Góðir kaþólikkar megi ekki „tímga sér eins og óðar kanínur”

Francis páfi kann að vera mótfallinn notkun getnaðarvarna en lét þau orð falla sl. mánudag að kaþólikkar þurfi ekki að „tímga sér eins og kanínur” og að þau hin sönu ættu fremur að iðka „ábyrgt uppeldi barna sinna”. Hægt sé að hindra þungun með ýmsum hætti og að það sé gróft ábyrgðarleysi af foreldrum að reyna ekki að stemma stigu við óhóflegum fjölda barnsfæðinga.

Segir helbera ögrun að benda á Guð og bera við Hans vilja

Þessi orð lét páfi falla í viðtali við fréttamenn í lok opinberrar heimsóknar til Filipseyja, en páfi sagði einnig við sama tækifæri að kirkjan styddi við fjölmargar, viðurkenndar aðferðir til að sporna við ótímabærri þungun aðrar en reglubundna notkun getnaðarvarna. Við sama tækifæri lét páfi einnig hafa eftir sér að það væri helber misskilningur að góðir kaþólikkar ættu að tímga sér eins og óðar kanínur. Þvert á móti sagði páfi að „ábyrgt uppeldi” fæli meðal annars í sér að foreldrar hefðu hemil á barneignum og iðkuðu ábyrgt kynlíf, eins og kaþólska kirkjan boðar. Þar vitnaði páfi meðal annars í mál konu sem hann ræddi nýverið við sem var þunguð af sínu áttunda barni, en sjö fyrri börn konunnar voru öll tekin með keisaraskurði.

„Ætlar konan að gera sjö börn munaðarlaus ef hún deyr við fæðingu þess áttunda?”

„Ég spurði hana því hún ætti svona mörg börn og konan svaraði  mér því að þetta hefði verið Guðs vilji; að hún legði fullt traust á Guð. Þessu get ég bara ekki verið sammála. Ætlar konan að freista þess að deyja frá sjö börnum og gera þau öll munaðarlaus? Guð gefur okkur öllum verkfæri til þess að iðka ábyrga hegðun. Foreldrar bera fyrst og fremst ábyrgð á þeim börnum sem þeir hafa þegar komið í heiminn.”

Hvetur konur til að skrásetja egglos og fylgjast með tíðahringnum

Þá benti páfi einnig á að margar skaðlausar aðferðir væri hægt að iðka til að hindra þungun, aðferðir sem kaþólska kirkjan sé hlynnt, aðrar en hefðbundnar getnaðarvarnir. Þar á meðal sé hægt að skrásetja tíðahring konunnar og forðast þannig samræði þá daga sem egglos standi yfir.

Hvetur foreldra til ábyrgrar hugsunar gagnvart eigin börnum

Francis páfi hefur átt ómældum vinsældum að fagna vegna frjálslyndra viðhorfa sinna, sem þykja bera vott af nútímalegri hugsun og mannkærleika. Áður hefur páfi látið í veðri vaka að þrátt fyrir að hann líti á hjónaband sem einingu manns og konu, útiloki hann ekki að kaþólska kirkjan ætti að leggja blessun sína yfir borgaralega athöfn sem vígi samneyti samkynhneigðra fyrir Guði og mönnum. Fyrir þau orð sín vakti páfi mikla athygli og nú hefur hann stigið skrefið til fulls; kaþólikkar eigi ekki að láta náttúruna um sína og fæða börn villt og galið – heldur stemma stigu við fjölda barna og taka skynsamlegar ákvarðanir – þar sem foreldrar verði einnig að sjá fyrir þeim börnum sem í heiminn eru þegar komin.

Það eru augljóslega spennandi tímar í vændum hjá ráðamönnum kaþólsku kirkjunnar, en sjálfur er páfi á Twitter – þar sem hægt er að fylgjast með guðdómlegum uppátækjum hans.

Heimild: CNA

Tengdar greinar:

Þetta er ekkert grín! – 17 ára stúlka segir reynslu sína af fóstureyðingu

Vissirðu þetta um getnaðarvarnir? – Myndband

13 stórkostlegar myndir af fæðingum

SHARE