Stjörnuspá fyrir júní 2023 – Hrúturinn

Hrúturinn
21. mars – 19. apríl

Þú munt fara að kanna ný mið í júní kæri Hrútur. Sem eitt af eldmerkjunum ertu yfirleitt ekki lengi að stökkva á ný tækifæri og vera svolítið hvatvís. Þig langar til að gera eitthvað öðruvísi. Bókaðu þér óvænta ferð, farðu í fallhífarstökk, allt sem gefur þér spennu í líf þitt. Það sem mun líka gerast um þessar mundir er að þú áttar þig á því að viðhorf þín og skoðanir sem þú hefur haft lengi eru ekki alveg í takt við hvernig þú ert í dag. Þú skalt ekki hika við að breyta viðhorfum þínum og skoðunum sem hafa verið að halda aftur af þér.

Um 17. júní muntu verða fyrir hugljómun og fá nýjar hugmyndir. Þetta er góður tími til að hefja nýtt nám eða læra nýja hluti, allt til að örva hugann þinn. Það er mjög mikilvægt að finna eitthvað til að gera í frítímanum sem heldur þér við efnið.

Þú finnur fyrir mikilli þörf fyrir að hafa rólegt og nærandi umhverfi í kringum þig og þína nánustu. Notaðu tímann til að styrkja böndin við fjölskyldumeðlimi. Þegar kemur að vinnumálum, geta komið upp ágreiningar vegna þess hversu beinskeitt/ur þú ert í samskiptum. Passaðu líka að hvíla þig því það verður mikið um að vera í þessum mánuði.