Til ritstjórnar www.hun.is
Mér þætti vænt um ef þið gætuð birt þetta bréfkorn á síðunni ykkar.
Gamla fólkið
Í aðdraganda kosninganna var mikið talað um „gamla fólkið“. Það var spyrt við öryrkjana og varð þannig til álitlegur hópur kjósenda. Allir áttu þeir alveg ógurlega bágt og lifðu við óbærilega aðstæður. Ljótt er það !
En nú langar mig að draga upp aðra mynd af „gamla fólkinu“. Ég er í þessum hópi og hef fyrir lífsmottó orðin hans Sfeáns G.:
Láttu hug þinn aldrei eldast eða hjartað —
vinur aftansólar sértu,
sonur morgunroðans vertu.
Á Íslandi starfar kór þar sem meðalaldur er 80 ár
Hér í bæ starfar kór eldri kennara- EKKÓ kórinn (eldri kennara kórinn). Meðalaldur kórsins mun vera um 80 ár og eru a.m.k. tveir félaganna komnir yfir nírætt. Kórinn æfir einu sinni í viku og eru æfingarnar hrein vítamínsprauta fyrir sál og líkama. Það finnst best á þessum æfingum að -það er líf eftir kennslu.
Síðastliðinn þriðjudag fór hópurinn- söngfólk og makar í vorferðina. Víst var svalt en birtan óviðjafnanleg og fjallahringurinn dýrðlegur. Gaman var að sjá myndarskapinn sem alls staðar blasti við þar sem við fórum um, vel byggð íbúðarhús, fallegar skólabyggingar og glæsileg dvalarheimili fyrir eldra fólk staðanna. Við sungum á tveim dvalarheimilum og þurfti engar sérstakar athuganir til að finna að fólkinu leið vel. Tvö söfn voru skoðuð, Fræðasetrið í Sandgerði og Orkuverið Jörð í stöðvarhúsi Reykjanesvirkjunar. Hópurinn skoðaði báðar þessar sýningar af miklum áhuga og var ekki að sjá eða finna að hér væri „gamla fólkið“ á ferð.
Hópurinn fékk mjög fróðlega leiðsögn um Grindavík og var okkur sagt frá sögu staðarins og ýmsu fólki sem þar hefur búið og sett svip á bæinn.
Lokapunktur ferðarinnar var svo sameiginlegur kvöldverður á veitingastaðnum Salthúsinu og smakkaðist nýdreginn fiskurinn ótrúlega vel.
Mikil lífsgleði, ánægja og áhugi einkenndi þessa ferð og tilhlökkun að hittast aftur að hausti.
Já, svona getur það verið að vera gamall á Íslandi í dag.
Með kveðjum
Bryndís Víglundsdóttir