Ég er algjör tækniunnandi. Ég hef, frá því ég varð eignaðist minn fyrsta farsíma, sem var ótrútlega flottur Ericson sími, verið mjög nýjungagjörn þegar kemur að símum. Ég hef alltaf verið að skipta mjög ört um símtæki því mér hefur oft fundist að síminn minn sé orðin úreltur ég VERÐI að fá mér „þennan nýja“ sem getur gert þetta og hitt sem þessi gamli getur ekki.

Ég er því enganvegin saklaus þegar kemur að því að „hanga“ ótæpilega í símanum. Ég ætla ekki að reyna að halda því fram og þeir sem mig þekkja geta vottað um það. Oft hef ég verið á stað þar sem virkilega óviðeigandi er að vera í símanum, en eitthvað „rosalega“ áríðandi var að koma í símann og ég verð að kíkja á það.

Í dag er ég með Instagram (2 aðgangar, minn og vinnunnar), Snapchat, Facebook (2 aðgangar, minn og vinnunnar), tvö netföng og Pinterest (2 aðgangar, minn og vinnunnar)  beintengt við símann minn. Þið getið alveg ímyndað ykkur hversu mikið ég fæ að VIP upplýsingum á degi hverjum í símann! Það er ógrynni! Þegar við svo bætum við öllum leikjunum sem ég er með í símanum, sem vilja reglulega minna á sig.

Allt í einu, um daginn, fékk ég ógeð af sjálfri mér! Þessi sími er að ræna mig meðvitund minni um umhverfið mitt. Hann truflar mig ALLSSTAÐAR. Hann truflar mig í matarboðum, á kaffihúsum, í bíó, á æfingu, í hádegismat, í afmælum, í búðum, á kósýkvöldi með fjölskyldunni, í vaxi á snyrtistofunni, á ÖLLUM biðstofum sem ég stíg fæti inn á, í heimsókn hjá ömmu minni og svona gæti ég endalaust haldið áfram. Eins hef ég fengið leið á því að síminn tekur athygli allra annarra í kringum mig, fólk hefur varla tíma til þess eins að vera saman því það er bara að fletta í gegnum líf annarra í símanum sínum.   Eins væmið fólki getur fundist það, þá vil ég vera með fullri meðvitund þegar ég geri alla þessa hluti sem ég taldi upp hér á undan. Ég vil nota heilann minn til að hugsa og velta fyrir mér tilverunni. Ég vil þurfa að muna hluti en ekki setja þá alla í símann minn. Ég vil fletta í gegnum Lifandi vísindi á biðstofum og ég vil spjalla við fólk. Sem dæmi: Ég vil sitja og tala við vinkonu mína í hádegismatnum sem við tökum saman, í staðinn fyrir að tilkynna það, hvað ég er heppin að borða góðan mat í góðum félagsskap, á öllum samfélagsmiðlum sem ég hef skráð mig inn á.

Auðvitað geri ég mér grein fyrir að þetta er hluti af nútímanum og ég þarf vissulega að nota þessa miðla talsvert við vinnuna mína á hverjum degi.

En ég fór samt að hugsa „hvað get ég gert“ til þess að breyta þessu.

Ég byrjaði á því að slökkva á öllum tilkynningum í símanum mínum. Það er komin þögn. Ég fæ ekki tilkynningar í hvert einasta skipti sem einhver setur inn athugasemd á mynd sem ég hef líka sett athugasemd á. Ég fæ ekki tilkynningu um það þegar einhver nýr aðili byrjar að nota Quiz up. Þetta er æðislegt.

Mig langaði samt að gera meira. Svo ég fór í búð og keypti þessa gullfallegu körfu. Svo prentaði ég út þennan miða og límdi á körfuna. Körfunni kom ég svo fyrir ofan á píanóinu mínu sem er við innganginn þegar þú kemur inn úr forstofunni.  Nú verða settar í gang nýjar reglur á heimilinu hjá mér.2012-11-27 09.05.59

Þegar fólk kemur heim til mín, hvort sem það er í veislu, saumó eða bara hvað sem er, þá ætla ég að setja þá kröfu að þau skilji símana sína eftir í körfunni. Já þetta hljómar kannski eins og tilætlunarsemi EN ef við skiptum, í huganum, símunum út fyrir fartölvu þá skiljið kannski hvað ég er að meina með þessu. Það er ekkert mál að hækka í hringingunni til þess að heyra ef ske kynni að síminn myndi hringja.

Það er enginn vafi að það er dónalegt að hanga á samfélagsmiðlum í símanum meðan þú átt að vera að spjalla við þá sem eru með þér, þá stundina. Hvað þá að vera að lesa og svara tölvupóstum í miðjum saumaklúbb! Ég get lofað ykkur því að ekkert okkar er það mikilvægt og ómissandi að við getum ekki aftengt okkur netinu í 2-3 klukkustundir þegar félagslífið kallar. Við megum ekki missa hæfileikann til að vera félagsverur. Internetið bíður eftir okkur!

Hér eru nokkur orð sem við skulum hafa í huga:

 

Verum saman!

Horfumst í augu þegar við tölum saman!

Leyfum þögninni að koma þegar hún vill og njótum hennar!

Virðum tímann sem aðrir veita okkur!

Upplifum hlutina þegar þeir gerast en ekki eftir á, þegar við horfum á myndbandið!

Nú ætla ég að skora á ykkur, kæru yndislegu og jákvæðu lesendur þessa pistils að gera þetta líka. Njótum samverustundana hér og nú og látum snjallsímana ekki stjórna okkar lífi.

Góðar stundir

SHARE