Aðalheiður, eða Heiða eins og hún er oftast kölluð er í fæðingarorlofi þessa dagana með syni sínum en hún var að eignast sitt fyrsta barn. Við fengum aðeins að „yfirheyra“ þessa kraftmiklu konu sem er söngkona, útvarpskona, flugfreyja og margt margt fleira.

 

Fullt nafn: Aðalheiður Ólafsdóttir

Aldur: 34 ára

Hjúskaparstaða: Í sambúð með Snorra Snorrasyni

Atvinna: Söngkona, útvarpskona og flugfreyja svona aðallega en stundum leikkona og söngkennari ásamt fleiru.

 

Hvað ertu að gera þessa dagana? Ég er í fæðingarorlofi þannig að ég nýt tímans í botn með syni mínum sem dreif sig í heiminn 26. ágúst 7 vikum fyrir settan dag. Þetta er besta og mesta og dásamlegasta starf í heimi að fá að vera mamma hans Snorra sonar míns, en í og með syng ég jólalög þessa dagana, tala í útvarpið og sem lög og texta en ég samdi einmitt eitt jólalag á dögunum, Jól með þér, sem ég var að senda frá mér og hægt er að hlusta á á youtube fyrir áhugasama.

Hver var fyrsta atvinna þín? Barnapía

Hvað áttu alltaf í ísskápnum? Smjörva

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn? Hamborgarhryggur og sigin grásleppa

Hefurðu komplexa? Ójá, komplexa yfir að vera ekki nógu góður í hinu og þessu, standa sig ekki í hinu og þessu og svo eru það útlitstengdu komplexarnir sem er svo afskaplega sorglegt, að maður sé ekki lengra kominn en það, fullorðin manneskjan. Er að vinna statt og stöðugt í sjálfstraustinu og að elska mig eins og ég er, það kemur vonandi einhvern daginn. Og mikið vona ég að allar þessari kröfur, að allir eigi að vera steyptir í sama mót, allir þurfi að gera þetta og hitt osfrv. séu að taka enda, ég hef svo mikla trú á unga fólkinu í dag, að það gefi fyrirfram ákveðnum hugmyndum um að allskonar eigi að vera svona og hinsegin fingurinn.

Hundur eða köttur? Hundur

Ertu ástfangin? Já, heldur betur, held stundum að ég springi úr ást

Hefurðu grátið í brúðkaupi? Guð minn góður já, öllum sem ég hef farið í sem gestur og ég er meira að segja það mikil grenjuskjóða að ég þarf að hafa mig alla við að grenja ekki þegar ég er ráðin sem söngkona í brúðkaup hjá bláókunnugu fólki. Þetta bara snertir mig, að fólk sé að gefa hvort öðru þetta stóra loforð og ætli að verða gamalt saman. Það er sérlega mikill heiður að fá að vera partur af stóra deginum hjá brúðhjónum, hvort sem er sem gestur eða söngkona.

Hvað er alveg ómissandi að hafa á jólunum? Ástvinina og súkkulaði

Hvernig fagnarðu jólum? Ég er afskaplega mikið jólabarn, elska allt við þau, aðventuna og svo hátíðirnar. Allt verður þó að vísu svolítið öðruvísi í ár þar sem ég fagna fyrstu jólum sonar míns, og mikið er ég spennt, ásamt því að við Snorri maðurinn minn höldum okkar fystu jól saman annarsstaðar en á Hólmavík þar sem ég er fædd og uppalin

En áramótum? Þeim verður fagnað á Hólmavík, eins og yfirleitt alltaf, það er svo dásamlegt að vera þar í kyrrðinni í jólabænum mínum. Ekki alltof mikil sprengjulæti, bara passlega mikið svo maður geti séð falleg ljós á himninum, borðað kalkún og knúsað fólkið sitt.

 

 

 

 

SHARE