Perla Þrastardóttir er á fyrsta ári í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík. Áhugi á tölvunarfræðinámi hafði blundað í henni í áratug og að lokum tók hún ákvörðun um að láta slag standa og innrita sig í frumgreinanám HR sem er undirbúningur fyrir háskólanám. Hún hafði í byrjun áhyggjur af miklum fjarvistum frá þremur börnum en segir að með góðu skipulagi sé allt hægt.

Framandi lærdómur

Í frumgreinanáminu fékk Perla þá undirstöðu í stærðfræði sem þarf til að hefja nám í tölvunarfræði. „Ég kláraði frumgreinanámið síðustu áramót og byrjaði í tölvunarfræðinni við HR síðasta vor. Tölvunarfræðin er ansi strembin og þetta er framandi lærdómur. Þetta snýst mikið um stærðfræði, líkindareikning og að nota rökhugsun. Í frumgreinanáminu hafði maður ákveðinn grunn að byggja á en þetta er alveg nýtt fyrir mér. En óskaplega gaman og spennandi.“ Perla segist núna bara hugsa um að komast í gegnum prófin og sé ekki mikið farin að hugsa um áherslusvið en segist þó aðeins byrjuð að velta því fyrir sér. „Nú er að koma inn það áherslusvið sem ég hafði látið mig dreyma um sem er vef- og viðmótsþróun. Ég var einmitt að vonast til að það myndi bætast við svið sem kæmi inn á vefforritun og hönnun þannig að þetta verður klárlega mitt áherslusvið.“

Hvernig getur maður sest aftur á skólabekk og séð um fjölskylduna?

Perla segist taka námið eitt skref í einu. „Það fer enginn í gegnum þetta nám með hangandi hendi. Frumgreinanámið var góður grunnur enda hefur það á að skipa frábærum kennurum og stærðfræðigrunninn í tölvunarfræðina fékk ég þar. “

Þetta byrjaði allt saman fyrir tíu árum. „Ég fór í einn kúrs í heimasíðugerð í skrifstofunámi og þá vaknaði hjá mér draumurinn um að læra þetta betur. Það tók mig þessi 10 ár að hafa mig í þetta; fyrst að ljúka tilteknum grunni í frumgreinanáminu í HR og svo í tölvunarfræðina. Í millitíðinni eignaðist ég tvö börn en átti eitt barn fyrir. Ég heyrði um frumgreinanámið hjá vini mínum en þurfti að hugsa mig vel um. Hvernig getur maður sest aftur á skólabekk og séð um fjölskylduna? Ég var hrædd við miklar fjarvistir. En með góðu skipulagi hefur þetta tekist. Lykillinn er að hugsa bara um eina önn í einu. Svo fær maður gott jólafrí og sumarfrí inn á milli.“

Samheldnin mikil

Perla segir frumgreinanámið hafa gengið mjög vel. Í náminu sé bekkjarkerfi sem gerir það að verkum að samheldnin verði meiri og nemendur hjálpi hver öðrum. „Þetta er alveg strembið en mér gekk mjög vel og fékk viðurkenningar fyrir góðan námsárangur, til dæmis var ég með nýnemastyrk á vorönn sem þýðir að ég þurfti ekki að borga skólagjöldin fyrir þá önn.“

A

SHARE