Regnbogabörn halda áhugaverðan fyrirlestur – Þú getur fylgst með frítt

Regnbogabörn bjóða þér að taka þátt í einstökum viðburði sem haldinn verður í Háskólabíói, sal 1, dagana 22., 23. og 24. apríl nk. Samtökin Regnbogabörn hafa fengið til liðs við sig helstu sérfræðinga úr fræði- og leikmannasamfélaginu til að halda röð áhugaverðra og stórskemmtilegra fyrirlestra um málefni sem snerta okkur öll í daglegu lífi. Þeir leita nú að áhorfendum í sal til að vera viðstaddir upptökurnar og njóta fyrirlestranna um leið.

Í framhaldinu verða fyrirlestrarnir birtir á nýrri heimasíðu Regnbogabarna sem ber nafnið www.fyrirlestrar.is. Heimasíðan mun ekki einungis innihalda fróðleik og forvarnir um einelti heldur einnig um aðra málaflokka eins og kynferðisofbeldi, ADHD, einhverfu, lesblindu, geðraskanir og fleiri félagsleg mál er varða samfélagið allt. Heimasíðan er ætluð börnum og fullorðnum og verður öllum aðgengileg, þeim að kostnaðarlausu.

Stefán Karl Stefánsson, leikari, er stofnandi Regnbogabarna og núverandi formaður félagsins. Hann hefur sjálfur áralanga reynslu af forvarnastarfi. Fyrir nokkrum árum lagði hann af stað í fyrirlestarröð sína um landið og er enn á ferðinni. Hann hefur nú haldið hundruð fyrirlestra, rætt við foreldra og börn, komið að fjölda eineltismála og talað um forvarnir í fjölmiðlum. Eftir lærdómsríka dvöl í Bandaríkjunum sneri Stefán og fjölskylda heim og ákvað hann að fara af stað með þetta nýja verkefni undir merkjum Regnbogabarna sem á eftir að bylta forvarna- og fræðslusamfélaginu. Öll vinna hans er eigið framlag líkt og önnur vinna sem hann hefur lagt fram á vegum Regnbogabarna frá stofnun þeirra 2002.

Þín þátttaka skiptir miklu máli fyrir samfélagið. Þú getur fengið miða á miði.is án gjalds.

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here