Fylgjulasagne – Hollt fyrir móður og hjálpar til við brjóstagjöf

Ég rakst á umræðu um daginn þar sem kona var að spyrjast fyrir um það hvort hún gæti fengið fylgjuna með sér heim af fæðingardeildinni í pilluformi eins og hægt væri í Bandaríkjunum. Svörin voru á þá leið a það væri nú ekki hægt en hún þyrfti bara að taka fylgjuna með heim í poka, hita hana í ofni á 50 gráðum yfir nótt og setja hana svo í kvörn. Ég fór að spá hver tilgangurinn með þessu væri og ég komst að því að tilgangurinn var að borða fylgjuna. Ég fór að afla mér uppýsinga á netinu og fann fjöldann allan af fylgju uppskriftum. Uppskriftir af Fylgju lasagne, fylgju smoothie, fylgju pastarétt og ýmsu öðru “spennandi”. Það á að vera rosalega hollt fyrir móðir að borða fylgjuna og á meðal annars að vinna gegn fæðingarþunglyndi, hjálpa til við aukakílóin og brjóstagjöf og að vera bara almennt rosalega holl. Fylgjan er einnig notuð við helgiathafnir á vissum stöðum í heiminum.

Mér finnst þetta allt rosalega óraunverulegt en ég veit þó að þetta tíðkast hjá öðrum spendýrum. Ég fyrir mitt litla líf gæti aldrei borðað fylgju innan úr mér og ég myndi svo sannarlega ekki hafa áhuga á að taka hana með mér heim. Ég er meira að segja búin að ákveða það að ég vil ekki sjá hana heldur þar sem ég veit að ljósmæður bjóða mæðrum upp á það. Mér verður hálfóglatt við það að sjá mynd af fylgju. Fylgja fyrir mér er frábær, hún gefur barninu mínu allt sem það þarf meðan það vex inn í mér, en eftir að barnið mitt þarf ekki á henni að halda lengur vil ég ekkert af henni vita meir takk fyrir pent!

Ég dæmi hinsvegar alls ekki konur sem eitthvað vilja gera úr fylgjunni, hvort sem það er smoothie eða annað, eflaust rosalega hollt en ég kýs að fá mér frekar bara avocado og spínat smoothie. Fólk verður bara að gera það sem það vill og ef það vill borða fylgjuna sína er það fine by me, þó að ég skilji það ekki. Hér eru nokkrar fróðlegar upplýsingar um fylgjuna mikilvægu (meðan barnið er inn í maganum)

Vissir þú að-

  • Í Þýskalandi var siður á 16. öld að láta  hluta af fylgjunni saman við fyrstu máltíð konunnar eftir fæðingu.
  • Kúba seldi um 40 tonn af fylgjum úr konum til franskrar rannsóknarstofu eftir að uppgötvaðist að hægt var að meðhöndla ákveðnar húðbreytingar með efni úr fylgjunni
  • Víða um heim er enn í dag þurrkuð fylgja bundin utan um hálsinn á börnum sem eitthvað amar að og þurfa sérstaka vernd

Víða um heim er fylgjan notuð í „lyf“, hún er notuð við helgiathafnir í framhaldi fæðinga, sem hjálp svo að brjóstagjöfin gangi vel, fylgjur eru grafnar undir sérstökum trjám svo að barninu farnist vel og svo mætti lengi telja.

Hér fáum við svo uppskrift af fylgju Lasagne.

Lasagna með fylgju

Skerið himnur burtu og hendið þeim en notið heillega hlutann ( kjötið) í réttinn.

Hakkið meiri hluta fylgjunnar eða  skerið í litla bita og steikið við vægan hita í ólívuolíu.   Bætið tveim hvítlauksrifum,  ½ tesk. oreganó, ½ tesk. söxuðum lauk og 2 matsk. tómatkrafti eða einum heilum tómat út í.Setjið lag af þessari kjötsósu, lag af lasagna plötum og lag af osti til skiptis í eldfast mót og bakið í ofni við 180⁰ C hita í ca. 30 mín.

Verði ykkur að góðu!

Hvað finnst þér? langar þig að smakka?

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here