Annar hver maður virðist annað hvort vera á ketó eða lágkolvetnamataræði eða á leiðinni að prófa. Hinar og þessar stjörnurnar lýsa stórkostlegum árangri og jákvæðum breytingum á útliti sínu eftir að hafa tekið mataræðið upp. Stórir hópar á facebook tengjast leiðbeiningum varðandi mataræðið og uppskriftarvefir landsins eru fullir af lágkolvetna uppskriftum.
Aðrir sjá ofsjónum yfir þessu, kalla þetta öfgar og eru jafnvel komnir í einhvers konar stuðningshóp fyrir réttindum ristaðs brauðs sem mörgum finnst ómissandi þáttur í dagsskipulaginu. Hörðustu ketó liðar tala nefnilega fyrir andláti ristaðs brauðs í hefbundnum skilningi, nema auðvitað það sé ketó brauð!
En hvað er ketó og lágkolvetnamataræði og hver er tilgangurinn með þessu?
Orðið ketó er stytting á hugtakinu ketósa sem er ástand sem líkaminn fer í þegar hann skiptir orkubúskap líkamans úr glúkósa í fitu. Þetta gerist þegar kolvetnainntaka er skert verulega, jafnvel niður í 20-30 g. á dag.
Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram á ýmsan ávinning lágkolvetnamataræðis s.s. þyngdartap, lækkaðan blóðsykur, lækkaðan blóðþrýsting og lækkað insúlínmagn í blóði. Þetta og ýmislegt fleira skýra vinsældir lágkolvetnamataræðis.
Það góða við prófa strangt lágkolvetnamataræði er að þú neyðist til þess að lesa vel innihaldslýsingar á matvælum. Þegar það gerist kemstu að því að stór hluti matvara sem alla jafna líta mjög heilsusamlega og sakleysislega út eru fullar af viðbættum SYKRI. Þannig ferðu að skipta út sykruðum fæðutegundum fyrir aðrar sykurminni og verður meðvitaðri neytandi og ekki jafn sólginn í sætindi.
Þrátt fyrir ýmsan mögulegan ávinning þess að vera á lágkolvetnamataræði er ekki auðvelt að halda úti mjög ströngu lágkolvetnamataræði í langan tíma. Í stóra samhenginu þá reynast boð og bönn í mataræði flestum erfitt. Það er eitt að VELJA sér að borða ekki eitthvað og annað að MEGA ekki borða eitthvað. Mörgum reynist því erfitt að viðhalda ketósa ástandi í líkamanum í langan tíma. Margir komast hins vegar upp á lagið með að takmarka einföld kolvetni og gera lágkolvetnamataræði að lífstíl. Það góða við lágkolvetnamataræði er nefnilega að flestir matgæðingar geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Aðeins meira af bernaise sósu í staðinn fyrir kartöflur og aðeins meira af eggjahrærum í staðinn fyrir morgunkorn. Ekki sem verst!