„Skíturinn og drullan láku af veggjunum” – Íslenskt par í Noregi illa svikið í leiguviðskiptum

„Við vorum svo full hryllings að við komum varla upp orði. Ég veit ekki hvaðan vatnið lak, en það var skítur í klósettinu, hurðar vantaði á skápa, það var drulla og skítur á gólfunum og allar innréttingarnar inni í íbúðinni voru gerónýtar. Ljósmyndirnar sem við höfðum skoðað á netinu reyndust vera af annarri íbúð og garðurinn sem við sáum mynd af reyndist vera garðurinn sem fylgir með íbúðinni fyrir ofan.”

 

Þetta segir Svava Kristín Lövdal sem ásamt unnusta sínum, Sigmar Víði Magnússyni tók íbúð í Sandvika, Noregi á leigu gegnum netið en Svava og Sigmar hafa verið búsett í Stavanger um nokkurt skeið og ákváðu að flytja þvert yfir landið eftir að Svava komst óvænt inn í háskóla í Osló. Þegar á staðinn var komið reyndist íbúðin vera rústir einar, en húseigandinn fullyrti að þau Svava og Sigmar gætu hins vegar flutt inn samdægurs og gætu vel búið í „greninu” ef svo má að orði komast.

 

„Það var ógerlegt fyrir okkur að fara og skoða þær íbúðir sem okkur bauðst til leigu í Sandvika og nágrenni, þar sem við vorum að leita að íbúð í 600 kílómetra fjarlægð og við tókum því áhættuna. Lögðum af stað með dýrin okkar, allt okkar hafurtask á leigukerru og ókum í einum spretti frá Stavanger. Maðurinn minn sagði upp vinnunni og við brunuðum bara af stað, en allt var þetta tilkomið vegna minnar skólagöngu. Háskólar í Osló gefa ekki svar fyrr en 20 júlí en skólarnir byrja þann 18 ágúst. Því var enginn timi til stefnu. Það var annað hvort að hrökkva eða stökkva. Og við fórum af stað.”

 

Svava og Sigmar, sem eiga tvo stóra hunda, greindu frá fjölskylduaðstæðum sínum í auglýsingu þeirri sem þau settu sjálf inn á FINN og töldu sig hafa fundið gullpottinn þegar elskuleg, eldri kona svaraði auglýsingu þeirra og bauð þeim húsnæði án skoðunar, en bæði voru með auglýsingu á norska smáauglýsingavefnum FINN.

 

“Konan sem ætlaði að leigja okkur íbúðina var svo elskuleg gegnum símann að við trúðum öllu eins og nýju neti. Auglýsingin hljómaði svo vel og myndirnar, sem svo reyndust vera af annarri íbúð, voru gullfallegar. Við ókum í níu klukkutíma með alla búslóðina okkar í leigukerru en þegar á staðinn var komið blasti þessi viðbjóður við okkur. Konan sagðist ekkert skilja í okkur og varð mjög undrandi þegar hún sá viðbrögð okkar. Hún sagðist hafa staðið allan daginn við þrif og lagfæringar og að við gætum alveg búið þarna.”

 

Hún bað okkur að borga leiguna fyrirfram en við neituðum, sögðumst ekki vilja leggja fram pening fyrr en á staðinn væri komið. Sögðum konunni að við yrðum að treysta hverju öðru og neituðum líka að borga tryggingu fyrr en á staðinn væri komið. Þegar komið var í húsnæðið blasti þessi viðbjóður við okkur.”

 

Svava og Sigmar stóðu því uppi með búslóð á kerru, tvo stóra hunda en annar þeirra er alvarlega veikur og má ekki við miklu hnjaski og hringdu að lokum á lögregluna, sem sagði þeim að íbúðin sem var til leigu, hafi verið undir eftirliti lögreglu um langa hríð vegna eiturlyfjaneyslu fyrrum leigjenda.

 

“Maður gerir sér bara enga grein fyrir því að þetta geti verið svona. Konan laug að lögreglunni og sagði okkur hafa vitað stöðuna, hvernig íbúðin væri útlits – en lögreglan tók stöðu með okkur og bað konuna vinsamlegast að geyma búslóðina okkar inni í annarri íbúð sem var einnig tóm. Það gekk ekki eftir, búslóðinni var hent út á götu og sjálf þurftum við að finna hótel í snarheitum sem leyfir hunda. Þar þurftum við að greiða hátt gjald fyrir hundana og gátum loks byrjað íbúðaleitina fyrir alvöru. Við erum komin með íbúð núna, en höfum lært að taka aldrei íbúð á leigu án þess að hafa komist á staðinn til að skoða aðstæður fyrst. Sem betur fer lögðum við ekki fram tryggingafé áður en við komum á staðinn, því það væru glataðir peningar.”

Hér má sjá stöðuuppfærslu Svövu ásamt myndbandi sem Sigmar, maður hennar tók upp á myndband en eins og sjá má er íbúðin rústir einar og húseigandinn vill ekkert við kannast. Svava og Sigmar segjast vilja deila reynslu sinni í varnaðarskyni og biðja fólk að skoða þær íbúðir sem bjóðast til leigu áður en lagt er upp í samninga. Litlu mátti muna í þeirra tilfelli og bjargaði það eitt málum að þau neituðu að verða við beiðni leigusala sem bað um fyrirframgreiðslu vegna leigu.

Svava og Sigmar hafa nú fundið ákjósanlegt heimili í nágrenni við íbúðina ógeðfelldu, sem þau upprunalega hugðust taka á leigu en þar sem þau voru nægilega skynsöm til að leggja hvorki fram tryggingu fyrir húsnæðinu né mánaðarleigu áður en á staðinn var komið, verða eftirmálar engir aðrir en skelfileg minningar.

Vert er að benda þeim Íslendingum á, sem hyggjast taka húsnæði á leigu í Noregi, að öflug hagsmunasamtök eru starfrækt fyrir leigjendur þar í landi og er hægt að nálgast frekari upplýsingar um hvernig má standa vörð um eigin réttastöðu í húsnæðismálum HÉR

 

 

SHARE