Þetta var önnur meðgangan mín en fyrir á ég eina stelpu og önnur stelpa á leiðinni 8 árum seinna, þannig mér fannst ég eiginlega vera að gera þetta allt aftur í fyrsta skipti. Sú fyrri fæddist á 6 tímum frá því að vatnið fór eftir 36 vikna meðgöngu og þurfti ég að hætta að vinna komin 25 vikur á leið en ég var alltaf með mikla samdrætti og fór snemma af stað en náði samt að halda henni inni í nægan tíma.

Seinni var eins, ég þurfti að hætta að vinna snemma og var með mikla samdrætti allan tíman og ég var alltaf hrædd um að vera að fara af stað og bjóst ekki við langri fæðingu þar sem fyrri hefði nú verið frekar stutt. Nema þegar ég var komin 37 vikur rúmar þá var ég búin að vera frekar slöpp þann dag og alltaf með stöðuga samdrætti en ég var samt lítið að spá í því að ég væri farin af stað.

 

Þetta kvöld ákveður barnsfaðir minn að fara í bíó með elstu dótturinni (eigum sitthvora úr fyrri samböndum) að sjá Strumpana 2 og tekur utan um mig og kveður. Hann leggst svo á magann á mér og segir við krílið í gríni að það megi nú alls ekki koma í heiminn þessa rúmu 2 tíma sem hann væri í bíói svo þau gætu nú allavega klárað myndina. En sú stutta hefur bara heyrt: „koma í heiminn núna!“

Þetta kvöld var vinkona mín sem hafði nú ekki kíkt til mín í góðan tíma á leiðinni í heimsókn og þegar bjallan hringir stend ég upp og opna dyrnar. Þar stendur 9 ára dóttir hennar ásamt annarri stelpu fyrir utan og vinkona mín á leiðinni upp. Ég var varla búin að segja hæ þegar ég heyri allt í einu smell og vatnið byrjar að streyma niður. Stelpurnar horfa á mig með skelfingarsvip þegar ég segi þeim að ég sé að fara að eiga barnið. Þær kalla á vinkonuna og hún hleypur upp og veit ekki alveg hvað hún á að gera.

Ég lít á klukkuna og byrja að panikka því hún er rétt orðin 8 og myndin nýbyrjuð og ég farin að fá góða verki. Ég byrja að reyna að hringja í barnsföðurinn en það er slökkt á símanum og ég reyni aftur og aftur en alltaf slökkt. Þá hringi ég í tengdó og læt hana nú vita og hún ætlaði að reyna að ná á hann líka en ekkert heppnaðist. Ég hringdi uppá fæðingardeild og athugaði hvort ég ætti að koma en þá voru samdrættirnir harðir en frekar óreglulegir ennþá en þær sögðu mér bara að koma þegar ég væri tilbúin.  Ég lagði á og hugsaði með mér að ég hefði alveg ágætan tíma ennþá en nei aldeilis ekki. Það styttist endalaust hratt á milli verkja og þeir farnir að vara alltaf lengur og lengur og þegar þeir voru farnir að koma reglulega á 2 mín fresti þá hringdi ég í tengdó og spurði hvort ég ætti að fara að kíkja uppá fæðingardeild og hún sagði mér að fara að drífa mig og hún ætlaði að senda einhvern til að sækja manninn.

Hann var í miðju hléi eftir aðeins hálfa mynd þegar hann var kallaður upp í bíóinu og hann vissi alveg upp á hár hvað væri að gerast. Nema að honum var einmitt tilkynnt það að ég væri farin af stað og að systir hans væri fyrir utan til að taka við. Hann var ekki lengi að koma sér út og mætti mér uppá fæðingardeild þar sem vinkonan skutlaði mér. Frekar viðburðarík heimsókn þar.

Fæðingin sjálf gekk mjög vel (fyrir utan það að í annað skiptið lofaði ég sjálfri mér að gera þetta aldrei aftur), engin lyf eða gas notað þar sem mér var virkilega óglatt allan tímann og pældi bara í því að drífa þetta af. En 4 tímum frá því að útidyrahurðin var opnuð fengum við okkar gullfallegu prinsessu í fangið.

ps. Til að bæta pabbanum upp fyrir þennan misskilning þá fékk hann myndina í jólagjöf frá henni svo við gætum öll notið hennar saman 🙂

Brynja

SHARE