Partý fyrir einhleypa – Takið laugardagskvöldið frá

Laugardagskvöldið 16. mars verður haldið partý í Dugguvoginum eingöngu fyrir þá sem erum einhleypir og á aldrinum 25-45 ára. „Markmið partýsins er auðvitað að kynnast einhverjum af hinu kyninu og hafa gaman saman,“ segir Dagbjört Þórðardóttir sem er skipuleggjandi viðburðarins en hún er þrítug og að sjálfsögðu sjálf einhleyp.

„Ég er búin að vera „single“ í svolítinn tíma en er nú ekkert að stressa mig neitt. En hugmyndin kviknaði þegar ég áttaði mig á hversu marga einhleypa vini ég á út um allt, af báðum kynjum. Mig langaði til að reyna að koma sem flestum þeirra undir sama þak og sjá hvort einhverjir myndu ekki finna ástina góðu. Þetta átti fyrst einungis að vera í mesta lagi 30 manna partý í heimahúsi en sprakk mjög fljótlega upp fyrir það,“ segir Dagbjört en hún ákvað þá að fara bara alla leið með þetta, leigja sal og fá plötusnúð til að spila.

„Það sem mér finnst líka gaman við þetta er að maður veit að allir eru einhleypir þannig að þá þarf maður ekki að velta því fyrir sér hvort maður sé að reyna við frátekinn einstakling. En ég yrði ekkert smá glöð ef einhverjir myndu nú ná saman og verða hamingjusöm til æviloka eftir þetta partý,“ segir Dagbjört hlæjandi.

Partýið er opið öllum sem eru einhleypir og hér er Facebook síða þar sem hægt er að sjá meira um þetta klárlega skemmtilega kvöld.

 

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here