McDonalds möffins með Dumle

Þessi svakalega girnilega uppskrift er frá Ljúfmeti og lekkerheit. Gæti ekki verið meira gúmmelaði.
Mc´Donalds möffins með Dumle
Mc´Donalds möffins með Dumle
Mc´Donalds möffins með Dumle
Þar sem kvöldið fór að mestu leiti í að leita að uppskriftinni varð ekkert úr bakstrinum hjá mér en uppskriftinni ætla ég að koma örugglega fyrir hér á blogginu svo ég geti gengið að henni vísri næst þegar löngunin grípur mig. Þessi möffins eru nefnilega fullkomin! Á Svíþjóðarárum mínum var ég fastakúnni á McDonalds og ég hefði nú getað sparað mér ansi margar ferðir þangað hefði ég átt þessa uppskrift þá. Vinkonur mínar eru enn að hlægja af því þegar afgreiðslukonan í bílalúgunni á McDonalds staðnum mínum benti mér vingjarnlega á að þeir seldu líka jógúrt. Þetta er að eflaust ekki uppskriftin frá McDonalds en með tveimur tegundum af súkkulaði OG Dumle karamellum (sem er ekki í möffinsinu þar) gefa þær þeim ekkert eftir!
McDonalds möffins með Dumle (uppskriftin gefur 12 stór möffins) – uppskrift úr Veckorevyn
  • 130 g brætt smjör
  • 2 dl sykur
  • 2 egg
  • 2 tsk vanillusykur
  • 5 dl hveiti
  • 2 tsk lyftiduft
  • 1 tsk matarsódi
  • smá salt
  • 1 ½ dl kakó
  • 1 ¾ dl súrmjólk
  • 75 g grófhakkað dökkt súkkulaði
  • 75 g grófhakkað rjómasúkkulaði
  • 20 Dumle karamellur, grófhakkaðar

Hitið ofninn í 200° og raðið 12 möffinsformum á ofnplötu (best er þó að setja þau í möffinskökuform sé það til).

Blandið saman hveiti, lyftidufti, matarsóda, vanillusykri, kakói og salti í skál.

Hrærið brædda smjörið, súrmjólk, sykur og egg saman í annari skál. Bætið þurrefnunum saman við og hrærið saman í slétt deig. Hrærið ¾ af hakkaða súkkulaðinu og helmingnum af Dumle karamellunum í deigið. Setjið deigið í möffinsformin og stráið því sem eftir var af súkkulaðinu og Dumle karamellunum yfir. Bakið í miðjum ofni í 15-18 mínútur.

Ljúfmeti og lekkerheit á Facebook. 

 

SHARE