Anna Helga Ragnarsdóttir fæddi andvana dóttur fyrir rúmum tveimur mánuðum. Með hjálp kælivöggu frá samtökunum Gleym-mér-ei eignuðust hún og eiginmaður hennar Andri Þór Sigurjónsson ógleymanlegar minningar með dóttur sinni. Andri Þór hleypur til styrktar samtökunum í Reykjavíkurmaraþoninu í ágúst.
Líf hjónanna Önnu Helgu Ragnarsdóttur og Andra Þórs Sigurjónssonar fór á hvolf föstudagskvöldið 13. maí síðastliðinn. Anna Helga var þá gengin 39 vikur og sex daga með dóttur þeirra og var áætlaður fæðingardagur daginn eftir. Á föstudeginum upplifði Anna Helga einhverja ónotatilfinningu. Hún fann ekki fyrir barninu, sem hafði verið vel virkt daginn áður, og ákvað að fara ein í skoðun á Landspítalanum svona til að losna við paranojuna eins og hún orðar það sjálf. Við skoðun fannst enginn hjartsláttur og var barnið úrskurðað látið.
„Ég var með samdráttarverki á fimmtudeginum og hélt að ég væri að fara af stað. Daginn eftir fann ég hins vegar enga hreyfingu og fékk ónota- og hræðslutilfinningu. Ég ákvað að fara upp á spítala í skoðun og sagði við sjálfa mig að það væri nú bara til að losna við paranojuna. Andri varð meira segja eftir heima og svæfði fjögurra ára gamla dóttur okkar Jóhönnu Bryndísi enda héldum við bæði að allt væri í góðu lagi. Þegar ég kom upp á spítala var ég send í mónitor til að mæla hjartsláttinn hjá barninu. Enginn hjartsláttur fannst og ekki heldur þegar ég var látinn snúa mér á alla vegu. Ljósmóðirinn sagði ekki neitt en ég varð hrædd þegar ég las í svip hennar. Ég hringdi í Andra og bað hann um að koma þar sem það fannst enginn hjartsláttur hjá barninu. Á sama tíma kom læknir hlaupandi. Ég var send í sónar og þegar ég reyndi að spyrja hvað væri að var mér bara sagt að liggja kyrr. Síðan kom sérfræðingur inn til okkar og þá vissi ég hvað væri í vændum“ segir Anna Helga en hún missti fóstur fyrir tveimur árum – þá komin ellefu vikur á leið. Þá kom einnig sérfræðingur inn til hennar til að færa henni hin válegu tíðindi.
Andri skýtur inn í að þau hafi verið þakklát fyrir að að fæðingin var náttúruleg þar sem þau hefðu annars farið á mis við svo margt sem þau fengu að upplifa þessa fáu klukkutíma sem þau fengu að eyða með dótturinni, sem fékk nafnið Karen Björg, eftir fæðinguna. Hún kom í heiminn klukkan 23.44 á laugardeginum 14. maí – sama dag og áætlaður fæðingardagur hennar var. „Ég fékk að taka á móti henni, halda á henni og klæða hana. Við fengum tækifæri til að skapa ógleymanlegar minningar með henni Karenu Björgu – minningar sem enginn getur tekið frá okkur,“ segir Andri og bætir við að þessar stundir þeirra hefðu ekki orðið til nema fyrir tilstilli kælivöggu sem styrktarfélagið Gleym-mér-ei gaf Landsspítalanum. Andri þakkar fyrir sig með því að hlaupa 21 kílómetra í Reykjavíkurmaraþoninu til styrktar félaginu og hefur safnað tæplega 500 þúsund krónum. Hann segist hafa verið í betra formi en hefur engar áhyggjur af því að hann klári ekki hlaupið.
„Fyrstu dagarnir eftir þetta fóru í alls konar reddingar og þá sérstaklega í tengslum við jarðarför hennar. Við héldum minningarathöfn, kistulagningu og jarðarför í sömu athöfninni í Hafnarfjarðarkapellunni 26. maí. Það var fallegt athöfn þar sem Ragnhildur Gröndal og Valdimar sungu,“ segir Andri og bætir við að hann hafi óttast hvað myndi gerast eftir athöfnina þegar ekkert skipulagt væri í gangi.
Auk þess hefur sterkt fjölskyldu- og vinanet ásamt frábærum vinnuveitanda og vinnufélögum lagt sitt á vogarskálarnar til að hjálpa í þeim í gegnum þetta erfiða og þungbæra ferli. „Það fer enginn í gegnum þetta ferli einsamall. Ég bjóst ekki við að sitja 36 ára gamall á fremsta bekk í jarðarför dóttur minnar. Þetta er stanslaus söknuður,“ segir Andri.