Skrifaði sig frá skilnaðinum

Mynd eftir Karen Ýr

Elín er Reykjavíkurmær sem er alin upp í 101 Reykjavík og gekk í Hagaskóla. Hún er lærður förðunarmeistari og vann í mörg ár í sminkinu í Þjóðleikhúsinu en hún hefur verið að gera  tónlist frá því hún var unglingur. Hún var í hljómsveitinni Bellstop í 15 ár, en sveitin gaf út 3 plötur, allar á ensku. Með Elínu í hljómsveitinni var eiginmaður hennar til 24 ára.  

Skrifar um tilfinningar

Elín hefur gengið lengi með það í maganum að gera sólóplötu en langaði að hafa hana á móðurmálinu: „Ég tjái mig lang best á íslensku og finnst best að semja á íslensku.“ 

Elín og eiginmaðurinn skildu í fyrra en saman eiga þau tvo drengi, 22 ára og 16 ára. Sólóplatan byrjaði í vinnslu um það bil 4 árum fyrir skilnaðinn. „Ég skrifa um tilfinningar, alvöru tilfinningar, sama hvaða tilfinningar það eru. Þegar maður er að skilja sefur maður ekki mikið. Maður hugsar mikið og allt er breytt, maður er svo týndur, plönin sem maður hafði eru svo mikið breytt. Þannig að ég skrifaði mig frá þessu, ef svo má að orði komast.“

Samstarfið gekk eins og í sögu

Eftir skilnaðinn segist Elín hafa þurft að finna sjálfa sig upp á nýtt. Hún samdi og samdi og ákvað svo að hún þyrfti að finna einhvern til að vera með sér í að semja. „Ég fór að brjóta heilann um hver það ætti að vera. Ég hugsaði um hver væri minn uppáhalds lagahöfundur á Íslandi og datt strax í hug Guðmundur Jónsson,“ segir Elín, en Guðmundur, betur þekktur sem Gummi Jóns, hefur samið mikið af tónlist í hljómsveitinni sem hann var í, Sálinni. 

„Ég þekkti Gumma ekki neitt en ákvað að senda bara línu á hann. Hann tók vel í þetta og við hittumst svo fljótlega. Ég var rosalega stressuð en hann var sá fyrsti sem fékk að sjá textana mína og þeir eru mjög persónulegir,“ segir Elín og bætir við að samstarf þeirra hafi gengið eins og í sögu. Þau unnu saman að plötunni í vor og sumar og tökur hófust í ágúst.

Á plötunni fær allt að flakka en platan kemur út í janúar. Elín segir að hún sé mjög spennt að koma plötunni út en fyrsta smáskífan er komin og heitir hún „Ég rís upp“.

SHARE