Kenndu súkkulaði um “hysteríu” kvenna

Enskir læknar á 18. öld kenndu súkkulaðinu um “hysteríu” í konum. Læknar í Mið- og Suður-Ameríku voru á sama máli. Talið var að óskiljanleg vandræði kvenna mætti rekja til mikils og óhóflegs súkkulaðiáts.

Kakóplantan er upprunin í Ameríku og barst þaðan til Evrópu. Kakódrykkir urðu mjög vinsælir og fólk drakk þá sér til ánægju og lækninga við ýmsu sem hrjáði það. Einnig var farið að framleiða súkkulaði í föstu formi eins og við þekkjum það í dag.

Nunnum var sérstaklega hætt við “ofneyslu” súkkulaðis. Þess vegna var þeim skipað að borða allt og alltaf í sameiginlegum matsal. Þær máttu alls ekki borða súkkulaði inni í  herbergjum sínum. Og þá minnkaði súkkulaðineyslan í klaustrunum til muna.

Ekki eru allir sammála um að þetta „súkkulaðibann“ sem var sett á nunnurnar hafi verið til góðs heldur hafi það jafnvel haft þveröfug áhrif á líðan þeirra.

Fróðir aðilar sem um þetta hafa fjallað segja að hugtakið hystería hafi um aldir verið notað um hvers konar krankleika sem hrjáði konur og læknar skildu ekki. Hugtakið varð ágætis verkfæri til að sýna fram á hvað konur væru miklu ófullkomnari og veikbyggðari en karlar og lítillækka þær á allan hátt. Það varð því notað eins og afsökun fyrir því misrétti sem konur voru beittar á þessum tíma.

Kristin kirkja og læknasamfélagið á vesturlöndum ól á þessum hugmyndum um aldir.

En reglurnar sem voru settar og bönnuðu nunnum að fá sér súkkulaðibita inni í herbergjum sínum skerti enn frelsi þeirra- sem ekki var mikið fyrir-  og var það gert í nafni vísindalegrar þekkingar.

SHARE