Þegar myndavélin skiptir máli

Ég man enn eftir fyrsta símanum mínum. Ericsson sími sem var með litlu loftneti og hægt að skipta um, það sem kallað var „frontur“. Ég átti bláan og rauðan „front“. Allir símar voru með tökkum. Maður skrifaði textaskilaboð með því að smella nokkrum sinnum á takkana til að fá rétta stafi.  

Öldin er auðvitað allt önnur í dag. Nú eru flestir komnir með það sem kallað er snjallsími. Ég hef verið með nokkra þannig og hef alltaf valið frekar Samsung en Iphone. Ég byrjaði á að fá mér Samsung og hef bara haldið mig við það. Ég fékk mér Samsung S10+ um daginn og er alveg ofsalega ánægð með hann. Hann er ekki bara með eina myndavél að aftan heldur 3. Já ég sagði þrjár! Ég get tekið alveg geðveikar myndir á símann minn. Það er hægt að stilla hann þannig að hann taki „víða“ mynd, t.d. af herbergjum eða stórum hóp af fólki og þær eru bara óaðfinnanlegar. Myndavélarnar að framan eru líka alveg truflaðar og svo skýrar myndir að það er hægt að telja hárin á hausnum á manni. Það er hægt að taka venjulega „selfie“ með henni og svo, eins og með myndavélinni, er hægt að taka víðari mynd. Það er algjör snilld ef maður er að taka „selfie“ með öðrum.

Ég er ekki mikið í að taka selfie en meira í því að taka myndir af hlutum, náttúru og dýrum. Hér eru nokkrar myndir sem ég hef tekið og þær eru, þó ég segi sjálf frá svakalega fínar.

Það er fleira á þessum síma sem var ekki á þeim sem ég átti fyrir, S7 edge, enda var hann orðinn frekar gamaldags miðað við allt þetta nýja á markaðinum. Eitt af því sem ég er ægilega lukkuleg með er andlitsskanni sem þekkir andlit mitt og aflæsist ef ég set símann fyrir framan andlitið á mér. MJÖG þægilegt. Ég er reyndar líka með fingrafaraskannann virkann svo ég nota hann í myrkri eða ef ég er það mygluð í framan að síminn þekki mig ekki. 

Annað sem ég elska er að sama hleðslutæki virkar á tölvuna mína, tölvu mannsins míns og nýja símann minn, en ekkert af þessu er frá sama framleiðandi. GEÐVEIKT! Getum við þá bara haldið okkur við þetta hleðslutæki? Plís! Maður getur ekki ímyndað sér hvað þetta er mikill lúxus fyrr en maður er að upplifa það.

Þegar ég fékk símann var forrit inni í honum sem heitir Snapseed. Það er eitt skemmtilegasta myndaforrit sem ég hef prófað. Þú getur breytt myndum eins og ekkert sé.

Þetta er upprunalega myndin
Hér er smá drama bætt við hana

Þessar tvær seinustu voru nú bara til gamans gerðar en það er hægt að gera nánast ALLT í þessu forriti.

En niðurstaðan er sú að síminn minn hefur allt sem sími og eðalmyndavél þarf að hafa og gott betur.

SHARE