Óttaslegin og lömuð í 3 vikur

Komdu fagnandi framtíð.

Undanfarinn mánuð er ég eiginlega búin að vera helmingurinn af sjálfri mér, útúr stressuð og dauðhrædd.

Af hverju?

Jú ég hef verið að bíða eftir niðurstöðum. Líkami minn hefur ekki verið að haga sér sem skyldi og þess vegna leitaði ég til lækna og lýsingar á einkennum mínum gáfu til kynna möguleika á að ég væri með afar sjaldgæfan sjúkdóm sem heitir stórfurðulegu nafni og einungis örfáir íslendingar hafa greinst með.

Jebb, stressandi að vita það og gerðar voru viðeigandi rannsóknir.

Einkenninn voru í stuttu máli þau að hjartað í mér fór að slá á fáránlegum hraða og ég hitnaði öll að innan eins og blóðið í mér væri að sjóða og já blóðþrýstingurinn ætlaði mælirinn að sprengja. Ég var sem sagt rannsökuð og sett á lyf til að róa hjartað og þrýstinginn og sagt að það væri verið að athuga með þennan sjáldgæfa sjúkdóm.

Sjá einnig: Gerðu haustið töfrandi

Sjúkdómur þessi er krabbamein á nýrnahettum og samkvæmt læknum ekki mjög eftirsóknaverður og erfitt að meðhöndla.

Með þessar upplýsingar fer ég svo heim og bíð og bíð og bíð….

Með í maganum, hausverk, pínulítil og kvíðin … Já nánast bara lömuð af ótta, einkennin héldu áfram en vægari og ég var sannfærð um að nú væri ég dauðvona eða þá að ég muldraði staðhæfingar um það að ég væri heilbrigð.

Fullt af hugsunum fóru í gegn eins og ég get ekki sagt börnunum ef ég er með þetta það er nóg að þau hafi áhyggjur af pabba sínum þar sem hann er að berjast við krabba.

Já síðustu 3 vikur hafa eiginlega verið bara helvíti. Ég hef ekki haft nokkra eirð til þess að skrifa hér pistla eða sinna heimilinu eða eiginlega bara ekki neitt.

Sjá einnig: „Ég hlusta á lækna allan daginn“

Svo fékk ég að vita í gær að ég er ekki með þennan sjaldgæfa sjúkdóm og vá hvað mér létti. Alsæl og þakklát tók ég þá ákvörðun að vanda mig enn frekar við að sinna heilsunni, fólkinu mínu og lifa lífinu á þann hátt sem gerir mig hamingjusama.

Hugsum vel um heilsuna hún er það dýrmætasta sem við eigum!

Það sem er að gerast er að blessaður skjaldkirtillinn er að vandræðast eitthvað, það er ömurlegt en viðráðanlegt.

Svo nú er að bretta upp ermar og nýta léttirinn til þess að henda í pistla, þrífa og njóta bara í botn.

 

SHARE