“Þegar ég var 7 ára var ég misnotuð af frænda mínum” – Einlæg frásögn Kristínar Helgu

Ég sat og horfði á fréttirnar með mömmu og pabba einhverntímann 2001. Í fréttunum var sagt frá stelpu sem hafði verið kynferðislega misnotuð af fjölskyldu meðlim. Mamma segir eitthvað í áttina eins og „ji hvað það hlýtur erfitt fyrir fjölskyldur að ganga í gegnum svona“. Við þetta komu allar minningar til baka hjá mér. Í 7 ár hafði ég geymt leyndarmál sem bara ég og frændi minn vissum.

 

Þegar ég var 7 ára var ég misnotuð af frænda mínum. Jaa, eða „frænda“. Fósturpabbi hans er frændi minn þannig alltaf var litið á hann sem partur af fjölskyldunni. Hann var 18 ára.

 

Ég man ekki akkurat hvenær fyrsta skiptið var, ég man reyndar ekki allt. Þetta var heldur ekki bara ekki eitt skipti, og ef satt skal segja þá veit ég ekki hversu mörg skiptin voru. En þau voru allavega fleirri en ég get talið á fingrum mér.Það eru samt margar minningar alltaf til staðar sem rifjast upp þegar þeim henntar. T.d. man ég hvað líkami hans var þungur ofan á mínum og hvað það var vond lykt af honum, andardráttinn hans í eyranu á mér, hvernig síða hárið hans fór í anditið á mér. Hann passaði mig stundum og auðvitað treystu foreldrar mínir og aðrir í fjölskyldunni honum. Þau vissu auðvitað ekki betur. Einhverra hluta vegna hætti þetta eftir öll þessi skipti. Ég man ekki hvort að ég hafi sagt eitthvað eða hvað, en hann allavega hætti. Ég reyndi líka alltaf að forðast hann þegar hann kom inn á heimilið eða sá hann. Ég gleymdi að þetta hafði allt gerst og talaði ekki um þetta fyrr en ég var 14 ára. Þá sagði ég æskuvinkonum Elínborgu og Flóru frá þessu. Þær hvöttu mig til að segja Díönu kennara mínum frá þessu sem talaði við mömmu því ég treysti mér ekki til þess sjálf. Eftir á tók við viðtöl í barnahúsum, sálfræðingar, stígamót, kærur, dómhús (sem ég fór sjálf ekki í vegna aldurs) og fleirra. Eftir skoðun kom í ljós að meyjarhaftið mitt var rofið. Ég var lengi að sætta mig við það því ég sat lengi með það í hausnum að ég hefði misst meydóminn með frænda mínum og það er eitthvað sem ég gæti aldrei breytt. Þetta mál varð allt frekar stórt og mikið. Kom í fréttum og dagblöðum,, í ljós kom að ég var ekki eina stelpan sem hann hefði misnotað. Við vorum nokkrar sem kærðum. Eftir um það bil 2 ár var hann loksins dæmdur. 3 mánuði inni og 15 skilorðisbundna. Alltaf jafn gott þetta kerfi hérna á Íslandi. Tekið var tillit til þess að hann var ungur þegar þetta gerðist og hann átti konu og ungt barn, unga dóttur. Hann var einnig dæmdur til að borga okkur pening þó ég hafi aldrei séð krónu af því, en það skiptir mig heldur ekki máli. Ég átti erfitt með að sætta mig við þennan stutta dóm fyrst en eftir smá tíma lærði ég að sætta mig við að hann yrði allavega alltaf dæmdur barnaníðingur. 3 mánuði eða 3 ár, hann var dæmdur barnaníðingur! Frændi minn og fjölskyldan hans hættu öllum samskiptum við fjölskyldina mína, sem mér er í raun bara alveg skít sama um, en mér fannst sárt hvernig fóstur pabbi hans kom fram. Hann laug að ömmu minni að ég væri drusla og það væri um talað í Keflavík og að ég væri bara að gera þetta fyrir peninga. Ég virkilega vona að það muni aldrei neinum detta það í hug að ganga í gegnum þetta fyrir peninga! Ég sá hann stundum eftir þetta allt saman. Hann flutti í Garðinn en þetta fréttist fljótlega út þar og hann flutti úr þeim bæ. Í dag býr hann einhversstaðar út á landi og ég hef ekki séð hann í mörg ár. Því miður á hann dætur sem búa hjá honum.

 

Nokkrum árum seinna fór ég út í mikið djamm og neyslu. Ég ætla ekki að fara mikið út í það. Þetta tímabil í lífinu er held ég eitthvað kast sem ég tók eftir þetta allt saman. Á þessum tíma var ég einu sinni áreitt á leiðinni heim af djamminu og einnig eftir að ég sofnaði í eftirpartýi. Þá vaknaði ég með eigandann inn á mér. Ég hataði sjálfa mig og hataði líkama minn. Mér var alveg sama hvernig ég fór með mig. Þegar ég komst að því að ég væri ólétt í ágúst 2010 fannst mér lífið eignast nýjan tilgang. Ég hætti öllu rugli og ákvað að ég mundi gera allt fyrir þetta barn. Að eignast Óðinn var það besta sem gat nokkurn tímann komið fyrir mig og hann er ástæðan afhverju ég elska að lifa í dag.

 

Þó ég hafi fengið mikla hjálp þegar allt kom upp þá hef ég aldrei fengið jafn mikla hjálp og í fyrra þegar ég fór á Drekaslóð. Þar var ég í hópastarfi með 4 yndislegum stelpum ástam bestu konu í heimi, Thelmu. Hún er án efa ein mesta hetja sem ég hef kynnst og hjálpaði mér meira en ég hélt að einhver gæti.

 

Auðvitað á ég mína daga sem mér finnst allt erfitt. Ég get hatað karlmenn og ekki viljað sjá þá, en aðra daga elskað alla. Hver veit, kannski glími ég við eitthvað þunglyndi en ég hef svo mikið að lifa fyrir og ef það eru hindranir þá fer ég yfir þær! Ég er oft dæmd fyrir það hver ég er, hvernig ég lýt út. En manneskjan gerir sér ekki grein fyrir því hvað ég hef mikla manneskju að geyma sem þolir svo miklu meira en að vera dæmd fyrir útlit! Ég á ótrúlega gott og frábært fólk í kringum mig og það er það eina sem ég þarf. Foreldra sem eru klettar í lífi mínu og bræður sem eru mér nánari en flestir. Vini sem allir ættu að vera öfundsjúkir að ég eigi og fjölskyldu meðlimi sem ég treysti fyrir öllu.

 

Deilið, lækið, commentið,, gerið það sem þið viljið. Ef þið þekkið einhvern sem hefur verið misnotaður þá verður manneskjan að vita að hún er ekki ein. Þetta er ekki þeim að kenna. Í gengum árin er ég búin að kynnast svo ótrúlega mörgum sem hafa lent í sama og ég. Það eru miklu fleirri þarna úti en maður gerir sér grein fyrir!

 

Verið sterk.

Kristín Helga Magnúsdóttir

SHARE