Emil Þór S. Thorarensen er ungur maður úr Hafnarfirðinum sem lenti í miklu áfalli í byrjun ársins. Emil hefur nú ákveðið að stíga fram og deila erfiðri lífsreynslu sinni með lesendum Hún.is, en honum var nauðgað í janúar á þessu ári. Ég hitti þennan hugrakka, unga mann í vikunni og við settumst niður á kaffihúsi í miðbænum þar sem ég hlustaði á átakanlega frásögn Emils.

Þann 6. janúar á þessu ári fór Emil í fertugsafmæli með vinum og fjölskyldu.  Eftir afmælið hélt Emil ásamt systur sinni og vinum á skemmtistaðinn Austur, þar sem vinirnir sátu í dágóðan tíma, spjölluðu og skemmtu sér. 

“Við fórum á Austur og vorum þar í dágóðan tíma. Það síðasta sem ég man er frá Austur, svo bara rankaði ég við mér á höfninni en ég man einungis örfáar glefsur af atburðinum. Ég hringdi í lögregluna og í framhaldi af því fór ég upp á neyðarmóttöku fyrir fórnarlömb nauðgana. Daginn eftir, þegar ég var kominn heim hringdi lögreglan í mig og spurði mig hvort ég vildi ekki kæra. Ég fékk mikinn stuðning frá foreldrum mínum og þar sem ég var enn í sjokki eftir atburðina hvöttu þau mig til að kæra en þetta var ennþá allt mjög súrrealískt fyrir mér.”

Emil áttaði sig á því þegar hann rankaði við sér að honum hafði verið nauðgað, hann hafði áverka á höndum, fótum og í endaþarmi og þegar á neyðarmóttökuna kom voru teknar myndir af áverkum en Emil var viss um að honum hefði verið byrlað lyf  þar sem hann mundi lítið sem ekkert eftir atburðinum sjálfum.  Það eina sem hann mundi var, að þarna voru tveir menn á ferðinni, af erlendum uppruna og þeir töluðu á erlendu tungumáli.

[quote]Þú ert vanur að stunda svona kynlíf![/quote]

 

Emil fór í skýrslutöku hjá lögreglunni daginn eftir atburðinn og hún reyndist honum mjög erfið. Honum fannst illa að sér vegið í skýrslutökunni og telur að hann hafi mætt fordómum í málaferlunum.

“Ég fór í skýrslutöku daginn eftir, var enn í miklu sjokki og leið mjög illa. Lögreglukonan sem yfirheyrði mig var mjög harkaleg og hún spurði mig af hverju mér fyndist að mér hefði verið nauðgað. Hún útskýrði það þannig að þegar konur stunduðu kynlíf væri það vanalega leggangakynlíf, en þegar samkynhneigðir menn stunduðu kynlíf væru það endaþarmsmök. Hún spurði mig hvað væri þá öðruvísi við þetta atvik. Ég sagði henni að þetta væri auðvitað ekki kynlíf heldur nauðgun en varð bara hálf orðlaus enda enn í miklu áfalli eftir atburðina og í engu standi til að svara fyrir mig. Hún sagði mér bara basicly að ég væri vanur að stunda svona kynlíf og gaf þannig í skyn að ásakanir mínar væru furðulegar. Réttargæslulögmaðurinn sem var viðstaddur virtist vera of upptekinn til að standa í þessu og ég heyrði hana tala í símann við dóttur sína sem vantaði millifærslu o.fl.. Þessi manneskja átti að vera þarna mér til halds og trausts en brást því hlutverki og sagði svo að ég þyrfti að skrifa undir blað svo hún gæti fengið borgað.”

Emil fór heim og sagði foreldrum sínum hvernig skýrslutakan hefði farið fram.  Foreldrar hans urðu reiðir og hringdu upp á lögreglustöð og óskuðu eftir skýringum á þessari framkomu og vildu fá að vita hvort að það væri venjan að taka svona harkalega á fórnarlömbum nauðgunar:

“Mamma hringdi upp á lögreglustöð og fékk þau svör að þetta væru spurningar sem bornar væru fyrir öll fórnarlömb nauðgana. Svörin voru þau að það þyrfti að útiloka alla aðra möguleika, hvað sem það á nú að þýða. Mér fannst hinsvegar furðulegt hvernig lögreglukonan setti þetta fram en hún sagði að minn endaþarmur væri eins og leggöng konu og spurði mig því af hverju mér fyndist þetta þá vera nauðgun, þetta væri jú kynlífið sem ég stundaði venjulega!”

Emil segir að honum hafi liðið eins og þetta væri sett þannig fram að nauðgunin væri honum að kenna, hann segist einnig hafa verið spurður að því hvort hann hefði drukkið um kvöldið. Honum leið eins og hann mætti fordómum bæði vegna þess að hann var karlmaður og vegna kynhneigðar sinnar en hann segir líka að ef það sé venjan, að svona harkalega sé tekið á fórnarlömbum nauðgunar þurfi að endurskoða vinnureglur. Hann er mjög ósáttur við vinnubrögð lögreglu og telur að lögreglukonan sem sá um hans mál hafi gert stór mistök við rannsókn málsins, sem gerðu það að verkum að málið var látið niður falla og ekki gefin út ákæra.

“Lögreglan fór svo með mig á höfnina þar sem ég reyndi að rifja upp hvar nákvæmlega nauðgunin hefði átt sér stað. Ég spurði lögreglukonuna hvort það væru ekki myndavélar þar sem hægt væri að sjá þetta allt saman. Hún segir mér að svo sé og að þau muni skoða þær allar. Eftir þetta fór ég heim og beið í 6 vikur þar til haft var samband við mig aftur.”

Biðin var erfið fyrir Emil og honum fannst sitt mál vera sett í bið. Þetta var á sama tíma og mál Karls Vignis voru tekin fyrir og honum leið eins og sitt mál væri látið sitja á hakanum. Í miðbæ Reykjavíkur eru eftirlitsmyndavélar og upptökurnar úr þeim voru skoðaðar en lögreglukonan sem skoðaði þær sagðist ekki hafa séð Emil á upptökunum. Eftir 6 vikur fékk Emil hringingu og þá var honum sagt að nú hefði lögreglan loksins fengið myndavélar frá skemmtistaðnum Austur en það var þá sem Emil blöskraði. Lögreglukonan sem skoðaði upptökur úr eftirlitsmyndavélum frá Austur sagðist ekki hafa fundið hann á upptökunum  frá Austur og bað Emil því að koma niður á stöð og skoða upptökuna með henni sem hann og gerði.

“Ég skoðaði upptökuna og það tók mig 5 mínútur að finna mig á myndavélunum og spurði mamma lögreglukonuna, ef þú þekktir hann ekki á þessum upptökum, þá skil ég að þú hafir aldrei fundið hann á eftirlitsmyndavélunum úr miðbænum!”

Emil segir að lögreglan hafi þá farið aftur í það að skoða upptökur frá miðbæ Reykjavíkur en hann fékk hringingu stuttu síðar þar sem lögreglukonan sagði honum að því miður myndu upptökur úr miðbænum eyðast eftir 30 daga svo ekki var  hægt að fara aftur yfir upptökur af kvöldinu þegar atvikið hafði átt sér stað, það var of langur tími liðinn.

“Allar upptökurnar sem hún skoðaði og þekkti mig ekki á, rétt eins og hún þekkti mig ekki á upptökunum frá Austur, voru horfnar. Hún gerði þau stóru mistök að taka ekki afrit af upptökunum, sem hún auðvitað hefði átt að gera. Ef hún þekkti mig ekki á upptökum á Austur, þar sem ég sást greinilega og það tók mig 5 mínútur að finna mig, hvernig átti hún þá að hafa þekkt mig þegar hún skoðaði hinar upptökurnar? Ef við hefðum getað skoðað þetta saman hefði ég líklega fundið mig eins og í upptökunum frá Austur. Eftir þetta var málið bara komið á núll og þetta hafði mikil áhrif á mitt bataferli.”

Málið var búið og ekkert kom út úr því svo að Emil sat eftir með mikla hræðslu, kvíða og félagsfælni eftir nauðgunina. Hann átti erfitt með að vera meðal fólks, upplifði ofsahræðslu og fór lítið út úr húsi fyrstu tvo mánuðina. Emil gekk til sálfræðings tvisvar í viku og fékk lyf við kvíðanum og félagsfælninni. 

“Ég var hræddur og þorði ekki að fara út. Ég reyndi að taka eina og eina vakt í vinnunni eftir tveggja mánaða veikindaleyfi en það var virkilega erfitt. Ég varð hræddur að tilefnislausu og þegar ég fór í vinnuna eða til vinkonu minnar þurfti ég að leggja mjög nálægt staðnum, svo hljóp ég í bílinn og læsti honum strax, var alltaf að horfa aftur fyrir mig og hélt alltaf að einhver væri á eftir mér. Hausinn á manni er í ruglinu og maður skynjar hættu sem er í raun ekki til staðar. Þarna hugsaði ég bara með mér hvað er að? Mér var farið að finnast óþægilegt að vera niðri í bæ, þar sem ég vann og erfitt að labba á milli staða, mér fannst erfitt að labba frá Café Paris að Grillmarkaðnum!”

Emil reyndi að vinna úr sínum málum og setti upp grímu. Honum leið illa innra með sér og á endanum kom að því að hann náði botni. 

“Mér var farið að líða illa, ég reyndi að láta mína nánustu halda að það væri allt í lagi hjá mér og mér tókst að plata fólkið í kringum mig. Ég byrjaði að taka stærri skammta af lyfjunum mínum til að deyfa tilfinningar. Það var svo eitt kvöldið að ég fór út með vinum mínum.  Ég lenti í rifrildi við mann sem sagði ljóta hluti við mig. Hann réðst á mig persónulega og gerði lítið úr nauðguninni.  Þetta varð bara of mikið fyrir mig ofan á allt annað og á endanum fékk ég nóg. Ég tók fullt af lyfjum og var á leiðinni upp í herbergi til mín þegar mamma sá mig.”

Emil segir að hann hafi platað sjálfan sig í einhvern tíma og ekki leyft sér að takast á við vanlíðan sína og á endanum fékk hann nóg. Hann segir að eftir atburðina sé hann viðkvæmari fyrir áreiti og þegar hann lenti í því að einhver maður  gerði lítið úr hans upplifun á almannafæri var það dropinn sem fyllti mælinn.

“Ég ætlaði bara að fara að sofa, vildi ekki lifa lengur. Mamma sá mig labba upp stigann og spurði mig hvort ekki væri allt í lagi. Mig langaði bara að hlutirnir myndu gleymast, en það gerðist ekki.  Ég hugsaði um nauðgunina mörgum sinnum á dag og það sem ég vildi á þessum tímapunkti var að sofna bara. Sem betur fer sá mamma að eitthvað var ekki með felldu og ég sagði henna  hvað ég hefði gert. Hún fór með mig beint upp á spítala, sem betur fer vegna þess að ég tók svo stóran skammt af lyfjum að það hefði orðið mér að bana.”

Emil skammaðist sín mikið þegar hann rankaði við sér daginn eftir á spítalanum en segir að þarna hafi fólkið í kringum hann áttað sig á því að honum leið virkilega illa. Emil lagðist inn á geðdeild í 6 daga í hvíldarinnlögn sem að hans sögn hjálpaði honum mikið. 

“Það var frábært að fá að fara upp á geðeild. Það halda margir að geðdeild sé stofnun með rimlum en svo er ekki. Þarna var ég bara einn, ég vildi ekki hitta neinn, ég var bara að hugsa um mig. Á þessum tíma fékk mamma mikið af símtölum frá blaðamönnum sem frétt höfðu af atvikinu og það var alltaf verið að ýta á mig að tala um þetta og ég var bara ekki í standi til að ræða þetta á þessum tíma.”

Eftir sjálfsvígstilraunina ákvað Emil að fara að vinna í sínum málum og hann segir að í dag hafi hann náð miklum árangri.
“Í dag líður mér betur þó að auðvitað hafi þetta breytt lífi mínu og ég hugsa stundum um þetta í dag. Ég á frábæra vini, fjölskyldu og samstarfsfólk sem hefur hjálpað mér mikið í gegnum þetta og stutt við bakið á mér og það er sérstaklega yndislegt hvað ég á frábært samstarfsfólk hér á Café Paris sem veit allt um mín mál og stendur þétt við bakið á mér.”

Heldur þú að öðruvísi sé komið fram við karlmenn en kvenmenn í nauðgunarmálum?
“Mér leið eins og mér væri ekki trúað. Ég held að það sé minni skilningur á því þegar karlmenn lenda í nauðgun. Mér leið eins og ekki væri tekið mikið mark á mér eða  mínu máli og auðvitað fann ég enn meira fyrir því þegar málinu mínu var klúðrað svona illa. Lögfræðingurinn minn segir að viðmót til mín í skýrslutökunni hafi verið óvenju harkalegt og að það sé langt frá því í lagi að rannsókninni hafi verið klúðrað svona illa.”

Aðspurður hvað Emil vill segja við fórnarlömb nauðgana segir hann að það sé mikilvægt að vera undirbúinn undir erfiðar spurningar í skýrslutöku en mikilvægast sé að kæra og standa með sjálfum sér. Algengt er að fórnarlömb nauðgunar upplifi mikla skömm og Emil fannst virkilega erfitt að viðurkenna nauðgunina í byrjun:

“Þetta var alveg jafn mikil skömm fyrir mig og alla aðra sem lenda í nauðgun. Ég mætti þannig viðmóti að mér leið eins og mér væri ekki trúað. Það geta allir lent í nauðgun, karlmenn og kvenmenn, samkynhneigðir og gagnkynhneigðir og mikilvægast er að standa með sjálfum sér!”

SHARE