Getty

ATH. Þessi grein er aðsend. Í Þjóðarsálinni getur fólk sent inn greinar, nafnlaust. Skoðanir sem að birtast í innsendu efni endurspegla ekki skoðanir Hún.is

————————

Frá því að ég var 19 ára hef ég vitað það að ég ætti ekki eftir að eignast börn nema með mikilli hjálp. Ég er með POSC. Þrátt fyrir þetta þá hef ég verið á pillunni til að halda blæðingum reglulegum og til að eiga betri möguleika á að verða ólétt þegar ég þarf á hjálpinni að halda.

Þó svo að það hafi verið hræðilegt að heyra þetta svona ung, þá held ég líka að það hafi hjálpað mér að lifa við þetta og ég hef því aldrei gert mér neinar vonir um að ganga með barn. Ég hef alltaf bara ætlað mér að ættleiða barn þegar ég væri komin á réttan stað í lífinu með réttum manni.

Ég hef verið sambandi þar sem við ákváðum að reyna, án og með hjálp að eigast barn. En eftir 3 ár var komin mikill pirringur í okkur bæði og komumst við að þeirri niðurstöðu að eignast barn inn í slíkt umhverfi væri ekki að fara að hjálpa neinum, hvorki okkur né greyið barninu sem kæmi þá í heiminn.
Það endaði ekki betur en svo að við hættum saman og hef ég verið ein síðan.

Í dag er ég 30 ára og einhleyp. Og eins og flestir sem eru komir á aldur og eru einhleypir þá fer ég á djammið annað slagið og á það til að eignast „vini“ eins og móðir mín kallar það.

Í eitt skiptið af þessum „vina heimsóknum“ þá gerist það. Ég verð ólétt !! Og af einhverjum ástæðum þá fannst mér öll ánægja sem ég bjóst við að finna við það að komast að því að ég sé ólétt hverfa, eða öllu heldur bara ekki vera til staðar!! Ég varð reið. Tilfinning sem ég bjóst alls ekki við að finna.

Ég hef engum sagt hvernig mér leið og mun aldrei viðurkenna það upphátt. Ég hef oft hugsað til þess af hverju ég varð reið. Var það vegna þess að óléttan var eitthvað sem alls ekki átti að gerast, eða vegna þess að ég var ekki undirbúin?

Eftir mikla umhugsun þá hef ég komist að þeirri niðurstöðu á ástæða reiði minnar var sú að ég var búin að gera mér hugmynd um hvernig lífið átti að ganga fyrir sig. Ég varð reið yfir þeirri hugsun að í öll þessi ár sem ég taldi mig ekki geta eignast börn og var búin að nota í að telja mér trú um að í mínu lífi myndi ég aldrei upplifa meðgöngu var ég allt í einu að upplifa sem lygi. Mér fannst læknirinn minn hafa logið að mér og að þar af leiðandi hafði ég logið að mér sjálfri í yfir 10 ár til þess eins að sætta mig við eitthvað sem síðan ekki stóðst.

Þetta átti ekki að vera hægt! Og ég á getnaðarvörn! Ég fékk sjokk og hugsaði „Er ég í alvörunni mögulega að nýta eina tækifærið sem ég fæ til að ganga með MITT barn í einhvern Jón út í bæ?“ hvað varð um að verða ólétt með rétta manninum? Er ég bara að fara að ala upp barn ein? Ég vil ekki að þetta gerist svona!

Ég velti þessu lengi og vel fyrir mér. Gerði kosti og galla lista. Galla listinn var töluvert lengri, en það voru þó engir gallar á listanum sem voru næg ástæða þess að ég ætti að fara í fóstureyðingu. Þetta gæti jú verið minn eini möguleiki á að ganga með barn og ég orðin þetta „gömul“

Ég ákvað núna að segja sögu mína vegna þess að ef að mér leið svona, þá hljóta að vera fleiri sem upplifa ekki þessa gleði sem „allar tilvonandi mæður“ eiga að upplifa þegar þær fá svona fréttir.

Í dag er ég mjög sátt við það að hafa upplifað þessa 9 mánuði sem einkenndust af mikilli ógleði, verkjum og þreytu. Lífið væri ekki eins í dag ef ég ætti ekki þessa fallegu 2ja ára prinsessu í dag.

 

 

SHARE