Stígamót senda frá sér eftirfarandi tilkynningu: Stígamót Gegn Kynferðisofbeldi
Kampavínsklúbbur Stígamóta!
Á Stígamótum er fjármögnun eilífðarverkefni og ýmislegt hefur verið reynt til þess að tryggja sem faglegastan rekstur. Jafnframt hefur þátttaka í vönduðum menningarverkefnum verið forgangsmál.
Nú telja starfskonur sig hafa fundið leið til þess að sameina þessa tvo þætti starfseminnar. Þær hafa kynnt sér nýjustu strauma og stefnur í skemmtanalífi og fjáröflun og hafa ákveðið að opna glæsilegan kampavínsklúbb á Stígamótum fimmtudaginn 15. ágúst kl. 19-22.
Vönduð dagskrá verður í boði, en hún mun öll fara fram afsíðis. Gestum býðst að kaupa sér tíu mínútna einkaatriði fyrir aðeins 20.000 krónur og verður boðið upp á frítt kampavín eins og hver getur í sig látið á meðan atriðin fara fram.
Þar sem um opnunarhátíð er að ræða munum við bjóða sérstaklega borgarstjóranum í Reykjavík, lögreglustjóranum, ráðherrum, þingmönnum og borgarfulltrúum á meðan húsrúm leyfir.
Föngulegar konur munu bjóða upp á spjall , söng og jafnvel dans, á íslensku, ensku og á norðurlandamálunum og má geta þess sérstaklega að sumar þeirra eru skráðar í keppnina Ungfrú Ísland 2013.
Þannig mun dr. Guðrún Jónsdóttir eldri fræða fólk um sögu Stígamóta á tíu mínútum og taka nokkur dansspor í leiðinni ef stemning er fyrir því. Þórunn Þórarinsdóttir mun kveða rímur, en hún hefur verið í kór í mörg ár og er með góða rödd. Theodóra treystir sér til þess að kenna fólki að prjóna lopaslá á tíu mínútum ef fólk drekkur ekki því meira. Anna Þóra Kristinsdóttir sálfræðingur mun syngja um sjálfshjálparhópa fyrir konur sem stundað hafa vændi. Anna Bentína býður upp á persónulegt og skemmtilegt spjall um nauðganir og þær Guðný og Áslaug munu þylja tölur um aðsókn á Stígamótum undanfarin ár og komast yfir ótrúlega mikið efni á þessum tíma. Sólveig verður með létta dagskrá um barnaverndarmál tengd vændi.
Ýmislegt fleira verður í boði og mun Halldóra Halldórsdóttir verða tímavörður. Björg Gísladóttir er þokkastýra klúbbsins og mun skapa huggulega stemningu og jafnvel flytja ljóð. Guðrún Jónsdóttir mun taka á móti gestum og mun geta boðið upp á ýmis sértilboð.
Í kampavínsklúbbnum tökum við jafnt á móti konum og körlum og munum leitast við að láta fólki líða sem best.
Verið öll hjartanlega velkomin
Skál!
Stígamót