Ræðst á aldraðan mann og stelur bílnum hans – Hver gerir svona?

Ég var á KFC um daginn, eða fyrir svona 3 vikum síðan, ásamt manninum mínum. Við afgreiðsluborðið sá ég aldraðan mann, hann var að spjalla við ungan dreng og tók dansinn allt í einu á miðju gólfinu. Þetta var aldeilis hress gamall maður en það vissum við alveg fyrir, því þetta var maðurinn sem keyrði um á Benz-anum sínum, alltaf með bros á vör. Maðurinn minn sagði við mig þetta umrædda kvöld “manstu ekki eftir honum?” Þegar við komum út og ég sá bílinn hans fattaði ég um hvern hann var að tala. Það eru margir sem kannast við Guðjón enda ófá skiptin sem hann rúntaði niður Laugarveginn. Guðjón hugsaði vel um bílinn sinn og ég sá hann aldrei öðruvísi en tandurhreinan og flottan, við hinir Benz eigendurnir ættum að taka okkur hann til fyrirmyndar í þeim málum!

Guðjón kölluðu margir “riddara götunnar” og mér hefur verið sagt að oftar en ekki, ef hann mætti fólki sem keyrði Benz á umferðarljósi, hafi hann gefið þeim þumlana upp – Hvernig er hægt annað en að líka við svona mann? Maður spyr sig. Ætli manninum sem ákvað að hrella gamlan mann, ræna af honum bílnum og veita honum alvarlega áverka hafi líkað illa við manninn eða einfaldlega ekki vitað hvað það er að líka eða líka ekki við fólk?

Bílnum stolið af öldruðum manni og hann beittur ofbeldi

Það var í gær sem ég rakst á status hjá dóttur mannsins á Facebook. Ég varð bæði leið og döpur yfir því hvað lífið getur verið óréttlátt.
Guðjón, 76 ára gamall karlmaður var á rúntinum eins og oft áður á laugardögum, þann 12.janúar þegar karlmaður stökk fyrir framan bifreið hans á Hverfisgötunni og neyddi hann þannig til að stoppa. Maðurinn á þá að hafa látið Guðjón keyra með sig í Kópavog þar sem hann beitti hann ofbeldi, stal bílnum hans og skildi hann eftir liggjandi á götunni. Það voru svo tvær konur sem fundu Guðjón og var hann fluttur á spítala þar sem gert var að sárum hans. Guðjón kærði bæði árásina og stuldinn til lögreglu þann sama dag, 12.janúar. Guðjón lést um fjórum dögum síðar.

Bráðabirgðaniðurstöður krufningar benda til þess að maðurinn hafi fengið hjartaáfall og andlát hans hafi því borið að með eðlilegum hætti. Ég spyr mig samt, er hægt að segja það? að andlát mannsins hafi borið að með eðlilegum hætti eftir að hann lendir í svona áfalli? aldraður maður sem hefur greinilega dálæti af bílnum sínum, lendir í því að fótunum er kippt undan honum – Bílnum hans er stolið og hann beittur ofbeldi, bíllinn var ekki fundinn þegar hann lést og hefur ekki fundist enn. Getur það ekki verið að maðurinn hafi einfaldlega fengið áfall/sjokk og látist í kjölfarið á þessu hræðilega atviki?

Fjölskyldan ekki látin vita 

Lögregla lét fjölskyldu mannsins ekki vita og fjölskylda mannsins er eðlilega ósátt við það, það má vera að maðurinn hafi beðið um að fjölskylda sín yrði ekki ónáðuð, en myndir þú ekki vilja vita ef pabbi þinn, sonur eða afi hefði lent í slíku atviki og væri á leið einn heim? maður sem hefur lent í slíku áfalli getur verið í slæmu ástandi og mikilvægt hefði líklega verið fyrir hann að fá aðhlynningu frá fjölskyldu og vinum.

Bíllinn ekki enn fundinn

En þá kemur spurningin sem flestir velta fyrir sér. Hver gerir svona lagað? hver leggst svo lágt að ræna gleði aldraðs manns, beita hann ofbeldi og stela bílnum hans sem hann hefur unnið alla ævi fyrir að geta átt og notið? er virkilega enginn sem veit hvar maðurinn sem gerir svona er niðurkominn? á enginn vin sem allt í einu hefur eignast smá peninga, eða keyrir allt í einu um á Benz? af hverju er þetta mál ekki sett í forgang hjá lögreglunni?

Mér finnst alveg ótrúlegt að á eins litlu landi og Ísland er, að maðurinn og bíllinn hafi ekki fundist, getur það verið að þetta mál hafi verið í forgangi hjá lögreglu síðan á laugardaginn fyrir viku síðan og bíllinn sé enn ekki fundinn?

Ég hvet alla til að deila sögu Guðjóns á Facebook hjá sér og þeir sem vita eitthvað um málið ættu að hafa samband við lögreglu strax. Það er fjölskylda sem syrgir og látinn maður sem þarf að fá réttlæti!

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here