Öruggur svefnstaður barna – Nauðsynleg lesning

Öruggur svefnstaður barna

Það hafa lengi verið skiptar skoðanir á því hvar er öruggast að barnið sofi. Margar rannsóknir hafa sýnt fram á öruggari aðstæður við að sofa með barn uppi í rúmi hjá sér ef að hugað er að þeim atriðum sem talin eru upp hér að neðan. Í þeim tilfellum sem börn hafa látist í rúmi foreldra, hafa rannsóknir sýnt fram á að það voru oftast aðrir áhættuþættir eins og reykingar á meðgöngu, reykingar foreldra, áfengis- eða lyfjanotkun eða ofþreyta eða ofþyngd foreldra sem að höfðu þar samverkandi áhrif. Rannsóknir hafa sýnt að 70-80% barna sofi uppi í rúmi foreldra einhvern hluta nætur. Þess vegna er betra að tala um hvernig það er gert á öruggan hátt, fremur en að segja að það megi ekki. Kostir við að sofa með barn uppí eru margir, Það hefur verið sýnt fram á að það stuðli að betri brjóstagjöf, móðir er fljótari að lesa í merki barnins og sinna því, mæður fá betri heildarsvefn og hvílast betur og barnið fær hlýjuna og öryggið sem er því svo mikilvægt, sérstaklega fyrstu vikurnar.

Skilgreiningar:

Bed sharing= deila rúmi með foreldrum sínum
Co sleeping= sofa með foreldrum sínum á sama svefnstað, sem getur verið í sama rúmi en getur líka verið í rúmi sem er fast upp við rúm foreldranna eða á dýnu/dýnum á gólfi.

Öruggur svefn með foreldrum

Samkvæmt ráðleggingum Landlæknisembættisins er öruggasti svefnstaður barns liggjandi á bakinu í eigin vöggu eða rúmi.
Aðrar stofnanir hafa gefið út samskonar leiðbeiningar en nefna líka að ef að barn sofi uppi í rúmi foreldra, hvernig hægt sé að skapa öruggar svefnaðstæður.

Hafa skal eftirfarandi atriði í huga til að skapa sem öruggastar svefnaðstæður fyrir barnið

Mátulegur hiti í herberginu (16-18 gráður)
Dýnan sé ekki of mjúk (eykur líkur á að barn velti upp að foreldri)
barn hafi eigin sæng og noti ekki kodda
Barnið sofi á bakinu.
Barnið sofi aldrei eitt í foreldrarúmi
Engin laus bönd eða annað sé nálægt barni sem geti hert að hálsi (dæmi keðjur í snudduböndum) Móðir hafi sítt hár uppbundið.
Möguleiki að barn liggi milli foreldra í sér einingu með köntum (fæst víða á netinu)
Hægt er að hafa barnið í rimlarúmi sem er fest upp við rúm foreldra og þá er grindin tekin frá. Hafa í huga að rúmin séu vel fest saman.

svefn-HA-300x230

Hér að ofan á myndinni sést hvernig hægt er að hafa rimlarúm barnsins upp við foreldrarúmið

Hvenær barn ætti ekki að deila rúmi með foreldrum sínum?
Sérstaklega er varhugavert og börn ættu ekki að deila rúmi með þeim sem:

Reykja.
Hafa notað áfengi eða önnur vímuefni.
Nota lyf sem að valda syfju og slæva dómgreind.
Hafa einhvern sjúkdóm eða ástand sem að skerðir getu þess til að sinna barninu.
Eru mjög þreyttir og yfirkeyrðir og eiga erfitt með að vakna til barns.
Ef að foreldri/foreldrar eru í mikilli ofþyngd (hætta á að barn velti upp að)
Ekki er ráðlagt að fyrirburar eða léttburar sofi í rúmi foreldra sinna fyrstu vikurnar.
Ekki er heldur ráðlagt að barn deili rúmi með foreldrum sínum ef að eldri systkini eða gæludýr eru í sama rúmi. (þó ef að eldra barn er í rúminu er hægt að hafa börnin sitt hvoru megin við sig)

Svefnstaðir sem eru ekki öruggir eru:

svefn barns í sófa með eða án foreldris,
barn sofandi í fangi foreldris í stól.
barn sofandi á grjónapúða,
barn sofandi í ömmustól uppi á borði eða á mjúkum undirfleti s.s. rúmi (getur oltið)
barn sofi á mjög mjúku undirlagi s.s. vatnsrúmi eða mjög mjúkri dýnu eða með kodda

Í þeim tilfellum sem börn hafa látist í rúmi foreldra, hafa rannsóknir sýnt fram á að það voru oftast aðrir áhættuþættir eins og reykingar á meðgöngu, reykingar foreldra, áfengis- eða lyfjanotkun eða ofþreyta eða ofþyngd foreldra sem að höfðu þar samverkandi áhrif. Einnig hafa orðið slys við það að sofa með barn í sófa eða sofna með barn í fangi í stól.

Að sjúga á nóttunni minnkar líkur á vöggudauða
Rannsóknir hafa sýnt fram á að ef barnið sýgur oft um nóttina, minnka líkur á vöggudauða. Því er gott að hvetja foreldra til að láta barnið sjúga annaðhvort með því að drekka brjóst eða ef foreldrar kjósa að nota snuð þegar brjóstagjöfin er komin vel á veg.

jillpeteycosleeper11-300x220

Góðar ástæður til að sofa með barninu sínu

Stjórnun öndunar
Öndun barnsins er ekki fullþroskuð við fæðingu og það getur tekið allt að 20 sekúndna hlé milli andardrátta. Þegar barnið sefur hjá þér aðlagast öndunarmynstrið þínu og verður þess vegna reglulegra.

Heilbrigt hjarta
Nálægð annarrar manneskju hefur góð áhrif á hraða hjartsláttar barnsins, reglu hjartsláttar og blóðþrýsting

Tengslamyndun
Samsvefn getur verið foreldrum sem sjá barn sitt lítið yfir daginn, mjög mikilvægur. Það að kúra saman á næturnar getur verið mikill og dýrmætur gæðatími.

Sjálfstæði
Gagnstætt því sem margir halda eru allar líkur á að barnið þitt verði öruggari og sjálfstæðari ef að það sefur með þér. Ef þörfum barns er sinnt á nóttu sem degi, fær það fullvissu fyrir því að vera elskað og það sé séð um það. Barn sem fær fullvissu um að þörfum þess sé mætt þegar það þarf á því að halda, verður almennt minna kröfuhart á foreldra sína (og gráta minna).

Öryggi
Köfnun er oft nefnd sem áhætta samsvefns. Hinsvegar ef að barn er í hættu á að kafna vegna t.d. vegna þess að eitthvað þrengir að hálsi eins og band, ef að það gúlpast upp úr barninu, öndunarerfiðleikar, þá eru meiri líkur á að barn sem lendir í þessu og sefur uppi í hjá foreldrunum, veki foreldrið og það geti brugðist við. Með því að hafa umhverfið í rúminu öruggt, t.d. að barnið sofi með eigin sæng og ekki séu stórir koddar eða annað mjúkt nálægt og forðast að hafa hluti sem geta þrengt að hálsi barns s.s. snuddubönd, er hægt að lágmarka hættu á þessu.

Ef að eitthvað kemur upp á
Ef að barn er uppi í hjá foreldrum er það miklu öruggara ef að eitthvað kemur upp á.

Að róa barnið
Ef að barnið rumskar við einhver óþægindi, getur þú hagrætt sænginni eða klappað barninu áður en það vaknar alveg og það heldur oft áfram að sofa.

Þægindi
Börn sem að sofa hjá foreldrunum sofna oft á bringu foreldranna. Börn velja sér þennan stað vegna þess að þau geta heyrt hjartslátt foreldranna og finna hreyfingarnar þegar foreldrið andar. Þetta fær barninu til að líða vel og sofa lengur.

Skemmtilegur tími þegar er farið að sofa
Barnið setur svefntímann í tengsl við vellíðan en ekki neikvæðar tilfinningar s.s. svefnþjálfun

Góðir morgnar
Um leið og þú vaknar finnurðu ilminn og sérð barnið þitt og það þig.

Léttari öndun
Þegar annað foreldri snýr að barninu í svefni, hvetur koltvísýringurinn í útönduninni barnið til að anda. (Öfugt við þegar reykingafólk sefur upp að barni þá getur útöndunin heft öndun barnsins)

Hitastjórnun
Ofhitnun er áhættuþáttur í vöggudauða, Hinsvegar getur þú virkað hitastjórnandi á barnið, þegar það hitnar of mikið þá kólnar þú meira og kælir barnið niður. Það verður alltaf að huga að því að barn sé ekki of mikið klætt eða verði of heitt. Það getur verið betra að barn sé ekki milli foreldra vegna þessa heldur hinumegin við mömmuna og t.d. barnarúm án grindar upp við forleldrarúmið þeim megin.

Brjóstagjöf
Að sofa með barni auðeldar brjóstagjöf. Barnið þarf ekki að gráta þegar það er svangt. Barnið getur þá drukkið hálfsofandi og heldur svo áfram að sofa.

Greinina fengum við að birta en Ingibjörg Baldursdóttir skrifaði hana á síðu sína ,,barnið okkar” sem má finna hér. Í upprunalegu færslunni getur þú séð heimildir.

Ingibjörg er hjúkrunarfræðingur sem er að ljúka mastersnámi í klínískri sérhæfingu með aðaláherslu á brjóstagjöf og mataræði barna. Ingibjörg er einnig brjóstagjafaráðgjafi og hefur unnið við það í 20 ár.

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here