Hemmi Gunn bráðkvaddur

Samkvæmt frétt á vísi.is er Hermann Gunnarsson sem betur var þekktur sem Hemmi Gunn, látinn, aðeins 66 ára gamall. Hann varð bráðkvaddur á Tælandi þar sem hann dvaldist í fríi.  Hermann Gunnarsson  f 9.desember 1946, þekktastur sem „Hemmi Gunn“, var einn fremsti knattspyrnumaður Íslands á sjöunda áratugnum. Hann spilaði með Val á blómaskeiði félagsins, en var einnig landsliðsmaður. Hemmi þótti einnig nokkuð liðtækur í handbolta og lék nokkra landsleiki í íþróttinni. Hann átti m.a. markametið yfir flest mörk skoruð í landsleik í mörg ár, þar til það var bætt af Gústaf Bjarnasyni í leik gegn Kína árið 1995. Hemmi stundaði nám við Verzlunarskóla Íslands. Að knattspyrnuferlinum loknum tók hann til starfa sem íþróttafréttamaður hjá Sjónvarpinu. Hann starfaði þar um árabil, þó ekki væri hann alltaf íþróttafréttamaður. Á níunda áratugnum hóf hann að stjórna sínum eigin sjónvarpsþætti hjá RÚV, Á tali hjá Hemma Gunn. Í lok mars 2005 hóf göngu sína nýr tónlistargetraunaþáttur undir stjórns Hermanns, Það var lagið, sem sýndur var á Stöð 2. Stjórnaði þættinum Í sjöunda himni á Stöð 2 veturinn 2006-’07.

Hemmi hefur sungið á hljómplötum, bæði einn og með öðrum, m.a. með Ladda.  Hemmi hefur einnig gefið sjálfur út hljómplötu, Frískur og fjörugur. Á henni er að finna lög eins og Einn dans við mig og Fallerí, fallera. Hann starfaði lengi sem fararstjóri og rak veitingastað í Tælandi. Árið 2003 starfaði hann sem kynningarstjóri Vestfirska forlagsins.

Þá starfaði hann um árabil hjá 365, bæði við dagskrárgerð í útvarpi og sjónvarpi. Hermann lét af störfum hjá fyrirtækinu í lok apríl og hugðist leggja lokahönd á sjálfsævisögu sína, Lífshlaup Hemma.

Síðasta kveðja frá Hemma á facebook síðu sinni var þessi

Hér skullu á miklar þrumur og eldingar í nótt, mikið og skemmtilegt sjónarspil, en svo birtir alltaf til, eins og venjulega í lífinu sjálfu. Fer fljótlega að undirbúa heimferð og það verður ljúft að komast heim í hreiðrið sitt. Gerum þetta að góðum degi.

 

Blessuð sé minning hans Hermanns Gunnarssonar.

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here