Rannsókn sem var gerð í Ástralíu á hópi liðlega 1 milljón kvenna leiddi í ljós að fjöldinn sem greinist með krabbamein á meðgöngu eða innan árs frá fæðingu hefur stóraukist frá því sem áður var.
Rannsakendur telja að þetta sé að hluta til vegna þess að fleiri og fleiri eldri konur eignast nú börn en það skýrir þó ekki allt.
Þeir telja að líklegra sé að krabbameinin finnist nú oftar af því að konur hafa meira samband við heilbrigðisstéttir á meðgöngu en í annan tíma.
Ennfremur er haldið að vegna hormónabreytinga á meðgöngu gætu smáæxli vaxið hraðar og auðveldara sé því að greina þau.
Flest krabbameinin voru greind í húð (sortuæxli), í brjóstum og skjaldkirtli. Einnig fundust aðrar tegundir krabbameina.
Þegar krabbamein greindist á meðgöngu var oftar ákveðið að taka barnið með keisaraskurði og dagsetning ákveðin fyrirfram og einnig voru börnin oft mjög stór.
Í ljósi þessarar rannsóknar hafa læknar af því þó nokkrar áhyggjur hvað margar konur bíða með að eignast börnin. Þó að aldurinn sé greinilega áhættuþáttur varðandi það að fá krabbamein útskýrir það þó ekki allt. Eins og áður var sagt hafa barnshafandi konur meira samband við heilbrigðisstéttir en á öðrum tíma og því meiri líkur á að krabbamein greinist þá og svo gæti meðganga aukið hættuna á myndun krabbameina.
Í þessari rannsókn voru sortuæxli oftast greind en sú tegund krabbameina er algengasta krabbameinið í Ástralíu.