Sigurvegarinn

Árið 2017 tók virkilega á mína andlegu hlið.

Ég hef alltaf barist við undirliggjandi þunglyndi og depurð, með jákvæðni, bjartsýni og hreyfingu næ ég iðulega að halda því í skefjum.

En því miður tókst þunglyndinu að sigra mig árið 2017.

„Ísak, mamma er aftur farin að gráta“ kallar Friðgeir 5 ára sonur minn á 3 ára bróður sinn.

Ísak er hetjan í fjölskyldunni, hann hræðist ekkert.

Sá stutti kemur labbandi inni eldhús þar sem móðir hans liggur í algjörri uppgjöf, svo mikilli uppgjöf að hún gat ekki lengur fundið fyrir neinum styrk til þess að halda tárunum aftur lengur.
Sá stutti leggur hlýlegar fingur sínar sitthvoru megin á kinnar móður sinnar, horfir djúpt í augun á henni með fallegu, brúnu, stóru augunum sínum, kyssir hana og tekur svo þéttingsfast utan um hálsinn á henni.
Sá stutti bjargaði móður sinni frá sjálfum sér á þessari stundu.

Ástin streymdi um mig alla og ég fann fyrir styrknum sem mig vantaði.

Á þessari stundu nýtti ég styrkinn frá Ísaki til þess að leita mér aðstoðar. Ég byrjaði í meðferð hjá Kvíðameðferðastöðinni þar sem ég skoraði svo hátt í depurð að sálfræðingurinn sagði bara hreint út „veistu, í flestum tilfellum er fólk komið á þennan stað (og bendir á neitunina mína fyrir því að vera í sjálfsvígshugleiðingum) þegar það er svona hátt í depurð.”

-Já pabbi minn fyrirfór sér, ég veit að sama hversu illa mér líður þá verður það aldrei lausnin að enda þetta.

Ég skal viðurkenna það fyrir ykkur … að það komu stundir þar sem ég var hreinlega ekki viss hvort ég væri að gera neinum greiða með því að anda ennþá. Ég hafði ollið sjálfum mér vonbrigðum, með því að valda fólki sem mér þótti vænt um vonbrigðum. Að fyrirgefa sjálfum sér er það erfiðasta sem ég hef nokkurtímann gert.

En með sögu pabba að vopni og ást barnanna minna stend ég uppi sterkari en nokkrum sinnum fyrr.

Vinnan í að elska sjálfan sig, kunna að meta sjálfan sig og finnast maður nógu góður er eilífð. En á meðan maður berst áfram, er hreinskilinn við sjálfan sig og sína nánustu þá stendur maður alltaf uppi sem sigurvegari.

Ég tileinka þennan póst föður mínum – í dag eru 23 ár síðan hann féll fyrir sinni eigin hendi. Þér get ég þakkað þann styrk sem ég ber í dag.

Þín pabbastelpa Þóranna

SHARE