Brjóstakrabbamein – Áhættuþættir sem þú þarft að vita um

Vísindamenn vita að hormónar, erfðir, lífstíll og umhverfi geta aukið líkurnar á brjóstakrabbameini. Það getur hinsvegar alveg líka gerst að fólk með fáa eða jafnvel enga áhættuþætti fær samt brjóstakrabbamein og fólk með marga áhættuþætti fær aldrei brjóstakrabbamein.

Hvað veldur brjóstakrabbameini?

Til þess að einfalda málið verður brjóstakrabbamein til þegar frumur í brjóstinu fara að vaxa óeðlilega. Vísindamenn rekja þessar frumubreytingar til flókins samspils erfða- og umhverfisþátta, þó að orsök einstakra brjóstakrabbameinssjúklinga geti verið óþekkt. Þegar svo þessar óeðlilegu frumur skipta sér safnast þær upp í massa eða hnúð og geta einnig breiðst út, sem meinvörp, til annarra hluta líkamans, eins og eitla.

Flest brjóstakrabbamein hjá konum og körlum byrja í mjólkurgöngunum og er það kallað ífarandi mein frá mjólkurgöngum. Önnur brjóstakrabbamein byrja í öðrum brjóstvefsfrumum eins og mjólkurkirtlum og kallast það staðbundið mein í mjólkurkirtli.

Það er líka mikilvægt að nefna stökkbreytingar gena hér. Vísindamenn áætla að einhvers staðar á milli 5% og 10% allra brjóstakrabbameina verði til vegna arfgengra stökkbreytinga í genum, sem berast frá kynslóð til kynslóðar með DNA. Þó að það séu margar arfgengar stökkbreytingar sem auka hættuna á brjóstakrabbameini, eru tvær þekktustu BRCA1 og BRCA2. Samkvæmt CDC ber ein af hverjum 500 konum stökkbreytingu í BRCA1 eða BRCA2 genum sínum.

Sjá einnig: 6 ráð varðandi brjóstagjöf

Áhættuþættir

Konur eru í mun meiri hættu að fá brjóstakrabbamein en karlar. Ein af hverjum 8 konum í Bandaríkjunum á á hættu að fá brjóstakrabbamein einhvern tímann á ævinni. Líkurnar á því að karlmaður í Bandaríkjunum fái brjóstakrabbamein eru miklu minni, eða 1 á móti 800.

Áhættuþættir karla eru ekki vel þekktir en vísindamenn hafa bent á örfá erfða- og umhverfisþætti sem gætu haft áhrif, en aldur skiptir miklu máli en karlar greinast að meðaltali um 71 árs aldurinn.

Mikið meira er vitað um áhættuþætti kvenna. Að því sögðu er ekki þar með sagt að kona sem er með marga áhættuþætti muni mjög líklega fá brjóstakrabbamein eða að kona með fáa áhættuþætti muni aldrei fá brjóstakrabbamein.

Sjá einnig: Hverjir fá brjóstakrabbamein?

Eftirfarandi áhættuþættir eru tengdir þróun brjóstakrabbameins hjá konum:

Aldur

Hættan á brjóstakrabbameini eykst eftir því sem kona eldist og þess vegna eru konur hvattar til árlegrar brjóstamyndatöku frá 40 ára aldri.

Persónuleg saga og fjölskyldusaga

Persónuleg saga um staðbundið mein í mjólkurkirtli eða óhefðbundinn ofvöxt eykur hættuna á brjóstakrabbameini. Saga um krabbamein í öðru brjóstinu eykur einnig líkurnar á að fá krabbamein í hinu brjóstinu. Að auki, ef það er saga um brjóstakrabbamein í fjölskyldunni ertu í meiri áhættu.

Áfengisneysla

Því meira áfengi sem kona drekkur, því meiri líkur eru á að hún fái brjóstakrabbamein.

Geislun

Ef það hefur verið framkvæmd einhverskonar geislun á brjóstkassa í barnæsku eða á unglingsárum verður áhættan á brjóstakrabbameini meiri.

Kynþroski

Ef blæðingar hófust fyrir 12 ára aldurinn eru meiri líkur á að kona fái brjóstakrabbamein.

Aldur við tíðahvörf

Ef þú byrjar tíðahvörf eftir 55 ára eykst hættan á brjóstakrabbameini.

Barneignaraldur

Að fæða barn eftir 30 ára aldur eykur áhættu á brjóstakrabbameini.

Sjá einnig: Hvernig getur brjóstakrabbamein litið út?

Meðganga

Konur sem hafa aldrei verið þungaðar eru í meiri hættu á að fá brjóstakrabbamein en konur sem hafa verið þungaðar einu sinni eða oftar.

Hormónameðferð

Hormónameðferð við tíðahvörf, sérstaklega hvers kyns tegund sem sameinar estrógen og prógesterón, eykur hættuna á ákveðnum tegundum brjóstakrabbameins.

Líkamsþyngd

Því hærri sem líkamsþyngdarstuðullinn er því meiri hætta er á að konur fái brjóstakrabbamein eftir tíðahvörf. Rannsóknir benda til þess að aukafitufrumur, sem búa til estrógen, geti verið ábyrgar fyrir aukinni hættu á brjóstakrabbameini.

Heimildir: Health.com

SHARE