• Hvernig verður börnunum við skilnaðinum?Þegar tekin er ákvörðun um skilnað, liggja yfirleitt knýjandi ástæður að baki. Skilnaður er ákvörðun, sem hefur afdrifaríkar afleiðingar fyrir fjölskylduna, bæði mannlegar og fjárhagslegar – og fyrir samfélagið. Þeir, sem skilnaðurinn bitnar hvað harðast á eru börnin. Börn verða alltaf fyrir sorg og aðskilnaði við skilnað.
 • Er hægt að gera skilnaðinn börnunum léttbærari á einhvern hátt?Margir foreldrar ,,gleyma“ börnunum sínum í þeirri kvalafullu hringiðu, sem þeir lenda í við skilnað. Þar á ég við að fullorðna fólkið gleymir að upplýsa börnin um framvindu mála. Barnið verður fyrir gífurlegu áfalli, ef það fær skyndilega þá fregn að ,,pabbi og mamma séu að skilja“.Það er illskárra fyrir barnið, ef það hefur fylgst með því að slíkt komi til greina. Þú getur til dæmis sagt við barnið: ,,Við pabbi/mamma þín erum að kljást við talsverða erfiðleika í hjónabandinu. Við vitum ekki hvernig það fer, hvort við munum skilja eða finna aðra lausn. Við erum að vinna í þessu og það er verið að hjálpa okkur að ræða saman“.Barnið vill að sjálfsögðu ekki láta draga sig inn í þessar umræður, það er allt of ungt til að bera slíka ábyrgð. Barnið þarf samt að fá vita hvað er í gangi, og að þetta sé vandamál fullorðna fólksins. Ef barnið fær upplýsingar áður en kemur að sjálfum skilnaðinum, getur það áfram treyst ykkur og tekið ykkur trúanleg. Þið gefið einnig til kynna að leyfilegt sé að ræða málin opinskátt.Hreinskilni er kjarni málsins. Svarið í einlægni, ef barnið spyr spurninga, einnig þegar skilnaður og afleiðingar hans berast í tal.

  Vertu vel meðvitaður og næmur fyrir því sem barninu liggur á hjarta, svo að hægt sé að ræða það.

  Þú verður líka að beita þig vissri sjálfsögun. Skilnaður er að sjálfsögðu ófremdarástand, líka fyrir þig, en stundum verðurðu að setja sjálfan þig í annað sæti og láta tilfinningar og angist barnsins hafa forgang.

 • Hvaða afleiðingar hefur skilnaður fyrir barnið?Viðskilnaðurinn við annað foreldrið og sorgin yfir að fjölskyldan, sem barnið átti, er ekki lengur til, er meginvandi barnsins. Auk þess raskast sá sess, sem það hafði í fjölskyldunni.Flest börn líta á það sem sitt „heilaga hlutverk“ að sameina foreldrana á ný. Ef barn er spurt, er nánast óbrygðult, að það vill helst að foreldrarnir tolli saman, frekar en að skilja. Það gildir nánast einu hversu erfitt hjónabandið hefur verið. Börn eru ótrúlega trygg foreldrum sínum. Í viðleitni sinni til að sameina foreldrana, afneita þau oft og vanrækja sínar eigin tilfinningar.Mörg börn þjást af hrikalegri sektarkannd, við skilnað foreldranna. Þau ímynda sér, að ef þau hefðu hegðað sér betur, eða fengið betri einkunnir í skólanum, hefði ekki farið svona. Því er nauðsynlegt að leggja þunga áherslu á, að skilnaðurinn sé ekki barninu að kenna. Það verður að gera barninu ljóst að, skilnaðurinn er alfarið á könnu fullorðna fólksins, sem hefur ekki tekist að leysa sín mál.Við skilnað lenda börnin oft í sálarkreppu vegna tryggðar við foreldrana. Þegar barnið er hjá öðru foreldrinu er það með samviskubit yfir að vera ekki hjá hinu og hið gagnstæða.

  Foreldrarnir verða að ítreka við barnið, að það sé allt í lagi að vera líka hjá hinu foreldrinu, og að þú vitir að barnið hefur líka þörf fyrir að vera þar, og að þú sért sáttur við það.

 • Hvaða viðbrögðum geturðu reiknað með frá barninu?Barn bregst ævinlega við skilnaði. Spurningin er bara hvernig og hversu heiftarlega.Vertu meðvitaður um að barn, sem sýnir engin viðbrögð eða tilfinningar, þarf aðstoð við að tjá það, sem er að brjótast um innra með því, annars á það á hættu að leggjast í þunglyndi síðar meir.Forskólabarnið getur farið á fyrra þroskastig í hegðun. Það getur farið að pissa í buxurnar aftur. Barnið getur orðið ráðvillt, ergilegt eða óttaslegið.6-9 ára börn eru afar viðkvæm. Þau eru enn of ung til að skilja hvað um er að vera, og nógu stór til að skynja að þetta er ógnvekjandi viðburður. Þessi börn eru ennþá mjög háð foreldrum sínum. Á þessum aldri eiga börn sjaldnast gott með að tjá innri líðan sína. Þau geta brugðist við með reiði, einbeitingarörðugleikum og námserfiðleikum.

  9-12 ára barn er farið að mynda náið samband við aðra en foreldra sína. Ef skilnað ber að garði, getur verið þeim léttir að viðra vandamálin og tilfinningar sínar við einhvern, sem er ekki í fjölskyldunni. Taka á mark á óskum 12-13 ára barna um dvalarstað.

  Við skilnað má reikna með reiði, sorg eða þunglyndi.

  Ef barninu líður ekki betur, þegar ástandið kemst í eðlilegar skorður, þótt þið ræðið saman á opinskáan hátt, geturðu íhugað hvort ráðlegt sé að leita aðstoðar við að ræða við barnið. Þið getið líka velt því fyrir ykkur, hvort þið ættuð að fara í fjölskylduráðgjöf saman, eða fá viðtalsmeðferð fyrir barnið. Góðir vinir, sem þið berið traust til, geta hjálpað. Hópstarf með öðrum í svipaðri stöðu getur komið að miklu gagni.

 • Hvað skiptir máli?Talaðu við barnið. Vertu móttækilegur fyrir tilfinningum þess, hvort sem um er að ræða reiði, ótta eða áhyggjur. Allir eiga rétt á sínum tilfinningum – líka barnið, einnig þótt það særi þig að heyra hvaða áhrif ákvörðun þín hafi haft á barnið. Þó að þið hafið talað mikið saman í byrjun, er áfram þörf fyrir að létta á sér af og til. Veldu stundir þegar þú ert í góðu jafnvægi. Athugaðu hvort nýjar spurningar hafi vaknað. Opinská umræða er ótrúlega mikilvæg fyrir barnið. Ef þú veldur þessu ekki sjálfur, geturðu leitað til fagmanneskju.Barnið getur líka tjáð sig með öðru en orðum. Leikurinn er því mikilvægur. Leiktu gjarnan við barnið, og leikið ykkur gegnum allar tilfinningarnar. Barnið getur haft þörf fyrir að fá líkamlega útrás með ofsafengnum leik eða athöfnum.Barnið getur líka létt á sér með því að teikna. Börn teikna oft það, sem liggur þeim á hjarta. Með því að tala saman um teikningarnar er hægt að fá innsýn í hugarheim barnsins. Reyndu að forðast sleggjudóma.Það er mikilvægt að forðast að baktala hitt foreldrið. Það getur verið freistandi, en með því bregstu barninu illa. Barnið veit fullvel að það er að hluta af hinu foreldrinu komið, og þar með eins ,,vont“ og það. Ef þú gagnrýnir þinn fyrrverandi, gagnrýnir þú líka barnið.

  Ef þessi fyrrverandi er raunverulega hræðileg manneskja, mun barnið sjálft komast að því þegar fram í sækir.

  Börn eiga ekki að vera boðberar milli fráskilinna foreldra. Ef þú þarft að koma einhverju frá þér til þíns fyrrverandi, áttu sjálfur að koma því til skila. Ef þið eigið erfitt mað að ræða saman, getið þið gert það skriflega. Það er ábyrgðarleysi að nota barnið sem stuðpúða.

 • Hvað skiptir sköpum um viðbrögð barnsins við skilnaði?Auk ofangreindra atriða um hvernig eigi að standa að málum, og einlægra tjáskipta, eru einnig aðrir þættir, sem skipta máli:
  • Aldur barnsins, þegar skilnaðurinn á sér stað.
  • Vitsmunir barnsins.
  • Tilfinningalegur þroski barnsins.
  • Tengslin við foreldrana.
  • Við hvaða aðstæður skilnaðurinn verður.
  • Viðbrögð annarra við skilnaðinum.
  • Fyrri erfiðleikar, sem barnið hefur lent í.
  • Hvort hægt er að leita til einhverra, sem eru til þess hæfir.

   

 • Hvað ef það fær nýja fjölskyldu?Ef barnið þarf strax að aðlagast stjúpa eða stjúpu og nýjum ,,systkinum“, verður lífið þeim mun flóknara fyrir barnið.Gerðu ráð fyrir örðugleikum. Barnið mun streitast á móti. Það mun þurfa að berjast fyrir sínum sess í nýju fjölskyldunni. Bæði hvað varðar hin börnin og stjúpforeldrið.Það krefst ótakmarkaðrar þolinmæði að koma þessu í lag. Gott skopskyn greiðir götuna. Búðu þig undir að það getur tekið langan tíma að fara gegnum þetta ferli.

 

SHARE