Besti ísinn, sundlaug, brauðstangir og bjórinn á leiðinni á hátíðarnar um verslunarmannahelgina. Þetta snýst ekki bara um áfangastaðinn heldur líka ferðalagið. 

Mýrarboltinn á Ísafirði

Ís á Erpsstöðum
Kjaftæði er rjómaís framleiddur á býlinu Erpsstöðum. Hann fæst í alls kyns bragðtegundum og frábært að stoppa þar til að brjóta upp langan akstur til Vestfjarða.

Sundlaugin í Heydal í Mjóafirði
Á leiðinni á Ísafjörð, þegar keyrt í er í gegnum Mjóafjörð, má finna Heydal. Þar innst í firðinum er hótel þar sem er gott að setjast í kaffisopa og kræsingar. Í gömlu gróðurhúsi rétt við hótelið er falleg laug og heitur steinapottur sem vert er að heimsækja á leið á Mýrarboltann.

Gamla Bakaríið á Ísafirði
Eitt elsta bakarí landsins stendur alltaf fyrir sínu. Bestu kleinurnar og ástarpungarnir.

Neistaflug Neskaupsstað

Brauðstangir í Söluskálanum á Egilsstöðum
Ef það er eitthvað sem bæjarbúar á Egilsstöðum geta sammælst um þá eru það gæði brauðstanganna í Söluskálanum. Tilvalinn kvöldmatur fyrir Neistaflug eða nesti á leiðinni í bæinn aftur.

Sushi á Seyðisfirði
Dálítið úr leið, en vel þess virði. Eitt besta sushi landsins fæst á Hótel Öldu í fallega bænum Seyðisfirði sem er ávallt skemmtilegt að heimsækja.

Óbyggðasetrið í Fljótsdal
Á safninu fá gestir að upplifa Ísland á 19. öld. Boðið er upp á að gista í baðstofu, smakka reykt kjöt beint úr reykkofanum, draga sig yfir Jökulsá á kláfi og þar er fólki gefin innsýn í gamlan tíðaranda á Íslandi.

Íslensku sumarleikarnir á Akureyri

Silva hráfæði
Í hjarta Eyjafjarðarsveitar býður veitingastaðurinn Silva upp á grænmetis- og hráfæðirétti. Nýpressaðir safar, engiferskot, kaffi, te og hráfæðikökur og eftirréttir.

Menningarflóra
Í Hafnarstræti númer 90 er verslunin Flóra sem vert er að heimsækja. Flóra býður upp á sérvalda muni úr íslenskri og þýskri menningar­flóru. Áherslan er á áframnýtingu, endurnýtingu og nýja muni sem eru framleiddir í heimaframleiðslu eða hjá litlum framleiðendum.

Kaffi í Fnjóskadal
Í gamla barnaskólanum á Skógum má finna Ugluna kaffihús. Í fallegu umhverfi býður vinalegt starfsfólk upp á heimabakað brauð, pönnukökur og hrákökur. Te úr dalnum, uppáhellt kaffi og heitt súkkulaði að gömlum og góðum sið.

Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum

Ribsafari um eyjuna
Ribsafari eru sérbúnir hraðskreiðir bátar. Við Landeyjahöfn eru farnar nokkrar ferðir á dag í kringum eyjuna að skoða helli, náttúru og fuglalíf.

Lambaborgari á Slippnum
140 grömm af kjöti með beikoni, sveppum, tómötum, salati og bernaise-sósu. Borið fram með himneskum frönskum og hvítlauksmajónesi.

Kjötsúpuvagninn
Það er fátt betra en kjötsúpa á stundu milli stríða. Þriggja daga hátíðarhöld geta tekið sinn toll en þá er kjötsúpuvagninn skammt undan til að hlaða batteríin.

Innipúkinn í Reykjavík

Krás götumatarmarkaður
Í Fógetagarðinum verður Krás götumatarmarkaður hverja helgi það sem eftir lifir sumars, iðandi af lífi og góðmeti. Lifandi tónlist og dásamlegur matur í góðri stemningu.

Frosinn cappuccino
Te og kaffi í Aðalstræti framreiðir kaldan, eða frosinn, cappuccino sem enginn má láta framhjá sér fara. Þá sérstaklega á sólríkum dögum í 101.

Dansað með Beyoncé
Í Kramhúsinu á laugardaginn klukkan 17.00 er opinn Beyoncé danstími til styrktar Stígamótum. Það kostar 2.000 krónur inn og rennur allur ágóðinn til Stígamóta.

Síldarævintýri á Siglufirði

Bjór á Segull 67
Í Brugghúsinu á Siglufirði má finna fjölbreytta og bragðgóða bjóra. Barinn er staðsettur í gamalli fiskverksmiðju og er hönnunin einstaklega vel heppnuð. Með útsýni yfir hafið og fjallgarðinn eru fáir staðir betri til að fá sér einn kaldan.

Heitt bað í Grettislaug
Það er rúmur klukkustundar akstur frá Siglufirði í heitu laugina Grettislaug. Umvafinn náttúru og fjarri byggð er þessi staður fullkominn til að slappa af.

Kaffi á Dalvík
Kaffihúsið og barinn Gísli, Eiríkur og Helgi býður upp á dýrindis veigar í notalegri stemningu. Heimagerðar vöfflur, kökur og kræsingar.

SHARE