Ótrúlegur árangur – 71 kg á þremur árum

Við rákumst á sögu Ingveldar á Heilshugar, en þar eru birtar sögur fólks sem hefur náð góðum árangri í breyttum lífstíl, uppskriftir og fleira en satt að segja er ótrúlegulegur munur á þessari duglegu konu og langaði okkur að birta sögu hennar með okkar lesendum að sjálfsögðu í samráði við hana sjálfa.

Greinin er tekin af:
http://heilshugar.com/?p=453


Ingveldur Theodórsdóttir er 31 árs gömul, hún bý í Hrísey en ólst upp í Vestmannaeyjum.
Ingveldur var mjög dugleg að hreyfa sig þegar hún var yngri og æfði sund á fullu en svo komst hún á gelgjuna og ákvað að hætta að æfa sund en borðaði áfram eins og ég væri að æfa íþróttir á fullu og það varð að ég fitnaði fram úr hófi.

Hvað var til þess að þú breyttir um lífstíl ?
Ég var orðin mjög þunglynd og leið almennt bara mjög illa, leið illa alla daga, ég var alltaf verkjuð og stoðkerfið var að gefa sig, ég var farin að einangra mig. Ég fór í vinnu og heim eftir það en vildi helst ekki láta mikið sjá mig. Ég vorkenndi foreldrum mínum fyrir það að þurfa að kynna mig fyrir fólki og viðurkenna að ég væri dóttir þeirra, fyrir utan það ég skammaðist ég mín fyrir það hvernig ég leit út en samt var fíknin í mat það sterk að ég var komin í vítahring áts og vanlíðunar. Ég var búin að prufa ýmsa kúra og hinar ýmsu leiðir til að létta mig en ekkert virkaði, jú það gekk til skamms tíma en alltaf féll ég í sömu gryfjuna aftur og aftur. Ég vildi ekki hlusta á fólk í kringum mig þegar það nefndi við mig að ég þyrfti  nú að fara að gera eitthvað í mínum málum en loksins náði ein vinkona í gegnum múrinn og lét mig horfast í augu við það að ég væri virkilega þunglynd og hjálpaði mér að segja fjölskyldu minni frá líðan minni og um leið og ég viðurkenndi það að þá fór ég að horfast í augu við að það ég væri í virkilegri yfirþyngd og þyrfti að gera eitthvað í þeim málum.

Ég var búin að prufa allt sem ég mögulega gat gert ein til að grenna mig en ekkert dugði og ég sá að ég þyrfti að leita til fagaðila til að aðstoða mig í minni baráttu. Heimilislæknirinn minn sótti því um á offitusviði á Reykjalundi fyrir mig.  Ég komst inn í dagdeildarprógramm á Reykjalundi vorið 2009 en þá var ég búin að vera á göngudeild frá því í ágúst 2008, en maður þarf að sýna árangur til þess að komast inn í dagdeildarprógramm og ég var ekki tilbúin almennilega fyrr en um áramótin 2008/2009 og þá varð einhver hugarfarsbreyting hjá mér og ég fór að byrja að léttast.


Hvaða árangri hefur þú náð og á hvaða tíma?
Ég var þyngst 155 kg þegar ég fór í magahjáveituaðgerð í lok febrúar 2010 þá var ég 142 kg og var því búin að léttast um 13 kg þegar ég fór í aðgerðina en styrkja mig þeim mun meira líkamlega og andlega. Við skulum segja það þannig að  þegar ég var sem mest þá dugði ekki 150 cm málband til þess að mæla mittið á mér og ég er bara 169 cm á  hæð þannig að það munaði ekki miklu á hæð og ummáli.

Í dag er ég 84 kg og er ég því búin að losa mig við 71 kg á tæpum 3 árum, enn á ég þó nokkuð eftir til þess að komast í kjörþyngd og auk þess er ég með ofboðslega mikla aukahúð og sé ég fram á að þurfa að fara í þónokkrar lýtaaðgerðir til þess að losa mig við hana.

Hvernig hefur þér gengið að viðhalda árangrinum ?
Eðli síns vegna þá er magamálið töluvert minnkað hjá mér eftir aðgerðina en það er ekki allt, ég er enn fíkill og þarf að berjast við það á hverjum degi að missa mig ekki í óhollustu. Þetta er erfitt og tel ég það alls ekki vera auðvelda leið út úr offitu að fara í magahjáveituaðgerð. Þetta er mikið inngrip í líkamann og hef ég ekki farið varhluta af veikindum eftir hana, en þetta var það eina sem virkaði fyrir mig því ég var bókstaflega að éta mig í gröfina.

Hver er munurinn á lífinu þá og nú eftir árangurinn mikla?
Í dag líður mér alveg frábærlega þrátt fyrir alla þá fylgikvilla sem ég hef og mun þurfa að kljást við, auðvitað hefði ég viljað geta gert þetta á eigin spýtur án þessa mikla inngrips sem magahjáveituaðgerð er en ég öðlaðist nýtt líf! Ég er leikskólakennari og var hætt að geta sinnt starfi mínu almennilega og geta leikið við börnin því ef ég til dæmis settist á gólfið með þeim að þá var ekkert auðvelt fyrir mig að standa aftur upp. Veturinn 2010-2011 var ég eins og krakki að upplifa allt aftur með börnunum, ég rólaði til dæmis í fyrsta skipti í mörg ár.

Hér er greinin á Heilshugar.

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here