Lífshlaup íslensks einstaklings sem fæddist með sköp árið 1982

ATH. Þessi grein er aðsend. Í Þjóðarsálinni getur fólk sent inn greinar, nafnlaust. Skoðanir sem að birtast í innsendu efni endurspegla ekki skoðanir Hún.is

Mig langaði allt í einu að segja Íslandi sögu mína sem kvenkyns lífvera, sögu sem ég hef í raun aldrei sagt neinum í þessari útfærslu.  Löngun mín small í hjarta mitt þegar ein kona sem varð á vegi mínum hér áður fyrr hafði samband við mig og var að spyrja hvort ég vissi fullt nafn á manni sem við lentum báðar í.

Það virðist vera þannig að ef þú fæðist með sköp verðurðu sjálfkrafa bráð í þessum heimi. 

Ég hef enga löngun í að fara í ævisögu mína – löngun mín með þessum pistli er önnur, vekja athygli á því hversu oft og mikið ég hef þurft að láta í minni pokann einfaldlega því ég er með sköp.

Fyrsta skiptið (sem ég man eftir) sem ég varð fyrir því að einstaklingur með pung hafði áhuga á mér. Ég hef verið um 5 eða 6 ára. Þetta atvik rifjaðist upp fyrir mér 2 – 3 árum eftir að dóttir þessa manns hringdi í mig eftir að hafa leitað að mér í einhver ár. Við vorum ótrúlega góðar vinkonur á þessum árum sem pabbi hennar beitti mig kynferðisofbeldi. Ástæða þess að hún var að leita af mér var sú að hún vildi vita hvort að pabbi hennar hefði einhverntímann gert eitthvað á minn hlut þegar ég var heima hjá þeim. Hann hafði þá, á þessum árum, verið að misnota þær systur. Á þessum tíma sem hún hafði samband við mig mundi ég það ekki, það kom seinna. Það rifjaðist upp fyrir mér óljóst en sálin mín vissi. Hann fór niður á mig og sleikti á mér sköpin þegar ég gisti þar eitt skiptið.

Annað skiptið sem brotið var á mér þá hef ég verið um 6 ára. 

Synir nágrannakonunnar voru í heimsókn ásamt móður þeirra. Við vorum inni í herbergi að leika uppí rúmi þegar annar þeirra tekur í hendurnar á mér og heldur þeim niðri á meðan hinn togar niður nærbuxurnar mínar og þeir reyna að fá vilja sínum fram.  Þeir voru ekki mikið eldri en ég, kannski um 10 -12 ára.

Sjá einnig: Var misnotuð af vini föður síns

Þriðja skiptið sem brotið var á mér þá var ég um 14.ára

Ég var ásamt vinum að fá mér í glas. Ég átti þarna kærasta, þennan strák. Hann var 2 árum eldri en ég. Ég bað vinkonur mínar að passa uppá það að ég færi ekki með honum heim því ég vildi það ekki, ég hafði enga löngun að sofa hjá honum.  Ég var orðin vel drukkin og svo man ég að hann var að skakklappast með mig heim til sín og ég man að ég horfði á vinkonur mínar labba í hina áttina.

Fjórði maðurinn sem braut á mér og það spannar 5 ár. Þá var ég 15 – 20 ára

Tengdafaðir minn á þessum árum var perri eins og allir vissu. En það sem snéri að mér var ýmisskonar áreiti – augngotur þegar ég var að hlaupa á klósettið í náttfötunum heima hjá þeim, standa fyrir utan hurðina og gjægjast inn um rifu þegar ég var á klósettinu. Mæna á mig og alltaf að hafa um það að segja hvernig ég væri klædd.  Strjúkast utaní mig endurum og eins. Gjægðist ofaní bolinn hjá mér og allskonar óviðeigandi framkoma. Þetta áreiti hjá honum í minn garð endaði með því að hann nauðgaði mér.

Fimmti maðurinn sem braut á mér, því ég er með sköp, gerði það þegar ég var um 17 ára.

Besti vinur kærasta míns sem var að „passa“ mig eftir eitthvað rifrildi á milli mín og kærasta míns. Ég man að hann hélt á mér á öxlinni út af barnum. Ég vaknaði heima hjá honum og fötin mín voru ekki eins og þau áttu að vera. Óljós minning þar sem hann er að fá vilja sínum fram.

Sjötti maðurinn sem braut á mér – þá var ég um 18 ára

Maður sem var giftur systur þáverandi kærasta míns – þessi sem varð kveikjan að þessum pistli.

Reyndi að þvinga mig til að sofa hjá sér. Hélt mér niðri en ég náði að sleppa – „Hvah ætlaru að skilja mig eftir svona?“ – öskraði hann á eftir mér.

Mig langaði einfaldlega að vekja athygli á því hvaða byrgði það getur verið að fæðast með sköp.

Við erum hérna að tala um 8 einstaklinga úr allskonar áttum sem hafa brotið á mér. 

Sjá einnig: Pabbi minn og unga unnusta hans

Ég fletti einu sinni í gegnum skrá sem sýndi kynferðisafbrotamenn. Þar inná fann ég 1 sem var mjög góður vinur minn – ekki gerandi í mínu lífi og aðra fimm aðra menn sem ég vissi hverjir eru, þetta eru 14 menn í kringum mig eina. Fyrir utan það hvað ég þekki margar konur hér á Íslandi sem hafa liðið fyrir það að hafa fæðst með sköp.

Kynferðisofbeldi er svo miklu algengara og meira en þig grunar.  Við sjáum oft einhverja tölfræði um hversu algengt þetta er, í mínum huga er tölfræðin bara toppurinn á ísjakanum.

Að lokum. Ekki hugsa „hvar voru foreldrar hennar?“. Þau höfðu ekkert með þetta að gera. Ég sagði þeim aldrei frá þessu.  Það þarf að snúa þessu hugarfari við!  Hvar eru foreldrar gerendanna? Það eru þeir sem eru að brjóta af sér, það eru þeir sem eru að skaða.   Við verðum að kenna strákunum okkar hvernig þeir eiga að koma fram við konur, hvernig þeir verða að stjórna kynferðisorku sinni. Ekki bara að kenna stelpunum að passa sig. 

Ef þú vilt deila reynslu þinni í Þjóðarsálinni, mátt þú endilega senda okkur póst á hun@hun.is og saga þín verður birt. Þú ákveður hvort hún eigi að vera nafnlaus eða ekki. 

SHARE