Raunverulegar konur – Ásdís Rán

Síðustu vikur höfum við verið að birta litlar greinar um konur án farða. Ástæðan hefur verið að okkur langar að vekja fólk til meðvitundar um hvað er raunverulegt og hvað eru glansmyndir. Áhrifavaldar birta myndir af sér, sem líta út fyrir að vera teknar án mikils undirbúnings og eru samt sem áður fullkomnar. Ungar stúlkur, sérstaklega, hafa óraunhæf viðmið um fegurð og hvað er venjulegt. Það er án efa erfitt að ímynda sér hvernig gullfallegt fólk getur verið myglað á morgnana, með stírur, koddafar og þornað munnvatn í munnvikunum. En sannleikurinn er sá, að við erum öll venjulegt fólk. Við erum með slit, hrukkur, appelsínuhúð, bauga, inngróin hár, húðþurrk, skelfilega hárdaga og fílapensla. 

Ásdís Rán er raunverulega kona þessarar viku. Hún hefur starfað sem fyrirsæta árum saman og við spjölluðum aðeins við hana. Hún sagði okkur að hún fari helst ekki út án farða og hefur ekki gert það síðan hún var unglingur:

„Það er aðallega útaf því ég er ekki langt frá því að vera albínói! Ég er öll hvít þannig ég þarf að hafa aðeins meira fyrir því en flestir að setja smá „contrast“ í andlitið á mér,“ segir Ásdís og bætir við: „Það getur reyndar alveg verið sætt ef ég er vel brún en annars er ég bara hálf glær.“

Við spyrjum Ásdísi út í dagsdaglega rútínu hennar þegar kemur að farðanum:

„Dagleg rútína er „foundation“, maskari, varalitur og bronzing púður á kinnbein, stundum eyeliner ef ég vil extra foxy augu. Ég geng ekki með neitt á mér nema varalit, alvöru dömur verða auðvitað að vera reddý með góðan foxy varalit.“

Þegar veturinn er genginn í garð breytist rútínan aðeins en þá bætir Ásdís inn smá brúnku, og notar hún til þess Face Tanning water by Sonya.

„Ég sef oft með laxerolíu á augnsvæðinu og mæli með því fyrir allar konur yfir þrítugt. Ég þvæ á mér húðina bara einu sinni á sólarhring eða á morgnana, ég veit allir snyrtifræðingar blóta mér útaf þessu en það hefur reynst mér best. Ég fer aldrei í neinar húðhreinsanir eða slípanir ég hef prufað það en þá fer húðin strax í ójafnvægi og ég fæ þurrkubletti eða bólur.“

Ásdís segist vera með svakalega góða húð og þjáist ekki af neinum húðvandamálum. Hún fái ekki þurra húð né bólur yfir höfuð.

„Ég hef reyndar verið með rósroða frá barnsaldri sem ég held að mestu í skefjum með laser á veturnar. Allar þessar húðmeðferðir og stanslausar hreinsanir eyðileggja náttúrulega fitumyndun í húðinni og það er þessi náttúrulega framleiðsla á húðfitu sem heldur húðinni unglegri, ferskri og hrukkulausri. Með miklum húðhreinsunum hættir húðin að geta hreinsað sig sjálf náttúrulega á nóttunni og verður háð efnum og hreinsun. Þetta kannski virkar ekki fyrir alla en virkar fyrir mig, mér finnst gott að setja á mig allskonar nærandi maska ca. 1-2 í mánuði.

Ásdís sendi okkur mynd af sér án farða en hún er auðvitað rosalega sæt án farða og lítur út fyrir að vera með mjög góða húð.

SHARE