„Ég var 14 ára og þú vissir hvað þú varst að gera“

Margrét Hildur Werner Leonhardt deildi í dag sláandi reynslu sinni af ofbeldissambandi sem hún varð fyrir 14-15 ára gömul. Við birtum hana hér með góðfúslegu leyfi Margrétar.

Sést að þessi 14-15 ára sé í ofbeldissambandi? Síðustu dagar hafa verið mjög „triggerandi“ og erfiðir, það hefur verið átakanlegt að lesa allar frásagnirnar. Ég er stolt af öllum þolendum, sama hvort þið hafið sagt frá opinberlega eða ekki, þið eruð hetjur. Til gerandans míns: Nóttin sem þú nauðgaðir mér í fyrsta skipti. Dagurinn sem þú áttir 18 ára afmæli. Manstu hversu oft ég sagði þér að hætta, eða hversu oft ég sagði að þu værir að meiða mig? Ég man hversu dofin ég var. Ég man að þú spurðir “plís” & “þetta verður bara stutt” á meðan þú hélst fyrir munninn á mér. Aftur og aftur og aftur og aftur, Endurtekið yfir 3 mánuði. Ég gerði allt til að vernda þig, allt. Þú einangraðir mig frá vinum og fjölskyldu, þú niðurlægðir mig, ég var svo hrædd við þig. Og manstu þegar ég fór í hálskirtlatöku og var svo dofin að ég gat ekkk hreyft mig? Manstu hvernig þu notfærðir þér það í 7 daga? Oft á sólarhring stundum. En hver ætti svosem að trúa mér? Þú er ekki “þannig” strákur og þú gætir náttúrulega aldrei nauðgað mér af því ég er svo feit eins og vinkona þín orðaði það.

Ég hata að þú gerðir þetta við mig og að þú hafir ekki tekið ábyrgð. Þú færð ekki að segja að ég sé bara “ógeðsleg mella” & “geðveik”, ég var 14 ára og þú vissir nákvæmlega hvað þú varst að gera. Ég var ekki að rústa neinu mannorði, þú gerðir það sjálfur. Gerandameðvirknin var svo mikil að vinkonur hans lögðu bílnum sínum fyrir utan heima hjá mér og voru að hringja í mig, skildu eftir miða fyrir utan hurðina og réðust á mig á balli. Þetta var svo mikið að mér fannst ég ekki vera örugg heima hjá mér, BARA AF ÞVÍ ÉG SAGÐI FRÁ OFBELDINU. Það koma ennþá dagar þar sem ég efast um allt sem gerðist en ég veit að hann braut á mér eftir að ég setti mjög skýr mörk.

Í dag ætla ég að hætta að skammast mín, skömmin er hans og einungis hans. Þótt andleg vanlíðan sé ennþá mikil langar mig að halda áfram, ég er ennþá að læra að lifa með að þetta verður alltaf partur af sögunni minni. Ég er þakklát fyrir alla sem hafa hjálpað mér, Fjölskylda, vinir, Stígamót, samfélagsmiðlar og Píeta Samtökin. Takk þið öll sem hafið hjálpað mér, þið eruð ómetanleg. ❤️#metoo

SHARE