða varir með fingurgómunum og þannig fengið það til að byrja að leita að geirvörtunni.

Tekur barnið brjóstið rétt?

Til að barnið sjúgi rétt verður geirvartan að fara langt inn í munninn. Öll geirvartan og stór hluti vörtubaugsins (brúna svæðið í kring um geirvörtuna) verður að hverfa inn í munn barnsins því ef það sýgur aðeins fremsta hluta geirvörunnar nær það ekki nægilegri mjólk og vörturnar merjast og verða sárar.

Hvernig færðu barnið til að sleppa geirvörtunni?

Gott er að venja sig á að taka barnið blíðlega af brjóstinu. Ef þú togar barnið af brjóstinu meðan það er að sjúga líður ekki á löngu áður en geirvörturnar verða sárar. Þess í stað geturðu lyft munnviki barnsins með fingurbroddi litla fingurs og þannig rofið lofttæmið svo geirvartan rennur út úr því.

Hversu lengi á barnið að sjúga?

Ef barnið tekur brjóstið rétt er best að lofa því að ráða sjálft hversu lengi það sýgur í einu. Oftast sýgur barnið brjóstið þar til mjólkin hættir að streyma. Þá sleppir það geirvörtunni og ef það er vel vakandi og virðist áhugasamt um að sjúga meira er tilvalið að bjóða því hitt brjóstið. Ef barnið sofnar á brjóstinu getur það verið merki um að það hafi fengið nóg. Flest börn þurfa þó að drekka lengur en 30 mínútur til að verða södd en eru oft syfjuð og löt fyrstu dagana svo það þarf að halda þeim við efnið og vekja þau ef þau sofna fljótt á brjóstinu.

Hvað á að gera ef barnið er syfjað og tregt til að sjúga?

Sum börn eru mjög syfjuð og vilja helst sofa öllum stundum. Þau drekka sjaldan og lítið í einu. Ef barnið nær ekki a.m.k. 6-8 gjöfum á sólarhring, bleytir fáar bleiur og þyngist illa er nauðsynlegt að vekja það og hvetja það til að drekka oftar og lengur í einu. Prófaðu að skipta um brjóst á 5-10 mínútna fresti til að halda athygli barnsins. Strjúktu undir kjálkann og aftur að eyranu ef það tekur sér löng hlé í gjöfinni til að minna það á að drekka. Gott er að halda mikið á barninu, spjalla við það og nudda það blíðlega. Það örvar barnið og heldur því vakandi. Gættu þess líka að klæða það ekki of mikið því ofhitun getur gert barnið slappt og syfjað. Það getur jafnvel hjálpað að hafa barnið bara á bleiunni meðan það drekkur.

Hvernig veistu hvort barnið fær nóga mjólk?

Ef barnið drekkur á tveggja til þriggja tíma fresti, sýgur vel, heyrist kyngja af áfergju, sleppir brjóstinu sjálft og virðist ánægt eftir gjafir er það sjálfsagt að fá næga mjólk. Annað sem gefur það til kynna er:

  • vætir 6-8 bleiur á sólarhring
  • þyngist um 150-200 grömm á viku
  • lítur eðlilega út, litarhaftið hraustlegt og húðin slétt
  • sýnir eðlileg viðbrögð og hreyfingar.

Ef barnið dafnar vel og er að öðru leyti ánægt skaltu ekki hafa áhyggjur þótt það vilji drekka oft. Það þýðir ekki að þú hafir ekki næga mjólk. Börn eru misjöfn eins og annað fólk. Sum hafa lítinn maga og þurfa að drekka oft, önnur drekka kannski sjaldnar en þá lengi í einu. Mörg börn hafa mikla sog- og snertiþörf og þá er brjóstagjöfin besta leiðin til að uppfylla hana.

Hvað geturðu gert til að auka mjólkurmyndunina?

Ef mjólkurmyndun hefur minnkað eða barnið er að taka vaxtarsprett getur þú þurft að auka mjólkurmyndun þína. Besta ráðið er að leggja barnið oftar við brjóstið. Lofaðu barninu að drekka eins oft og lengi og því lystir. Það getur verið góð hugmynd að skipta um brjóst á 10 mínútna fresti til að örva barnið. Ef barnið er syfjað þarf að vekja það og halda því við efnið. Gefðu barninu bæði brjóstin í hvert skipti svo að það fái örugglega alla þá mjólk sem þú myndar og brjóstin fái þá örvun sem þau þurfa til að framleiða meiri mjólk. Reyndu að þrauka og halda þig eingöngu við brjóstagjöfina en fara ekki að gefa pela, graut eða ávaxtasafa. Ef þú byrjar á því verður barnið satt og nennir ekki að sjúga og mjólkurmyndunin minnkar ennþá meira. Auk þess getur pelinn haft truflandi áhrif á sog barnsins því að það beitir ekki sömu sogtækni við brjóstið og pelann.

Það er líka mikilvægt að þú hugsir vel um sjálfa þig. Það ert þú, sem býrð til mjólkina og þess vegna skaltu gera vel við þig í mat og drekka mikið af vökva. Það er gott að venja sig á að drekka vatn eða ávaxtasafa meðan þú ert að gefa brjóst. Reyndu að hvíla þig og taka því rólega og gefðu þér tíma til að sinna sjálfri þér t.d. með gönguferð eða góðu baði. Hlustaðu á góða tónlist eða gerðu eitthvað annað sem eykur þér vellíðan.

Ef þessi ráð duga ekki eða þér finnst þú standa ein með vandamálin skaltu endilega leita þér frekari aðstoðar. Þinn hjúkrunarfræðingur / ljósmóðir í ungbarnavernd getur leiðbeint þér og veitt þér stuðning.

Fleiri flottar heilsugreinar á doktor.is logo
Tengdar greinar: 

Brjóstagjöf: Mögulega það fallegasta í heimi

Lyf og brjóstagjöf

Leiðarvísir: Hvernig eru brjóstahöld mæld?

SHARE