Allt sem þú þarft að vita um leghálskrabbamein

Leghálskrabbamein á upptök sín í þeim hluta legsins sem kallast legháls en hann er þar sem leggöng tengjast neðsta hluta legbolsins. Flöguþekja þekur leggöng en kirtilþekja sjálfan legbolinn. Langflest leghálskrabbamein (um 90%) eiga upptök sín þar sem kirtilþekja mætir flöguþekju við ytra leghálsgangaop og nefnist þetta svæði skiptireitur. Minnihluti krabbameina (um 10%) á upptök sín í kirtilþekju í innri hluta leghálsganga.

Orsök þessa sjúkdóms má rekja til röskunar á jafnvægi í nýmyndun og eyðingu fruma í slímhúð leghálsins en þessi frumumyndun er örust við áðurnefndan skiptireit. Ekki er vitað hvað veldur þeirri röskun en ljóst er að um 90% þeirra kvenna sem fá sjúkdóminn lifa samlífi.

Sjá einnig: HPV-veiran og bólusetning gegn leghálskrabbameini

Áhættan eykst eftir því sem konan er yngri þegar hún byrjar samlíf og hafi hún mök við fleiri en einn eykst hættan enn frekar. Ýmislegt bendir til að hér geti í mörgum tilfellum verið um að ræða veirusmit þar sem veiran berst milli kynja við samfarir. Fleiri þættir virðast þó jafnframt geta haft áhrif, svo sem aðrar sýkingar í kynfærum, og jafnvel er talið að reykingar auki verulega þessa áhættu.

Gangur og einkenni sjúkdómsins

Í byrjun vex sjúkdómurinn oftast staðbundið í leghálsi en síðan ífarandi í aðliggjandi líffæri, svo sem upp í legbol, niður í leggöng, út til hliðanna í aðliggjandi bandvef og út að grindarveggjum eða fram í blöðru og aftur í endaþarm. Einnig getur sjúkdómurinn dreift sér eftir sogæðum til aðliggjandi eitla eða eftir blóðæðum og þá oft til lifrar og lungna.

Fyrstu einkenni sjúkdómsins eru oftast blæðingar, t.d. við áreynslu og samfarir eða milliblæðingar. Hjá rosknum konum getur fyrsta einkennið verið brún eða mikil hvítleit útferð. Við langt genginn sjúkdóm breytast einkennin í óþægilegan þrýsting á blöðru og endaþarm, verk sem oft leggur niður í aftanverð læri vegna þrýstings á taugar eða bjúg á fótum vegna þrýstings á sogæðar.

Sjá einnig: Frumubreytingar í leghálsi

Við greiningu sjúkdómsins er útbreiðsla hans könnuð með læknisskoðun, rannsóknum og minni háttar skurðaðgerðum. Auk blóðrannsókna eru alltaf gerðar eftirtaldar rannsóknir: Lungnamynd, beina- og lifrarskann og speglun þvagblöðru.

Sjúkdómnum er því næst skipað í stig eftir útbreiðslu. Hann er á 1. stigi ef hann er takmarkaður við leghálsinn, á 2. stigi ef hann vex út í aðliggjandi bandvef en nær ekki að grindarveggjum, á 3. stigi ef æxlisvöxtur nær að grindarveggjum og á 4. stigi ef æxlisvöxtur er inn í blöðru eða endaþarm eða æxlið vex fyrir utan grind.

Batahorfur eru mjög háðar því á hvaða stigi sjúkdómurinn greinist. Þær eru miklar á 1. stigi en litlar á 4. stigi. Mestar eru þær þó ef sjúkdómurinn greinist í byrjun 1. stigs, áður en hann er farinn að gefa einkenni. Það er oft nefnt hulinstig sjúkdómsins og batalíkur eru nær 100%.

Leit að leghálskrabbameini

Krabbameinsleit beinist að því að finna þá einstaklinga sem eru með forstig ákveðins krabbameins eða með sjúkdóminn á hulinstigi. Þegar þetta er ritað er leghálskrabbamein eini illkynja sjúkdómurinn þar sem unnt er með einfaldri aðferð að finna bæði forstig og hulinstig.

Sjá einnig: Leghálsskoðun: Einföld en mikilvæg rannsókn

Leitin byggist á svonefndu frumustroki. Um leið og leghálsinn er skoðaður og þreifaður er hann strokinn með tréspaða og þær frumur sem losna frá skiptireitnum eru stroknar út á gler, litaðar og skoðaðar undir smásjá. Um leið er farið inn í leghálsgöngin með bursta og snúið heilan hring til að ná þar í frumur frá slímhúð. Þeim er svo strokið út á gler, þær litaðar og skoðaðar undir smásjá. Er þá verið að leita að vissum breytingum, forstigsbreytingum, í kjörnum og útliti frumnanna sem geta gefið til kynna hvort konan er í áhættu að fá krabbamein í leghálsi. Forstigsbreytingum leghálskrabbameins er skipt í fjögur stig. Hið fyrsta er með vægustum breytingum en hið fjórða mestum og er undanfari sjálfs krabbameinsins.

Lögð skal áhersla á að forstigbreytingar eru ekki krabbamein, en þær eru aðvörun um að myndast kunni leghálskrabbamein innan fárra ára ef ekkert er að gert. Ef breyting á 1. eða 2. forstigi finnst í frumustroki er konunni boðin skoðun að nýju eftir sex til tólf mánuði. Ef breytingin hefur þá horfið er fylgst með konunni með nýjum sýnum á árs fresti. Ef breytingin er á 3. eða 4. forstigi er konan kölluð inn til leghálsspeglunar. Leghálsinn er skoðaður með sérstöku speglunartæki og vefjasýni tekin frá grunsamlegum svæðum. Með frumustroki og leghálsspeglun má jafnframt greina krabbamein á algjöru byrjunarstigi (hulinstigi) áður en það hefur valdið nokkrum einkennum.

Meðferð

Meðferð forstigsbreytinga felst í einfaldri skurðaðgerð sem kallast keiluskurður. Neðsti hluti leghálsins er þá skorinn eða brenndur burtu með leysigeisla eða hníf. Sjúklingurinn þarf að dveljast einn sólarhring á sjúkrahúsi og er gróinn sára sinna innan mánaðar.

Meðferð leghálskrabbameins fer eftir útbreiðslustigi sjúkdómsins við greiningu og felst aðallega í skurðaðgerðum og geislameðferð. Lyfjameðferð er frekar lítið notuð. Meðan á meðferð stendur er ávallt fylgst með konunum með tilliti til hugsanlegra breytinga á stærð og dreifingu æxlisvaxtar. Ef sjúkdómurinn er á hulinstigi nægir oftast einfaldur keiluskurður eins og við forstigsbreytingar en í einstaka tilfellum þarf að fjarlægja legið.

Sjá einnig: Ung kona segir frá aukaverkunum vegna bólusetningar við leghálskrabba

Ef sjúkdómur er kominn af hulinstigi en er ennþá aðeins í leghálsi er gefin innri geislameðferð tvisvar með tveggja vikna millibili og fjórum til sex vikum síðar eru leg, legháls, efsti hluti legganga og eggjakerfi fjarlægð með skurðaðgerð. Jafnframt eru teknir eitlar úr grindarholi til frekari rannsókna. Ef æxlisvöxtur finnst í eitlunum þurfa konurnar að auki ytri geislun sem tekur oftast um fjórar vikur. Ef sjúkdómurinn hefur dreifst út fyrir legháls þegar hann er greindur (stig 2.-4.) er ekki gerð skurðaðgerð heldur eingöngu gefin innri og ytri geislun. Innri geislun er þá oftast gefin þrisvar með tveggja vikna millibili.

Ljóst er að meðferð á forstigi og hulinstigi er léttvæg miðað við meðferðina sem þörf er á þegar sjúkdómurinn er komin á hærra stig. Miklar vonir hafa því verið bundnar við leghálskrabbameinsleit Krabbameinsfélagsins og skal hér getið um árangur hennar.

Árangur leghálskrabbameinsleitar

Krabbameinsfélagið hefur rekið skipulega leit að leghálskrabbameini hér á landi frá miðju ári 1964. Frá 1969 náði þessi starfsemi til kvenna á aldrinum 25 til 69 ára um allt land. Hefur þeim verið boðin skoðun á tveggja til þriggja ára fresti.

Áður en leitin hófst fór þeim konum fjölgandi sem greindust með leghálskrabbamein. Á fyrstu árum leitarinnar fjölgaði tilfellum ört. Var það meðal annars talið stafa af því hve margar konur greindust nú með sjúkdóminn áður en þær höfðu fengið nokkur einkenni. Síðan fækkaði leghálskrabbameinstilfellum ört fram til 1980 og það ár voru þau fæst.

Sjá einnig: Aukaverkanir af sprautu gegn leghálskrabbameini

Næstu fimm árin fjölgaði tilfellum á ný. Var það að hluta til afleiðing þess að fram til 1980 hafði einungis um helmingur allra kvenna á þeim aldri sem leitin náði til komið reglulega í skoðun. Það hlutfall hækkaði hins vegar eftir 1980 með bættri tölvuvæðingu Leitarstöðvar, sem leiddi til þess að krabbameinstilfellum fækkaði verulega á ný.

Frá 1964 hefur dauðsföllum á ári af völdum leghálskrabbameins fækkað mjög. Skýringin er sú að æ fleiri konur greinast með sjúkdóminn á byrjunarstigi þegar árangur meðferðar er hvað bestur.

Fátítt var að konur greindust með forstig leghálskrabbameins áður en leitin hófst, en fyrst þar á eftir fjölgaði forstigstilfellum mikið vegna leitarinnar. Síðan fækkaði þeim verulega en fjölgaði svo á ný eftir 1980.

Forstigsbreytingar og leghálskrabbamein á hulinstigi hafa aðallega fundist meðal yngri kvenna og greinast hjá þeim sem mæta reglulega til leitar. Þannig má þakka það leitarstarfseminni að náðst hefur að greina sjúkdóminn á svo auðlæknanlegu stigi.

Sjá einnig: Konur eiga að þreifa brjóst sín 1 sinni í mánuði

Aukning forstigsbreytinga og hulinstigs meðal yngri kvenna á síðari árum hefur leitt til þess að neðri aldursmörk leghálskrabbameinsleitar voru í ársbyrjun 1988 lækkuð úr 25 árum í 20 ár.

Leghálskrabbamein, forstigsbreytingar og kynsjúkdómavörtur

Á síðari árum hefur orðið vart við fjölgun Kynsjúkdómavarta (condylomata) meðal karla og kvenna, m.a. hjá konum sem hafa forstigsbreytingar og byrjandi leghálskrabbamein. Þessar vörtur orsakast af veirutegund sem nefnist Human Papilloma veira (HPV). Hefur hún fundist í nokkrum mæli hjá konum með forstigsbreytingar og leghálskrabbamein og hjá körlum með krabbamein í getnaðarlim. Líkur eru á að beint orsakasamband sé milli þessara veira og leghálskrabbameins og rekja megi að nokkru fjölgun leghálskrabbameina og forstigbreytinga á síðari árum til aukins frjálslyndis í kynferðismálum og þess að fólk byrjar nú samlíf fyrr á ævi en áður.

Lokaorð

Árangur leghálskrabbameinsleitar hér á landi bendir ótvírætt til þess að greina megi sjúkdóminn á forstigi eða á hulinstigi svo framarlega sem konur koma reglulega til leitar á tveggja til þriggja ára fresti. Ef frumusýni eru hvað eftir annað eðlileg minnka líkurnar á að krabbamein myndist, að óbreyttum sambúðarháttum.

Margt bendir til að leghálskrabbamein og forstig þess séu tengd veirusmiti sem berist við samfarir. Hægt er að koma í veg fyrir smit með því að nota verjur (smokk). Stundi kona ekki öruggt kynlíf ætti hún að hafa þetta í huga.

Um 10% æxla í leghálsi greinast treglega með frumustrokum vegna þess að þau byrja hátt uppi í leghálsgöngum þaðan sem erfitt er að ná góðu stroki. Allar konur eiga því að vera á varðbergi og hafa strax samband við leitarstöðina eða lækni ef þær fá einkenni með óeðlilegum milliblæðingum eða blóðugri útferð, jafnvel þótt þær hafi komið reglulega til skoðunar.

Fræðslurit Krabbameinsfélagsins. Krabb.is

 Fleiri greinar um heilsu á doktor.is logo
SHARE