Næringarmjólk og teppi vinsælustu sönnu gjafirnar í ár 

Ólafur Darri og Estelle litla hittust á næringarspítala UNICEF á Madagaskar

„Þörfin fyrir hjálp hefur sjaldan eða aldrei verið meiri en nú“

Sannar gjafir UNICEF hafa aldrei verið vinsælli og ljóst að æ fleiri kjósa að gefa lífsnauðsynleg hjálpargögn í nafni vina og ættingja sem jólagjöf. „Þetta er sérstaklega ánægjulegt í ljósi þess að 2014 var mörgum börnum ólýsanlega erfitt og þörfin fyrir hjálp hefur sjaldan eða aldrei verið meiri en nú,“ segir Helga Ólafsdóttir, fjáröflunarfulltrúi UNICEF á Íslandi.

Námsgögn og bóluefni eru gjafir sem standa ávallt fyrir sínu en margir hafa valið að gefa slíkar gjafir í stað þess að senda jólakort í ár. Vinsælustu gjafirnar að þessu sinni eru hins vegar tvær, annars vegar teppi og hins vegar næringarmjólk. Hlý teppi geta skipt sköpum fyrir börn á flótta en UNICEF áætlar að fleiri en 15 milljónir barna búi nú í flóttamannabúðum, séu á vergangi eða eigi um sárt að binda vegna vopnaðra átaka.

Fjölmargir hafa fest kaup á næringarmjólk með sönnum gjöfum, en hver gjöf útvegar hvorki meira né minna en 27 lítra af mjólk! Næringarmjólkin var sérstaklega þróuð til að meðhöndla allra vannærðustu börnin á næringarmiðstöðvum og sjúkrahúsum og er lífsnauðsynleg fyrir þau börn sem eru orðin of máttfarin til að innbyrða fasta fæðu.

„Fyrst hún er farin að brosa til mín, þá líður henni ágætlega“

Ólafur Darri Ólafsson kynnti sér störf UNICEF á Madagaskar fyrr á árinu og heimsótti meðal annars næringarspítala þar sem börn, sem þjást af alvarlegri vannæringu, fá aðhlynningu og meðferð. Með réttri meðhöndlun, sem felur meðal annars í sér að gefa börnunum næringarmjólk og vítamínbætt jarðhnetumauk, ná nær öll börn fullum bata. Ein þessara barna er Estelle Sylva, lítil stúlka sem náði miklum bata á stuttum tíma á næringarspítalanum.

Í þessu myndbandi spjallar Ólafur Darri við Estelle litlu og bendir á hvernig einfaldar og ódýrar lausnir geta skipt sköpum við að veita börnum meðferð sem getur bjargað lífi þeirra. Ólafur Darri og Estelle náðu einstaklega vel saman og þrátt fyrir dálitla feimni í byrjun brosti þessi litla stúlka að lokum sínu breiðasta enda á góðri bataleið.

Estelle var á góðum batavegi þegar Ólafur Darri hitti hana. Hún náði á næringarspítala UNICEF í tæka tíð og fékk strax meðferð við vannæringu.
Estelle var á góðum batavegi þegar Ólafur Darri hitti hana. Hún náði á næringarspítala UNICEF í tæka tíð og fékk strax meðferð við vannæringu.

UNICEF hvetur alla til að leggja sitt af mörkum til að fjölga brosum eins og þessum. Sannar gjafir UNICEF koma alltaf að gagni og eiga það allar sameiginlegt að bæta líf barna sem eiga um sárt að binda.

Kidda Svarfdal er ritstjóri og eigandi Hún.is en hún er frá Djúpavík á Ströndum. Hún fór á bát og snjósleða í skólann þegar hún var lítil og var í heimavist í Finnbogastaðaskóla. Hún hefur haft gaman að krossgátum og íslensku frá unga aldri og hefur skrifað ljóð, sögur, pistla og fleira. Ásamt því að skrifa á Hún.is er Kidda, ásamt fjölskyldu sinni, mikið í Djúpavík þar sem fjölskyldan er með ferðaþjónustu.

SHARE