Næringaríkar súkkulaðihrákökur sem ilma

Súkkulaðikökur eru einfaldlega dýrðlegar og þeirra ætti að njóta til hins ýtrasta með reglulegu millibili. Ekki spillir að þessar tvær eru í hollari kantinum enda ekki bakaðar heldur frystar og teljast því til hráfæðis sem hljómar líka eitthvað svo vel!

Þá fyrri hef ég bakað lengi og prófað mig áfram með. Það nýjasta er að nota ilmkjarnaolíur og prófaði ég piparmyntu í hana þessa, bæði til að fá bragð og hollustu í kroppinn. Hin uppskriftin kemur frá Café Sigrúnu og sú inniheldur hvorki súkkulaði kakó, smjör, hveiti, hvítan sykur, flórsykur né rjóma og hananú. 

Báðar eru vítamín-, prótein- og kalkríkar auk þess að vera stútfullar af góðri fitu sem þakka má kókosolíunni, hnetunum og möndlunum og svo er lífræna kakóið og karobið ríkt af magnesíum og andoxunarefnum.

Lækningamáttur ilmkjarnaolía er magnaður en lykilatriði er að velja olíur sem eru 100% hreinar.  Þær búa yfir lifandi krafti plöntunnar sem getur haft afar jákvæð áhrif á okkur. Piparmyntuolíuna má taka inn en það á ekki við um allar ilmkjarnaolíur og best að ráðfæra sig við sérfræðing á því sviði áður.  Mentólið í piparmyntunni virkar bæði örvandi og hressandi í senn, hún er góð við meltingarvandamálum, höfuðverkjum, mígreni og þreyttum vöðvum.

Þrátt fyrir alla hollustuna eru þessar tvær uppskriftir alls ekki hitaeiningasnauðar en það er aukaatriði!

 

 

Ilmandi súkkulaðihrákaka að hætti Þóru

hrakaka-thorab

Botn
1 bolli döðlur
1 bolli fíkjur
2 bolli möndlur
1 bolli kókosmjöl
2-3 msk kókosolía
3 msk lífrænt kakó
2 msk karob
1 msk kakónibbur

Krem
1 dl kakó
1 dl kókosolía
160 ml kókosmjólk
½ dl agave sýróp
1 dropi 100% hrein piparmyntu ilmkjarnaolía.

Aðferð
Byrjað er á að fínsaxa bæði döðlur og fíkjur áður en öðrum hráefnum botnsins er blandað saman í matvinnsluvél og þrýst í mót.
Kókosolía brædd yfir vatnsbaði og blandað saman við kakó, kókosmjólk, sýróp og piparmyntuilmkjarnaolíu. Hellt yfir botninn og sett í frysti í ca. 1-2 tíma.
Gott að bera fram með rjóma eða ferskum ávöxtum.

 

 

Dökk súkkulaðihrákaka með ávöxtum að hætti Café Sigrún

dokk_sukkuladi_sukkuladis_1_0

Innihald
Botn

150 g möndlur
185 g cashewhnetur
180 g döðlur, saxaðar gróft (setjið í volgt vatn í 15 mín)
1,5 kúfuð msk carob (eða kakó)
0,25 tsk salt (t.d. Himalaya eða sjávarsalt)
1 banani, vel þroskaður

Krem
125 ml ljóst tahini (sesammauk), hellið olíunni af eins mikið og hægt er
4 msk hreint hlynsíróp (enska: maple syrup)
1,5 msk carob (eða kakó)
1 banani, vel þroskaður
Nokkrar matskeiðar af vatni (af döðlunum)

Aðferð
Botn
Saxið döðlurnar gróft og setjið þær í soðið, volgt vatn. Látið liggja í 15 mínútur.
Setjið hnetur og möndlur í matvinnsluvél, malið hneturnar í um 1 mínútu eða þangað til fínmalaðar án þess að vera maukaðar. Bætið salti og carobi saman við og malið í 5 sekúndur. Setjið í stóra skál.
Hellið vatninu af döðlunum en haldið eftir nokkrum matskeiðum.
Setjið döðlur og banana í matvinnsluvél og blandið í 30 sekúndur eða þangað til vel maukað. Setjið út í stóru skálina og hrærið mjög vel. Kælið í um klukkutíma.
Hellið deiginu á þann disk eða bakka sem bera á kökuna fram á og mótið kökuna með t.d. sleikju. Það má hafa hana ferkantaða, kringlótta (hjartalaga þess vegna!) en aðalatriðið er að hún verði ekki of þykk (fínt að hafa hana svona 2 sm á hæð).

Krem
Setjið banana, tahini, hlynsíróp og carob í matvinnsluvélina. Maukið í um 30 sekúndur eða þangað til flauelsmjúkt. Bætið við nokkrum matskeiðum af döðluvatninu ef þarf. Kremið á að leka hægt að sleif (en ekki í dropatali).
Setjið plastfilmu yfir kremið og geymið í ísskáp í um klukkutíma.
Takið kökuna úr ísskápnum og smyrjið kreminu yfir hana og utan á hana.
Skreytið kökuna með ferskum ávöxtum (t.d. vel þroskuðum bönunum og jarðaberjum), kókosflögum eða jafnvel þurristuðum, söxuðum hnetum eða möndlum.
Berið fram með cashewhneturjóma eða venjulegum, þeyttum rjóma.

Ljósmyndir: Café Sigrún, Þóra Breiðfjörð

SHARE